6. desember.

Þjóðhátíðardagur Finna er 6. desember.  Þar sem ég er finnskur í móðurætt, þá hefur dagurinn alla tíð fylgt mér og átt sinn sess í mínu lífi. 

Ég spurði vinnufélaga minn hvort ekki væri rétt að flagga mér til heiðurs í tilefni dagsins. 
“Það er ekki við hæfi” svaraði hann. 
Auðvitað vildi ég vita hvers vegna.

“Það er ekki við hæfi….”  svaraði hann aftur “….þá muni ég flagga í hálfa stöng, vegna þess að þú ert hálfur Finni”.

------------------------------
Fyrir nokkrum árum, lenti í því sem oftar, að vera spurður að því hvernig það væri að vera svona blandaður.  Það var heldri borgari úr Reykjavík í vinnuferð og talsverð “kaupstaðalykt” af honum þegar hann andaði ofan í hálsmálið á mér og spurði  “… og hvernig er svo að vera hálfur Finni....?” 
Ég svaraði honum stuttur í spuna.  “Það er skárra að vera hálfur Finni en fullur Íslendingur”
 

Íslensku jólasveinarnir eða Coca Cola sveinki?

Það fer æ meir í taugarnar á mér, að við íslendingar getum ekki eingöngu notað okkar frábæru jólasveina og ævintýrin sem þeim tengjast. Við eigum fín nöfn á okkar “sveinkum”, en erum sí og æ að klína þeim nöfnum á sterilseraðan Coca Cola jólasveininn.

Hvernig væri að segja “good bye” við þann vestræna og hafa þetta síðustu jólin sem hann er notaður. Næstu jól yrðu síðan jól íslensku jólasveinanna og áfram eftir það. Það mundi vekja verðskuldaða athygli og jafnframt mundu skapast nokkur vinna við að “rigga” þá gömlu upp og samhæfa. Allir vita nöfn þeirra og nokkuð ljóst er, hvernig hver og einn þeirra er í hátt og skapferli. 

Það eru fleiri en undirritaður sem er í nöp við Coca Cola jólasveininn. Hópur manna í Þýskalandi sama sinnis og vilja banna jólasveininn. Eftirfarandi mátti lesa á mbl.is fyrir nokkru:

"Hópur Þjóðverja hefur myndað samtök sem berjast fyrir „jólasveinalausum svæðum“ og segja jólasveininn orðinn að táknmynd verslunargervingar jólanna. Hafa samtökin látið prenta þúsundir límmiða með mynd af yfirstrikuðum jólasveini og lýst stór svæði í Þýskalandi og Austurríki jólasveinalaus. 

Frá þessu greinir Ananova.com. Þá hafa samtökin dreift bæklingum þar sem minnt er á að samkvæmt hefðinni er það heilagur Nikulás sem kemur með gjafir, en ekki hvítskeggjaði og rauðklæddi sveinninn frá Ameríku.

Í bænum St Wolfgang í Austurríki hefur rauðklæddi jólasveinninn verið bannaður á hinum árlega jólamarkaði. Framkvæmdastjóri ferðamálaráðs bæjarins, Hans Wieser, segir:  „Jólasveinninn er ekki hluti af þýskri eða austurrískri jólahefð - þessi rauðklæddi maður kom fyrst fram á síðasta áratug, eða svo.“ 

Svo mörg voru þau orð. Þetta gæti orðið liður í ferðaþjónustunni, landið þar sem ekta jólasveinar búa. Ferðamálanefndir ættu að sameinast um þetta. Bendi á framtak Egilsstaðabæjar að nýta sér jólaköttinn og vekja athygli á bænum og hefðinni. 

Hér eystra gætu Samtök Sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) haft forgöngu um að stofna samsstarfsnefnd um þetta málefni, sem gæti meira segja notað sömu skammstöfunina,

- Samtök Sveinka á Austurlandi (SSA)!!!

Það er áhugavert að kíkja inn á heimasíðu þjóðminjasafnsins og lesa um Íslensku jólasveinana.
http://www.thjodminjasafn.is/fraedsla/arlegir-vidburdir/joladagskra/jolasveinar/nr/715

Norðfjarðarvegur, hvar endar hann eiginlega?

Það hefur komist inn í uppdrætti og kort að kalla Fagradalbrautina, Norðfjarðaveg. Í ljósi sögunnar er það með ólíkindum, vegna þess að, það var á árunum fyrir 1930 sem vegur var lagður yfir Fagradal af miklum myndarskap og gerður akfær, eins og það var kallað í þá daga.

Frá ómunatíð var nothæfur kerruvegur yfir Fagradal. Vegur yfir Oddskarð var hins vegar ekki byggður upp fyrr, en á árunum rétt eftir seinna stríð, eða um tuttugu árum síðar og var opnaður um 1950. Fyrir þann tíma varð að fara á hestum yfir Oddskarð eða á tveim jafnfjótum. 

Það er einkennilegt að hugsa til þess, að vegur sem liggur frá Egilsstöðum í gegnum tvo bæi (Búðareyri við Reyðarfjörð og Eskifjarðarkaupstað), skuli nefndur alla leið eftir endastöðinni á Norðfirði. Það er nokkuð hastarlegt að geta ekki kallað þessa samgöngubót við Hérað, Fagradalsbraut eins og gert var í upphafi, og að hún skuli í opinberum gögnum Vegagerðarinnar og í gögnum Austur-Héraðs vera kölluð, - Norðfjarðavegur. 

Hér er úrdráttur úr yfirliti yfir þjóðvegi á landinu frá 1907. 

"Ísafold, 1. maí 1907, 34.árg., 27. tbl., bls. 106: 

Akbrautir og þjóðvegir.I.Landsverkfræðingurinn Jón Þorláksson hefir samið mikið fróðlegt yfirlit yfir ástand flutningabrauta og þjóðvega, eins og það var í fyrra....." 

".....Verkfræðingurinn telur þær upp akbrautirnar, sem nú eru lögboðnar og fyrirhugaðar, tíu að tölu. Hann segir þær vera 375 rastir (km.....)" 

Þá segir í upptalningunni að: 

"...6. Fagradalsbraut ............. 35.0 rastir........" 

Síðan er skilgreindar akbrautir og skilgreining á svokölluðum "Norðfjarðavegi" er eftirfarandi: 


"...Fagradalsbraut frá Búðareyri við Reyðarfjörð upp að Egilsstöðum....."


Þarf að velta þessu frekar fyrir sér?  Vegurinn um Fagradal heitir Fagradaldbraut.


Eru sveitastjórnarmenn lélegir í markaðsmálum?

Mörg sveitarfélög hafa gengið í gegnum sameiningakosningar og í leiðinni hefur verið skipt um nafn á því sveitarstjórnarstigi, sem kosið var um. Á heimasíðu fyrrum bæjarfélagsins Egilsstaðir, stendur nú Fljótsdalshérað, nafnið sem sveitarfélagið fékk eftir síðustu sameiningu. Í millitíðinni hét það Austur-Hérað.


Hvar t.d. hægt að finna það nafn á landakorti?


Fyrir okkur íbúa svæðisins, er þetta ekki svo flókið mál, en fyrir einhvern John Smith í Bretlandi, sem kom til Egilsstaða árið 1995 er þetta mun flóknara. Hann er að segja vinum og kunningjum frá þorpinu okkar og ætlar að finna það á netinu, en þá poppar alltaf upp einhver staður sem hann veit hvorki haus né sporð á, - Fljótsdalshérað. Lengi hefur það verið vitað, að besta og markvissasta auglýsingin er ánægður gestur.

Sveitastjórnarmenn eru að samþykkja fjármagn í markaðsmál og til að styrkja Markaðsstofu Austurlands í þeirri viðleitni. Á sama tíma eru þeir að rústa margra áratuga vinnu við markaðssetningu með gusugangi og kollsteypum í nafngiftum sveitarfélagsins. Það fjármagn sem fer í þennan málaflokk verður því að engu fyrir þeirra sök.


Markaðssetning felst í að koma á framfæri og viðhalda einföldum hlutum, þ.e. vörumerki. Vörumerkið má ekki breytast með nokkurra ára millibili, nema í kjölfarið á mjög öflugri markaðssetningu. Egilsstaðir er vörumerki, sem verður að vera sýnilegt. Það er því nauðsynlegt að það komi skýrt fram, m.a. í haus heimasíðunnar að þú er kominn á síðu Egilsstaða / Fljótsdalshéraðs.

Það er auðvelt að koma þessu við á heimasíðunni og setja það á áberandi stað í hausinn, við hliðina á Fljótsdaldhéraði.

Það er ekki ástæða til að tíunda öll sveitarfélögin á haus heimasíðunnar, sem stóðu að umræddri sameiningu, vegna þess að þau höfðu ekki sama vægi í markaðssetningunni og Egilsstaðir.


Jólakötturinn kominn á kreik á Egilsstöðum.

Undanfarin ár hefur jólaköllurinn fengið uppreisn æru á Egilsstöðum og jólakattarþema verið á aðventunni í bænum.  Edda Kristín Björnsdóttir á Miðhúsum hannaði köttinn í samvinnu við bónda sinn Hlyn Halldórsson og er hægt að kaupa hann ýmsum myndum frá þeim í jólavertíðinni.  Hann hefur einnig einnig verið búinn til sem barmmerki, sem allir verslunarmenn bera á aðventunni.

Jólakötturinn


Nokkrir varskir menn á ýmsum aldri  tóku sig til og smíðuðu einn 2.5m háan kött, sem verður gestum og gangandi til yndisauka við Landsbankann á Egilsstöðum nú um jólin. 

Þetta gerðu þeir í sjálfboðavinnu með stuðningi til efniskaupa frá Húsasmiðjunni, Landsbankanum, Sjóvá-Almennum og KHB.


Stóra stundin er runnin upp.

Tími okkar Austfirðinga er runnin upp með formlegri starfrækslu á þess mikla mannvirkis, Kárahnjúkavirkjunar.

Nokkrir einstaklingar hafa ólmast við að vara við þessu verkefni og fundið því allt til foráttu.  Nú síðast að verkið sé einhverjum mánuðum á eftir áætlun og kostnaðurinn kominn fram yfir áætlanir. 

Það hlakkar í sumum andstæðingum virkjunarinnar. 

Rétt væri fyrir þessa einstaklinga að róa sig aðeins niður, þeir standa frammi fyrir gerðum hlut og úr þessu er einungis framtíðin sem sker úr um réttmæti þessa verkefnis.  Einnig væri mönnum hollt að skoða í samhengi Kárahnjúkavirkjun og Grímseyjarferjuna, framúrkeyrsluna á síðarnefnda verkefninu og seinkun er í raun ótrúleg, á verkefni sem var í hendi og auðvelt að skoða nær allar hliðar þess.  

Í Kárahnjúkaverkefninu voru margir óvissuþættir, sem vissulega hefði mátt ransaka betur, en það þótti það dýrt að ásættanlegt væri að taka þá áhættu sem var tekin.  Þarna stöndum við einnig frammi fyrir ákvörðun, sem var tekin og einungis verið að æra óstöðugan að velta því frekar fyrir sér, bara að læra á því.  

Gangsetnign á Kárahnjúkavirkjun drógst um nokkra mánuði, en einungis lítið ef tekið er tillit til þess að líftími hennar er um hundrað ár, miðað við Grímeyjaferjuna með 10 - 20 ára líftíma.

Til hamingju með daginn kæru Austfirðingar og til hamingju með daginn allir Íslendingar, með þetta tæknilega afrek.


mbl.is Kárahnjúkavirkjun gangsett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýju föt keisarans......

Salan (lesist: gjöfin) á Eiðastað er orðinn farsi, sem hefur beina skírskotun ævintýri H.C Andersen um Nýju föt keisarans.  Sigurjón Sighvatsson athafnamaður, situr á síðkvöldum og saumar og saumar. 

Reglulega sýnir hann bæjarstjórninni á Egilsstöðum afraksturinn og þá fer ánægjukliður um meirihlutasöfnuðinn, sérstaklega sjálfstæðismennina, vegna þess að þeim finnst það svo ofboðslega flott sem hann er að gera. Safnaðarstjórinn, Soffía Lárusdóttir, botnar hins vegar ekkert í fólkinu, sakleysingjunum, sem ekkert sjá og ekkert skilja hvað um er að vera á Eiðum. 

Í stuttu máli þá seldi bæjarstjórnin á  Egilsstöðum, Sigurjóni Sighvatssyni jörðina Eiða og húsakost gegn yfirtöku á skuldabréfi bæjarins.  Bærinn keypti af ríkinu umrædda jörð og skuldabréf var vegna þeirra kaupa.

Sigurjón lofaði að reka á Eiðum menningarstarfsemi ýmiskonar og í aðdraganda kaupanna syndi hann  ráðamönnum merkilega möppu, hver innihélt stórtækar hugmyndir um að reysa staðinn till fyrri virðingar.  Eftir kaupin rykfellur mappa þessi upp í hillu og hefur ekki verið opnuð aftur.

Síðan kaupin áttu sér stað, sér almenningur enn ekki þá miklu uppbyggingu sem lofað var og átti að hefjast á allra næstu vikum.

Almenningur verður heldur ekki var við þá mörgu lista- og menningarviðburði sem þar var lofað. 

Almenningur varð hins vegar mjög áþreifanlega var við það, að Soffía Lárusdóttir varð mjög pirruð á því að vera spurð um málið og einnig á því hvað fáir voru himinlifandi yfir öllu því sem Sigurjón Sighvatsson var tilbúinn að “framkvæma” fyrir okkur. 

Fiskeldi á hverfandi hveli.

Það veit á gott, ef nú loks á að fara að taka sig saman í andlitinu og fara að leggja meiri áherslu á þorskeldi.  Þetta ætti að vera ráðstefna sem nær yfir allt fiskeldi, en fyrir sumar stöðvarnar er það samt ansi seint í rassin gripið.

Nú er nær allt fiskeldi að leggjast af á Austfjörðum og of litill skilningur hefur fram að þessu verið við það frumkvöðlastarf sem íbúar hafa sýnt. 

Með þessari ráðstefnu er vonandi verið að marka gæfurík spor til framtíðar.


mbl.is Mælir með sókn í þorskeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fornmunina heim í hérað.

Örfá misseri eru síðan flestir merkilegustu fornmunir þjóðarinnar höfðu það ömurlega hlutskipti að hýrast í kössum viðsvegar um Reykjavíkurborg.  Það var ill nauðsyn vegna viðhalds og viðgerða á Þjóðminjasafninu. Nú hefur ríkisstjórnin gert vel við það safn og nú er komið að ríkisstjórninni að sinna betur safnamálum úti á landsbyggðinni. 

Hvert bæjar- og sveitarfélag á, eða er í samstarfi um rekstur minjasafns. Húsnæði eru til staðar og starfsmaður (starfsmenn) eru á launum við vörslu þeirra muna sem í þeim eru geymd. Til þess að gera söfnin einstök, er nauðsynlegt að a.m.k einn verðmætur hlutur sé í hverju safni, hlutur eða hlutir sem fundist hafa í nágrenni safnanna og tengjast sögu svæðisins órjúfanlegum böndum.

Stöðugt er verið að reyna að finna leiðir til að “stöðva” ferðamenn lengur á hverjum stað, og af veikum mætt er verið að koma upp ýmiskonar afþreyingu og m.a. í því sambandi er verið að byggja á sögutengdri ferðamennsku.  "Menningartengd ferðaþjónusta” er einnig tískuorð, sem æ fleiri taka sér í munn við hátíðleg tækifæri.

Hér er því á ferðinni mjög brýnt og aðkallandi verkefni, sem gerðu landsbyggðina mun áhugaverðari en ella í augum ferðamanna, auk þess er ekki heppilegt að allir helstu dýrgripir Íslandssögunnar séu á einum stað. 
Allar gersemar þjóðarinnar geta horfið í jarðskjálfta, bruna eða öðrum hamförum í einu vetfangi. Seint verður hægt að koma í veg fyrir slys, en það má minnka áhættuna verulega með því að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.

Það er talið til tíðinda þegar þjóðin endurheimtir gersemar, sem varðveittir hafa verið í söfnum víðsvegar um heim, flestar í Danmörku og fá þær undantekningalaust varanlega búfestu í Reykjavík.  Eins eðlilegt og fornmunum er skilað erlendis frá, er sjálfsagt að Þjóminjasafnið skili þeim fornmunum sem það er með að láni af landsbyggðinni. 

Hlutir sem eiga heima í minni heimabyggð eru t.d.  Valþjófsstaðahurðin og Miðhúsasilfrið.  Flest bæjar og sveitarfélög eiga hluti í vörslu Þjóðminjasafnsins, sem teljast til stórmerkilegra muna. Þeim skal komið fyrir í þeim söfnum, sem staðsett er næst “heimaslóð” gripsins.

Ég legg til að menningarverðmæti okkar dreifbýlismanna, þeir fornmunir sem fundist hafa á landsbyggðinni, verði flutt heim í hérað. Með öðrum orðum, að nú þegar verði hafinn undirbúningur að flutningi fornmuna, sem Þjóðminjasafnið hefur haft að láni um árabil og þeim komið til síns heima, - þ.e. á landsbyggðinni.

Krafan okkar dreyfbýlismanna er skýr.  Fornmunina heim í hérað.

Ja, - hérna hér......

.... þetta er greinilega viðurkenning hjá Kolbrúnu og Steinunni Valdísi, þing-aðilum, að stjórnmálin á Íslandi eru aldeilis í afbragðs góðum málum hjá ríkisstjórninni, nú um stundir. 

Það segir okkur, að ekki er lengur þörf á að vinna í málum láglauna-aðila, fjölskyldu-aðila, öryrkja-aðila né eldri-aðilum, svo einhverjir séu nefndir.   

Stóru málin hjá þessum þing-aðilum, - bleikt og blátt annarsvegar,  ráðherra og "eitthvað annað" hins vegar.

Vonandi tekur heilbrigðis-aðilinn snarlega á þessu brýna máli í heilbrigðisgeiranum, sem þolir ljóslega enga bið. 

Ja,  - hérna hér........!!!!


mbl.is Ekki meira blátt og bleikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband