Fornmunina heim í hérað.

Örfá misseri eru síðan flestir merkilegustu fornmunir þjóðarinnar höfðu það ömurlega hlutskipti að hýrast í kössum viðsvegar um Reykjavíkurborg.  Það var ill nauðsyn vegna viðhalds og viðgerða á Þjóðminjasafninu. Nú hefur ríkisstjórnin gert vel við það safn og nú er komið að ríkisstjórninni að sinna betur safnamálum úti á landsbyggðinni. 

Hvert bæjar- og sveitarfélag á, eða er í samstarfi um rekstur minjasafns. Húsnæði eru til staðar og starfsmaður (starfsmenn) eru á launum við vörslu þeirra muna sem í þeim eru geymd. Til þess að gera söfnin einstök, er nauðsynlegt að a.m.k einn verðmætur hlutur sé í hverju safni, hlutur eða hlutir sem fundist hafa í nágrenni safnanna og tengjast sögu svæðisins órjúfanlegum böndum.

Stöðugt er verið að reyna að finna leiðir til að “stöðva” ferðamenn lengur á hverjum stað, og af veikum mætt er verið að koma upp ýmiskonar afþreyingu og m.a. í því sambandi er verið að byggja á sögutengdri ferðamennsku.  "Menningartengd ferðaþjónusta” er einnig tískuorð, sem æ fleiri taka sér í munn við hátíðleg tækifæri.

Hér er því á ferðinni mjög brýnt og aðkallandi verkefni, sem gerðu landsbyggðina mun áhugaverðari en ella í augum ferðamanna, auk þess er ekki heppilegt að allir helstu dýrgripir Íslandssögunnar séu á einum stað. 
Allar gersemar þjóðarinnar geta horfið í jarðskjálfta, bruna eða öðrum hamförum í einu vetfangi. Seint verður hægt að koma í veg fyrir slys, en það má minnka áhættuna verulega með því að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.

Það er talið til tíðinda þegar þjóðin endurheimtir gersemar, sem varðveittir hafa verið í söfnum víðsvegar um heim, flestar í Danmörku og fá þær undantekningalaust varanlega búfestu í Reykjavík.  Eins eðlilegt og fornmunum er skilað erlendis frá, er sjálfsagt að Þjóminjasafnið skili þeim fornmunum sem það er með að láni af landsbyggðinni. 

Hlutir sem eiga heima í minni heimabyggð eru t.d.  Valþjófsstaðahurðin og Miðhúsasilfrið.  Flest bæjar og sveitarfélög eiga hluti í vörslu Þjóðminjasafnsins, sem teljast til stórmerkilegra muna. Þeim skal komið fyrir í þeim söfnum, sem staðsett er næst “heimaslóð” gripsins.

Ég legg til að menningarverðmæti okkar dreifbýlismanna, þeir fornmunir sem fundist hafa á landsbyggðinni, verði flutt heim í hérað. Með öðrum orðum, að nú þegar verði hafinn undirbúningur að flutningi fornmuna, sem Þjóðminjasafnið hefur haft að láni um árabil og þeim komið til síns heima, - þ.e. á landsbyggðinni.

Krafan okkar dreyfbýlismanna er skýr.  Fornmunina heim í hérað.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband