27.11.2007 | 12:04
Bæjarstjórn Egilsstaða og bíó- og menningarleysið.
Umræðan vegna sölu og vandræðaganginn í kringum Valaskjálf, hefur oftar en ekki kallað á vangaveltur um bíóið, sem þar var rekið af bloggara þessara síðu og fjölskyldu hans í níu ár.
Þegar fjölskyldan tók að sér að endurskapa bíómenningu svæðisins var hljóðkerfið ónýtt, sýningarvélin þurfti viðhald, stólar voru ónothæfir og sýningartjaldið götótt og notað til að skipta salnum í Valaskjálf í tvennt. Það síðast nefnda orsakaði það að ekki var hægt að vera með dagskrá í stóra sanlum á meðan á bíósýningum stóð og nokkrir árekstrar urðu vegna þess.
Það var því úr, að við létum byggja þykkan hljóðeinangraðan vegg til að aðgreina bíóið frá aðalsalnum, og um leið var gólfi breytt og keyptir notaðir bíóstólar, sem þurftu talsverða upplyftingu áður en þeir töldust brúklegir.
Mikil vinna fór í þetta, blóð sviti og tár. Þetta hafðist að lokum og með nýju hljóðkerfi kom aldeilis afbragðs bíósalur í plássið. Þrátt fyrir umsóknir til menningarnefndar og bæjarstjórnar, fékkst enginn styrkur í þetta verkefni, en styrkur til hússins var notaður til að leggja út fyrir stólununum sjálfum. Veggurinn og breytingar á gólfi gengu upp í leigu, en það sem við gerðum sjálf, var sjálfboðavinna.
Vandræðin hófust svo fyrir alvöru, þegar bæjarstjórnin ákvað að selja Valaskjálf. Menningarhúsið, sem byggt var á sínum tíma af miklum metnaði og stórhug, sem öll sveitarfélögin á Fljótsdalshéraði stóðu að. Margir komu að byggingu hússins og margir lögðu hönd á plóg með sjálfboðavinnu. Góðar gjafir voru gefnar við vígslu þess. Þrátt fyrir mótmæli íbúa, var Valaskjálf selt.
Salan hússins var menningarslys, sem enn sér ekki fyrir endann á.
Flestir sem þekkja eitthvað til bíóreksturs vita, að hér fór saman áhugi á bíómenningu fjölskyldunnar og áhugi á að gera samfélaginu gott, en ekki gróðasjónamið, enda sjá flestir að það er mjög hæpið að græða á bíórekstri úti á landsbyggðinni. Það sýnir hin napri raunveruleiki, nánast hvergi bíó í rekstri.
Þegar nýir eigendur tóku við Valaskjálf komu nýjar áherslur og meðal annars sáu þeir tækifæri á aðra notkun á bíósalnum. Þá var aftur farið til bæjaryfirvalda til að athuga hvort enhver styrkur væri í boði til að halda starfseminni gangandi m.a. hærri leigu, en sem fyrr, - engar forsendur fyrir því.
Sagan um bíósalinn er eitt það daprasta sem ég hef horft upp á um ævina. Öllu var rústað. Gólfið rifið burt og stólum hent. Salurinn stóð þannig á þriðja ár. Ég hef ekki enn hafð geð í mér til að kanna hver staða hans er í dag.
Bíó er ekki flokkað hér undir menningu, samkvæmt skilgreiningu hjá "menningarvitum" svæðisins. Margir íbúar líta það öðrum augum. Það er mergur málsins.
Það særir okkur fjölskylduna mjög, þegar því er ítrekað haldið fram af ráðamönnum bæjarfélagsins, að við höfum ákveðið að hætta, þegar sannleikurinn er annar. Okkur var gert ómögulegt að halda áfram.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.11.2007 | 18:19
Velkomnir á Egilsstaðaflugvöll með starfsstöð.
Landhelgisgæslan eru hér með hvött til þess að setja upp starfsstöð á Egilsstaðaflugvelli. Þyrlur verða alltaf staðsettar í næsta nágrenni við Reykjavík og með þyrlu staðsetta á Egilsstaðaflugvelli, verður til mjög stórt svæði sem hægt er að dekka með þyrlum. Aðrir valkostir eru verri, af ýmsum ástæðum.
Ég bendi einnig á það, að um Egilsstaðaflugvöll er mikil flugumferð og í ljósi atburða þegar Fokker flugvél Flugfélagsins varð að lenda þar með annan hreyfilinn dauðan, þarf ekki ríkt ímyndunarafl til að sjá að þá má á ekki mikið út af bera til þess að flugvöllurinn lokist. Þá er ekki hægt að lenda venjulegum flugvélum á vellinum til ná í sjúklinga, - ef illa tekst til.
Þyrlur geta þrátt fyrir það athafnað sig á svæðinu. Næsta aðgerðasjúkrahús er á Norðfirði og það tekur þyrluna um 15 mínútur að fara þangað með slasaða en um klukkustund tekur að fara þessa leið í sjúkrabíl.
Þetta er annað tilfellið á árinu sem vél í neyð, snýr til Egilsstaðaflugvallar. Hitt tilfellið var þegar Boeing 757 í fraktflugi frá Svíþjóð, lenti á vellinum vegna aðvörunar um eld um borð.
Verði óhapp á Akureyrarflugvelli, er einungis um fimm mínútna akstur á mun betra og fullkomnara sjúkrahús en hægt er að státa af, - í öllum austurlandsfjórungi.
![]() |
Gæslan á Keflavíkurflugvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.11.2007 | 23:30
Takið eftir þessu, - íbúar í Reykjavíkurhreppi
Þarna eru stórhuga menn á ferð, sem standa myndarlega að verki og leysa vandamálin í samgöngumálum þjóðarinnar.
Í Reykjavíkurhreppi eru hins vegar endalaus vandamál hvort flugvöllurinn á að vera eður ei. Fram að þessu hefur ekki verið hægt að byggja eina flugstöð til að sinna um 500 þúsund manns í innanlandsflugi.
Það er hins vegar ekkert mál að byggja höll yfir menninguna við höfnina, þar sem innan við 200 þúsund manns munu sækja menningarviðburði.
Verði flugvöllurinn látinn víkja, legg ég til að Vatnsmýrin verði færð til upprunalegs horfs.
![]() |
Heathrow flugvöllur stækkaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2007 | 21:34
Austan við 17° vestur.
Oft veltir maður fyrir sér hvernig tekið er á hinum ýmsu málum samtímans, sérstaklega ef þarf að byggja upp einhverja þjónustu út um hinar dreifðu byggðir.
Dæmi A:
Það þarf að hafa staðsettar sjúkraflugvélar á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Akureyri, ekki á Austurlandi, sem er þó lengst frá tæknivæddu sjúkrahúsunum í Reykjavík.
Austurlandið austan við 17°vestur.
Dæmi B:
Þegar byggt er við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, eru smíðaðir hallandi veggir til að "lúkka" við ílla ígrundaða hönnun Leifsstöðvar. Ekki einasta er þetta fokdýrt, heldur kallar þetta á endalaus vandamál við frekari stækkun. Skásettir útveggirnir rýra aukheldur gólfplássið um hundruði fermetra. Ferjuhöfnin á Seyðisfirði mátti sæta því, að hver einasti fermillimeter var skorinn í burtu, sem nokkur smuga var á að skera. Húsið var því strax of lítið og krubbulegt fyrir starfsemina og skoðun á stærri bílum þarf að fara fram utan dyra.
Seyðisfjörður er líka austan við 17° vestur.
Dæmi C:
Stórt menningar- og ráðstefnuhús rís nú við höfnina í Reykjavík og þar er engu til sparað, nægu fjármagni til að dreifa, ekkert skorið við nögl. Þegar stóru verkefni um álver og virkjanir var hrint í framkvæmd á Mið-Austurlandi, voru litlir peningar til í að laga þá vegi, sem mestu þungaflutningarnir frá Reyðarfirði áttu sér stað og ekki var hægt að breikka tvær einbreiðar brýr á Fljótsdalhéraði eða endurbæta vegstubb sem er að hverfa ofaní drulluna á kafla. Fráleitt þótti að leggja nokkurn pening í að bæta við sjúkrahúsið á Egilsstöðum, þrátt fyrir mikla aukningu starfsmanna á svæðinu.
Enda er Mið-Austurland austan við 17° vestur.
Þetta eru bara smá sýnishorn og það ber að hafa í huga, að ákvaranir um þessi mál eru ekki teknar austan við 17° vestur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 13:21
Ryk af mannavöldum
Þetta ástand er viðvarandi vandamál í borginni og fer vaxandi. Ekki er mikil fyrirferð á umræðunni um þetta vandamál á bloggsíðum landsmanna, en ítrekað er búið að fjalla um moldrok frá lónbotni Kárahnúkavirkjunar á bloggsíðum. Ég skil ekki alveg þessar áhyggjur, en þakka samt hina miklu umhyggju sem margir bloggverjar sýna okkur austfirðingum.
Ég er fæddur og uppalinn á Fljótsdalshéraði, hef búið á því svæði nær allan minn aldur og síðan 1981 hef ég unnið í flugturninum á Egilsstaðaflugvelli, og tel mig nokkuð dómbæran á þetta meinta moldrok. Þetta sem margir kalla moldrok er í raun leirfok og finn ösku/vikursalli, en það er nú allt annað mál.
Mín upplifun er þessi. Einu sinni til tvisvar sinnum á ári er hér leirfok. Það fer eftir vindáttinni hvert mökkurinn stefnir. Stundum fer hann suður um með stefnu frá Öskju til Djúpavogs. Stundum rýkur leirinn frá sama svæði með stefnu á Vopnafjörð. Af og til er stefnan yfir Egilsstaði og þá er skyggnið yfirleitt milli 8 og 9 km. Ég hef einu sinni á öllum þessum tíma orðið vitni að skyggni sem er um og innan við einn km og sá þá ekki úr flugturninum yfir í Fellabæ, handan Lagarfljóts.
Þetta leirfok er frá svæðinu sunnan við Öskju en mest frá svæðinu í kringum Jökulsá á Fjöllum, af svæði sem er margfalt stærra en allt svæðið sem mögulega kemur undan vatni við lónið við Kárahnjúka. Hugsanlega bætist einhver örfá prósent við strókinn á meðan þetta ástand varir, en hvort skyggnið verður 7,5 til 8,5 km skiptir bara engu mála, jafnvel þó að á tuttugu ára fresti sjáist ekki frá flugvellinum yfir í Fellabæ.
Þetta er mjög finn salli og smýgur inn um allt og kallar á hreingerningu á heimilunum þegar verst lætur og skapar húsráðendum aukavinnu við þrif. Ég minnist þess ekki að yfirvöld heilbrigðismála á Austurlandi hafi séð ástæðu til að vara við þessu ástandi.
En, - enn og aftur, þakka hina miklu umhyggju sem okkur er sýnd vegna þessara vandamála, sem við íbúar svæðisins, sjáum reyndar ekki sem mikið vandamál, - bara náttúrulegt fyrirbæri sem lifa þarf með.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2007 | 18:24
Er Tollstjórinn í Reykjavík að brjóta landslög?
Þetta hefur meðal annars það í för með sér að sumir flugmenn minni véla þurfa að leggja lykkju á leið sína til (eða frá) Evrópu og fara um Egilsstaðaflugvöll í stað þess að nýta sér Hornafjarðarflugvöll, sem er þó nær flugleið þeirra. Flestir flugmanna áforma millilendingu í Reykjavík, á leið sinni milli heimsálfa og eru margir hverjir að ferja flugvélar til nýrra eigenda.
Þessar vélar þarf að tollafgreiða og utan skrifstofutíma tekur Sýslumaðurinn á Seyðisfirði fyrir afgreiðslu eins hreyfils vélar í ferjuflugi á Egilsstaðaflugvelli (23. ágúst sl.) 13.980.-IKR. Sambærilegar tölur fyrir Reykjavík eru 2.000.-IKR en á Akureyri og í Keflavík er rukkað inn 3.900.-IKR.
- Hvað veldur þessum gríðarlega mun?
- Er Sýslumaðurinn á Seyðisfirði að fara að lögum eða eru hin embættin að gefa afslátt?
- Hvar í lögum er getið um slíkan afslátt?
Ekki eingöngu lenda flugmenn í auknum kostnaðu við að lengja flugtímann hjá sér, vegna lagabreytinganna, heldur eru þeir ofurseldir embætti sem virðist hafa sjálftöku í að "ræna" saklausa flugmenn þegar þeir álpast austur á Egilsstaðaflugvöll.
- Er þessi mismunun í anda nýsettra laga og í samræmi við þau lög sem eru í gildi um tollgreiðslu á loftförum?
- Hvernig ganga svona vinnubrögð upp gagnvart jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar?
Íþróttir | Breytt 22.11.2007 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2007 | 16:30
Bloggið mitt!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)