Færsluflokkur: Dægurmál

005 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND

Rétt starfsemi á réttum stað

Á stöku stað er ekki heppilegt að vera með þjónustu t.d. útgerð, vegna aðstæðna svo sem léleg höfn, fámenni og fjarlægð frá mörkuðum.

Staður A getur verið með mun ákjósanlegri aðstæður en staður B.  B býr hins vegar við þá pólitísku og fjárhagslegu yfirburði til að beita aflsmunum og getur því hæglega beitt sér gegn faglegu mati, sem undir því álagi, hefur áhrif á þá sem taka ákvarðanirnar.

Sem dæmi má benda á að Egilsstaðaflugvöllur er með ákjósanlegar aðstæður landfræðilega séð og hefur skorað hæst sem slíkur út á landsbyggðinni.  Hvað varðar veðurfar miðað við Keflavíkurflugvöll er Egilsstaðaflugvöllur oftar en aðrir á hinum skala veðurfræðinnar þannig að þegar vont veður er í Keflavík eru talsverðar líkur á að það sé með afbrigðum gott á Egilsstaðaflugvelli og öfugt. 

Andstæður í veðri eru meiri á milli Keflavíkur- og Egilsstaðaflugvallar en á öðrum flugvöllum á Íslandi, enda var sérstaklega um það getið þegar valið stóð um byggingu nýs flugvallar á Egilsstöðum, sem jafnframt nýttist sem varaflugvöllur fyrir flug í íslenskri lofthelgi.

Fljótsdalshérað er einn af þeim stöðum á Íslandi, sem ekki hefur sterkan bakhjarl í atvinnulegu tilliti og þarf því oft að seilast djúpt í vasa íbúanna til að standa undir lögboðnum verkefnum. 

Ríkisstjórnin ætti að sjá um að staðir í sömu stöðu og Fljótdalshérað fengu að fullnýta kosti sína fram yfir þá staði sem úr öðru hafa að moða, sérstaklega þegar sterk rök mæla sérstaklega með því jafnframt.

Austurland er hin gáttin

Það er engin tilviljun að Norræna sigli til Austurlands, því þangað er styst.  Önnur stærsta millilandahöfn Íslands er á Austurlandi.  Rétt er að nefna það að fluglínan frá Norður Evrópu er jafnframt styst til Austurlands.  Áform um sæstreng til Bretlands gera ráð fyrir Austurlandi sem tengipunkti.

Það er eingöngu þegar fyrirtæki syðra geta hagnast á kostum Austurlands að það er inni í hugum þeirra sem selja vilja landið og gæði þess.  Þess á milli er Austurland lítils virði.  Með því að nota Austurland meira í millilanda-viðskiptum sparast tími og jafnframt verður kolefnissporið minna. 

Austurland, svarti bletturinn

Það er þyngra en tárum taki að Austurland hafi löngum verið svarti bletturinn í flestum ferðaáætlunum.  Þannig hafa skipulagðar ferðir frá Reykjavík gjarnan verið með endastöð við Mývatn annars vegar og Höfn í Hornafirði hins vegar.

Svo rammt kveður að þessu að það kemur beinlínis fram í opinberum gögnum að til Austurlands sé ekkert að sækja og álpist einhver þangað eru þar nokkrir gististaðir, en vænlegast sé að koma sér þaðan burt sem fyrst

Austurland og vitsmunalífið

Svo merkileg sem einhverjum kann að virðast, þá er ýmislegt í gerjun á Austurlandi þó ekki fari það allt hátt.  Þannig hefur veitingastöðum fjölgað hratt og er úrvalið fjölbreytilegt.  Það sama á um gistimöguleika, þar sem framboð hefur aukist gríðarlega og marbreytileikinn er umtalsverður.

Afþreyingarmöguleikum hefur vaxið fiskur um hrygg, ekki aðeins við sjávarsíðuna heldur einnig upp til dala. Gönguleiðir eru annálaðar, fallegir staðir að skoða, nú síðast Stuðlagil, sem á eftir að draga að sér margan ferðamanninn, baðstaðurinn Vök við Urriðavatn og kyrrðin sem ríkir á hálendinu. Vetrarferðamennskan er rétt að kíkja upp úr hjólförunum og þar er stór og óplægður akur.  Þetta eru einungis nokkur sýnishorn.

Egilsstaðir kjarnamiðstöðin

Löngum hefur það verið ljóst, að Egilsstaðir liggja vel að helstu leiðum í ferðamennsku og því nauðsyn að byggja frekar á möguleikum í þá átt, bæði fyrir þá sem Austurland byggja og ekki síður fyrir þá sem vilja sækja landshlutann heim og Ísland allt.

Vandamálin eru hins vegar hvernig á að vinna að markaðssetningu og þar greinir menn á um hvað á að markaðssetja.  Sumum finnst að leggja eigi áherslu á að markaðssetja flugvöllinn, meðan aðrir vilja leggja áherslu á möguleika svæðisins fyrir upplifun og afþreyingu.  Það síðarnefnda er heppilegra, vegna þess að fæstir stefna á Austurland eingöngu vegna þess að þar er flugvöllur frekar en að það sé aðdráttarafl að á staðnum sé bensínsjoppa, sem selur góða hamborgara.

Í markaðssetningu þarf að leggja áherslu á stóru, þekktu staðina á markaðssvæðinu t.d. Vatnajökul, Jökulsárlón, Mývatn, Öskju, Stuðlagil, Ásbyrgi, Karahnjúka, Dettifoss og Hengifoss, svo eitthvað sé nefnt.  Þá kemur Egilsstaðaflugvöllur sterkur vegna nálægðar við ferðamannastaðina.


004 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND

Airpark (nr. 4 á korti sjá 001 Hin gáttin..)

Á nýjum Egilsstaðaflugvelli verði markað svæði, þar sem hægt verður að byggja sér reisuleg íbúðarhús með bílageymslu og flugskýli.  Hvergi hefur slíkt svæði verið skipulagt á Íslandi. Slíkt svæði kann að vera áhugavert fyrir útlendinga jafnt sem íslendinga og ekki skemmir fyrir að markhópurinn er fjárhagslega vel stæður.

 

Einkasjúkrahús

Sú hagræðingarstefna, sem hefur verið við lýði síðan EXCEL-kerfið fór að tröllríða allri vinnu við skipulagningu, hefur komið mjög hart niður á landsbyggðinni og mannlega þættinum úthýst.  Austurland hefur borið mjög skarðan hlut frá borði og því þarf að grípa inn í með einhverjum hætti. 

Ef þetta flugvallarverkefni kemst á skrið og farið verður í að beina fólki inn á svæðið er það mikill ábyrgðarhluti að gera það án þess að geta samhliða boðið upp á heilbrigðisþjónustu, sem stendur undir nafni.  Þá verður að hugsa sér að erlendir sérfræðingar annist að mestu slíkt verkefni, því það er borin von er að íslenska ríkið komi að slíku verkefni á meðan sú harðvítuga  hagræðingarstefnu er við líði, þar sem  íslensk heilbrigðisyfirvöld eru búin að njörva sig niður í að færa nánast alla slíka þjónustu á einn stað.

Finnist einhver erlendur fjárfestir í slíkt sjúkrahús er ljóst að markaðurinn verður beggja vegna Atlantshafs  og markaðssvæðið því mjög stórt.  Miklir möguleikar eru jafnframt á endurhæfingu og heilsurækt m.a. vegna heita vatnsins.  Leirinn í Lagarfljóti á eftir að leika mjög stórt hlutverk í leirböðum tengdu slíku verkefni. 

 

Fljótsdalshérað í atvinnulegu tilliti

Flest bæjarfélög hafa atvinnustarfsemi, sem skilar tekjum til samfélagsins, mismiklum þó.  Reykjavík, sem höfuðborg Íslands, hefur til dæmis nær alla stjórnsýslu, helstu mennta-stofnanir, öflugustu sjúkrahúsin og sérfræðinga á ýmsum sviðum og almenningur í landinu tekur fullan þátt í þeim rekstri. 

Svo eru félög, sem hafa nær allar sínar tekjur af landsbyggðinni, vegna sérhæfðrar þjónustu þeirra en allar tekjur eru skattlagðar í Reykjavík.  Þar eru flugfélögin og landflutningar stærstir. 

Fólk og vörur eru þeirra lifibrauð, en litlar tekjur verða eftir þar sem þeirra er aflað.  Ef fólk byggi ekki  á landsbyggðinni væri þessi þjónusta í skötulíki.  

Litlu skila bankar til baka út á landsbyggðina og fjárfestingasjóðir eru mjög tregir í fjárfestingar utan þéttbýliskjarnanna á suðvesturhorninu.   Svona má lengi telja.  Sérstaklega er þetta slæmt víða á landsbyggðinni þar sem útgerð og vinnsla er í smáum stíl og jafnvel engin eins og á Fljótsdalshéraði.

 

  


003 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND

ADS-B flugstjórnarkerfi

Nýtt kerfi til flugstjórnunar  er skammstafað ADS-B og kemur í stað ratsjár, sem hefur verið nýtt um áratuga skeið við stjórnun flugs og skipaumferðar.  ADS-B kerfið nýtir merki frá  GPS gervitunglum og þekur mun stærra svæði og gefur betri yfirsýn fyrir flugstjórnir en núverandi ratsjárkerfi.  Ratsjáin verður þó ekki aflögð í náinni framtíð þar sem hún mun áfram hafa hernaðarlegt gildi. 

Munurinn á þessum kerfum er í aðalatriðum sá, að ratsjáin sendir frá sér merki, sem endurkastast af föstum hlutum til baka á upphafsstað og fæst þannig miðun á stefnu, hæð og fjarlægð hlutarins. 

ADS-B kerfið vinnur hins vegar með GPS merki og nýtir sömu upplýsingar og tækin um borð í flugvélunum og senda boð um staðsetningu í gegnum jarðstöðvar til flugstjórnamiðstöðva .

Egilsstaðir eru mjög vel í sveit settir með tillit til gervitungla og þar að auki er starfrækt GPS leiðréttingastöð á vegum ISAVIA innan fjallahrings Fljótsdalshéraðs, sem gengur undir nafninu EGNOS.  Tvær slíkar eru á Íslandi, hin er á Reykjanesi.

Kerfi þetta gagnast vel fyrir nákvæmnisaðflug að Egilsstaðaflugvelli og með uppsetningu tveggja ADS-B jarðstöðva á Héraði væri hægt að varpa mynd af aðflugi flugvéla, sem eru með þennan búnað, inn í flugstjórnarmiðstöðina og er vélin sýnileg þar til flugmaðurinn slekkur á kerfinu á flughlaði.

 

Airport city /  Aerotropolis

Byggingar á Egilsstaðaflugvelli eru í grunninn frá 1959 og vegna sífellt hertari krafna um aukin öryggissvæði í kringum flugbrautir, líður senn að því að núverandi byggingar verði að víkja.  Húsakosturinn hamlar jafnframt uppbyggingu og hertari kröfum um þjónustu innanhúss og gera auk heldur hlutina önugri við að koma upp heppilegu svæði fyrir flugvélastæði. 

Það er því tímabært að huga að heildstæðu, metnaðarfullu framtíðarskipulagi flugvallarins og kanna hvaða möguleikar eru þar og hvernig við viljum sjá framtíðina tengda Austfjörðum og hvaða möguleika flugvöllurinn hefur inn í lengri framtíð.

Með glæsilegri nýbyggingu  væri hægt að sækja á ný mið.  Fjölbreytta þjónustu má fá með því að reisa stóra flug-, verslunar-, þjónustu- og ráðstefnumiðstöð og koma þar öllu þannig fyrir að hægt verði að vinna innandyra að ýmsum verkefnum þar sem menn leiða saman  hesta sína í viðskiptalegu tilliti, þvert á Atlantsála.  Fámennið, næðið og kyrrðin gæti verið sá segull sem margir kunna að dragast að auk afþreyingar utan dyra og sú staðreynd að stutt er í víðernin austanlands.

Í flugklasanum (nr. 7 á korti 001 Hin gáttin...) verði stórt hótel, ráðstefnusalir, fjölbreytilegir matsölustaðir, góð aðstaða fyrir afþreyingu og heilsubót, verslanir, bílaleigur, bíó og samgöngumiðstöð Austurlands. 


002 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND

Eldsneytismálin

Lengi voru eldsneytismálin í þokkalegum farvegi á Egilsstaðaflugvelli með birgðir geymdar á Reyðarfirði og ekið jafnóðum til Héraðs þegar á þær gekk.  Hængur var á, þar sem olíufélaginu gekk seint að samræma framboð við notkun vegna breyttra tíma  í flugflota landsmanna.  Áður fyrr var notað bensín (Avgas 100) á Douglas DC3, DC4 og DC6 og birgðastaðan miðuð við það.  Þegar Flugfélag Íslands tók í notkun Fokker F27, sem notar steinolíu (Jet A1) brást olíufélagið ekki við og birgðir af bensíni og steinolíu héldust áfram óbreyttar.  Þotur nota einnig steinolíu á sína mótora.  Árið 1993, þegar nýmalbikuð braut var tekin í notkun, var sama staðan uppi og þrátt fyrir að olíufélaginu hafi ítrekað verið bent á að birgðir steinolíu þyrftu að taka mið af breyttum flugflota þá gerðist ekkert.  Það var ekki fyrr en málið var tekið fyrir á Alþingi að frumkvæði þingmanna Austurlands að málinu var kippt í liðinn.  Ekki svo að skilja að málin hafi komist í góðan farveg, en skárri þar sem flugfélög voru farin að sniðganga varaflugvöllinn á Egilsstöðum vegna takmarkaðra olíubirgða.

Sú einkennilega staða er enn við lýði að verð á flugvélaeldsneyti er hærra á landsbyggðinni en í Keflavík. Flest fyrirtæki bæði í einka- og opinberum rekstri hafa sett sér þau markmið að hafa vörur sínar og þjónustu á sama verði um allt land, en ekki olíufélögin.  Mikilvægt er að kippa þessu í liðinn vegna þess að flugrekendur setja eldsneytisverð fyrir sig þegar minnst er á að nýta Egilsstaðaflugvöll, þrátt fyrir að í nokkrum tilfellum vinnist munurinn upp vegna styttri flugleggja og hverfandi líkum á biðflugi vegna annarrar umferðar.

Á þessum tíma breytinga í orkumálum er rétt að staldra við og skoða hvar við erum stödd með allar þessar bensínstöðvar inni í miðju bæjarfélagi.  Er komið að þeim tímapunkti að öll leyfi fyrir bensín og olíusölu á Austurlandi verði endurmetin og farið í gagngera uppstokkun? Er ekki rétt að það verði skoðað í samhengi og verðjöfnun sé á öllu eldsneyti?  Er ekki rétt að samið verði við eitt erlent fyrirtæki um að koma inn á Austurland með sölu á eldsneyti og eitt íslenskt.  Hvernig er þessum málum háttað í Færeyjum?  Getum við átt samleið með þeim?   


001 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND.

Egilsstaðaflugvöllur.

Undanfarnar vikur hefur í fjölmiðlum verið nokkur umræða um þá áherslu samgöngu-ráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, um varaflugvallarmál og þann þunga sem hann leggur á endurbætur Egilsstaðaflugvallar.

Þegar endurbyggður flugvöllur á Egilsstöðum var tekinn í notkun 23.9.1993 hafði staðið nokkur styr um þá ákvörðun, en eftir ýtarlega úttekt sérfræðinga, hafði það flugvallarstæði allnokkra yfirburði í samantektinni og réð það ákvörðun ríkisstjórnarinnar um framhaldið.  Veðurfarslega og landfræðilega kom Egilsstaðaflugvöllur vel út úr samanburði og þar að auki var aðflug að flugvellinum gott og vaxandi umferð um hann.

Fjórir flugvellir voru í framboði til varaflugvallar. Staða hinna þriggja er í dag þannig; - að ekkert áætlunarflug er á Sauðárkrók, stopult flug var til Húsavíkur þar til flugfélagið Ernir tóku við keflinu með áætlaðar átta ferðir í viku 2020.  Síðast en ekki síst, hefur þurft að leggja mikla fjármuni til að lengja flugbraut og bæta verulega aðflugsbúnað fyrir millilandaflug til Akureyrar.

Nokkurs titrings hefur gætt vegna þessarar skoðunar samgönguráðherra og hefur hann í því máli haft vindinn i fangið.

Öflugar flugbrautir

Til að vera í stakk búinn að taka við auknu flugi inn á flugvöllinn, þarf að gera eina braut þannig úr garði að hún geti þjónað öllum flugvélum sem nýta sér Keflavíkurflugvöll.  Það táknar að aðalbrautin á Egilsstaðaflugvelli þarf að vera 2700x60m (nr. 3 á korti) að stærð.  Jafnframt þarf að leggja nýja braut 2000x45m (nr. 1 á korti) sem hefur stefnu inn Eyvindardal, þar sem vindur úr þeirri áttinni veldur af og til erfiðleikum við að nýta flugvöllinn.  Þar að auki er rétt að leggja neyðarbraut 900x30m (nr. 2 á korti), sem liggja mun sem næst austur-vestur.  Byggja þarf nýjan flugturn, vélageymslu og slökkvistöð (nr. 5 á korti) og stórt flughlað (nr. 6 á korti).

Meðfylgjandi er skrá sem sýnir kort af nýrri útfærslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Egilsstaðaflugvöllur. Er hægt að hugsa út fyrir boxið í fraktflugi?

Nú eru skrítnir tímar á landinu, en samt eru tækifæri að láta gott af sér að leiða.  Fiskúflutningur virðist geta gengi án takmarkana og því veltir maður fyrir sér hvort ekki sé rétt að spara tíma og fyrirhöfn, að sækja fiskinn í nærumhverfi þar sem hann er framleiddur í stað þess að trukka honum til Keflavíkur, þ.e. sækja hann beint á Egilsstaðaflugvöll.

 

„Við munum vinna úr stöðunni frá degi til dags og reynum að tryggja að fiskurinn komist á markað,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, spurður um hvort íslenskir fiskútflytjendur, sem nýtt hafa sér fraktflug með ferskan fisk, þurfi að hafa áhyggjur vegna ástandsins í flugsamgöngum heims vegna kórónu-faraldursins." 

 


Þarf lög frá Alþingi til að stoppa uppbyggingu í Reykjavík?

Er það ekki ábyrgðalaust að halda áfram að byggja í Reykjavík, án þess að til sé heildstæð rýmingaáætlun fyrir svæðið, þegar til hamfara kemur?

Verður Alþingi ekki að grípa í taumana og setja almennar reglur um almannavarnir, lámarkstíma sem má taka að rýma bæjarfélag og reglur um að flóttaleiðir séu ávallt greiðar?

Hvernig er hægt að forsvara að hrúga niður byggð á einu eldvirkasta svæði, án þess að huga nægjanlega að flóttaleiðum?


Velkominir með höfuðstöðvarnar á Egilsstaðaflugvöll

Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á Egilsstaðaflugvelli.  Þar verður á næsta ári lagt nýtt slitlag ofan á eldra frá 1993, sem eykur burð brautarinnar og auk þess er fyrirhugað að leggja akstursbraut samsíða flugbrautinni.  

Fljótlega eftir það verður að huga að nýrri og glæsilegri flugstöð, þar sem núverandi er farin að þrengja að flug- og akstursbraut. Jafnframt þarf að auka við flughlöð, til að þjóna sem best að vera varaflugvöllur fyrir Ísland og yfirflugið milli Evrópu og Ameríku.

Margt er í gerjun í tengslum við Egilsstaðaflugvöll, sem mun á næstu vikum verða kynnt almenningi.


mbl.is Nýtt flugfélag er í bígerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið þessu bulli

Hvað þarf til að koma vitinu fyrir ráðamenn flugmála?

Er ekki komið nóg af fáráðsgangi?

Er náttúran sjálf ekki búin að sýna fram á að ekkert vit er í að leggja flugbraut þarna?

Hver er rýmingaáætlun Reykjavíkur þegar fer að gjósa á Reykjanesi?

 


mbl.is Setja 200 milljónir í rannsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austurland afgangsstærð í heilbrigðismálum

Vegna ítrekaðra frétta um vandamál Landspítalans er full ástaða að velta öðrum lausnum fyrir okkur þannig að við íbúar Austurlands geti búið við það öryggi í heilbrigðismálum, sem við höfum fortaklausan rétt á.

Nú ríkir nánast stríðsástand milli Landspítala og stjórnvalda er málið því brýnna en ella.  Óviðunandi er að búa við þann djúpstæða ágreining sem einkennir samstarf fjárveitingavaldsins og spítalans og þær „pillur“ sem eru sendar sitt á hvað, beggja megin víglínunnar.

Ekki bætir úr skák, að borgarstjórinn í Reykjavík hefur í stöðugum hótunum um að leggja af Reykjavíkurflugvöll, sem er anddyri Austurlands að Landspítala ríkisins.   Engin önnur rök eru gild í því máli, að mati borgarstjóra, nema hans eigin.

Mikið óveður sunnan lands hefur sett mark sitt á alla umræðu um farþega um Reykjanesbrautina, en þar mynduðust langar laðir bifreiða sem komust hvorki lönd né strönd.  Svo bágt var ástandið, að sjúkrabíll frá Keflavík komst ekki leiðar sinnar í neyðarakstri og var s.k.v. fréttum um þrjátíu mínútur á leiðinni að sinna einstaklingi í hjartastoppi.  Annað dæmi um sama leiti vegna alvarlegs slyss að miklar tafir urðu á Reykjanesbrautinni.  Slíkt ástand er gjörsamlega óviðunandi.

Þegar svo jörðin fer að skjálfa á Reykjanesi, eldfjallaaskan byrgir sýn og hraun fer að fljóta, munu þeir sem þar búa eiga fullt með sig sjálfa við að rýma svæðið og bjarga sér og sínum.

Því er rétt að ráðamenn á Austurlandi velti fyrir sér öðrum lausnum í heilbrigðismálum og er vá knýr dyra hjá þeim.

Á hraðfleygri flugvél er hægt að komast til Bergen á innan við einum og hálfum tíma og við bætist um fimmtán mínútur við akstur milli flugvallar og sjúkrahúss.  Það er u.m.b. sami tíminn og má búast við að koma sjúklingi í bráðaaðgerð, ef notast þarf við Keflavíkurflugvöll og Reykjanesbrautina, - við bestu skilyrði.

Það er ljóst að Austfirðingar fá ekki nútímalegt sjúkrahús, vegna hreðjataks EXCEL sérfræðinga á ráðamönnum þjóðarinnar um að koma öllu fyrir í nafni hagkvæmni stærðarinnar á einn stað. 

Austfirðingar verða því sjálfir að taka heilbrigðismál fjórðungsins í sínar hendur og leysa þau á þann hátt að sómi sé að og kannaðir verði í fullri alvöru, möguleikarnir á því að ná samningum við Haukeland háskólasjúkrahúsið í Bergen, um að sinna bráðaþjónustu við íbúa Austurlands.

   

 


mbl.is „Óstarfhæft sjúkrahús fyrir bráðveika“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband