Bloggfærslur mánaðarins, september 2020

Tekjur af upprunavottorði endi í heimabyggð orkuuppsprettunnar

Sala á einskonar “aflátsbréfum” vegna hreinleika raforku er talin réttlætanlegt vegna samþykkta ESB og felst í að selja eitthvað óskilgreint, einhver gæði, sem einhver getur rukkað annan um til að sá sem kaupir geti flaggað betri ímynd í sínum rekstri.  Fyrr á öldum gátu menn greitt sig frá glæpum sínum á svipaðan hátt.  Sá gjörningur var að sjálfsögðu, - gegn hóflegu gjaldi.

Það virðist ekki alveg ljóst hverjir mega selja þessi vottorð, hverjum né fyrir hve háa upphæð.  Þetta lítur út fyrir að vera á pari við píramitasvindl.  Einhver græðir á einhverju, sem virðist óljóst og stingur í eigin vasa án þess að gera nokkra grein fyrir upphæðinni.  Óljóst er um hve háar upphæðir er að ræða en Orkustofnun sér um að „fylgjast“ með þessum viðskiptum.

Sé þetta talinn eðlilegur viðskiptamáti ættu tekjur fyrir þessi upprunavottorð með réttu að renna í það sveitarfélagi þar sem vatnið er tekið til að framleiða orkuna.  Það er hin eina rétta útfærsla á að rukka fyrir þá hreinu orku, sem verðskuldar að hljóta slíka vottun. Óumdeilt er að vatnið, sem safnað er í uppistöðulón í sveitarfélagi, er upphafspunktur frá framleiðslu til neytenda og því með réttu upphafið á löngu ferli og því er erfitt að véfenga rétt sveitarfélags til að fá greitt fyrir upprunavottorð á hreinni Íslenskri orkuafurð.

Sé orkufyrirtæki að selja orku án þess að innheimta þetta gjald, skal það samt sem áður standa skil á gjaldi fyrir upprunavottorð, enda er það gjald óháð því hvað orkufyrirtækið fær fyrir orkusölu til neytenda.  Hreinleiki orkunnar er sá sami hvort greitt er fyrir hana eða ekki og hæpið að mismuna kaupendum vegna þess.

Breyta þarf landslögum þannig að greiðsla fyrir upprunavottorð endi í því sveitarfélagi, sem sannanlega leggur til land undir uppistöðulón og er upphafsstaður í orkuvinnslunni.  Þessi greiðsla orkufyrirtækja skal að sjálfsögðu vera, - gegn hóflegu gjaldi.


Benedikt V Warén

Skipar 11. sæti Miðflokksins í Múlaþingi


Ætti að hafa hátæknisjúkrahús Austfirðinga í Bergen?

Síðustu tveir pistlar mínir fjölluðu um Egilsstaðaflugvöllinn og möguleika hans í samfélaginu.  Í seinni pistlinum var fjallað um samspil flugvallar og sjúkrahúss.  Það er öllum ljóst að ríkjandi stjórnvöld vinna ekki nægjanlega markvisst að koma verkefnum á landsbyggðina, þvert á það sem ítrekað kemur fram þar á pólitískum fundum.  Mjög hljótt er t.d. um hvenær ráðast á í nauðsynlegar endurbætur á Egilsstaðaflugvelli, sem kallað hefur verið eftir og lofað á fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni á jólaföstu 2019.  Ennþá lengra er í að sjúkrahús verði reist á Egilsstöðum, en þar gæti pólitískur þrístingur á heilbrigðisráðherra skýrt málið auk samþjöppunartilburða kerfisþrælanna.

Áður en Covid 19 tók yfir allan fréttaflutning fjölmiðla á Íslandi, var fjallað um að nánast ríkti stríðsástand milli Landspítala og stjórnvalda, þar sem djúpstæður ágreiningur opinberaðist um fjárveitingar til spítalans og „pillur“  voru miskunnarlaust sendar beggja megin víglínunnar. 

Þá var jafnframt fréttaflutningur um mikið óveður sunnanlands og um erfiðleika  vegfarenda á Reykjanesbrautinni.  Þar mynduðust langar raðir bifreiða, sem komust hvorki lönd né strönd vegna fannfergis og ófærðar.  Svo bágt var ástandið, að sjúkrabíll komst ekki leiðar sinnar í neyðarakstri og var s.k.v. fréttum um þrjátíu mínútur á leiðinni að sinna einstaklingi í hjartastoppi, frá sjúkrahúsinu í Keflavík upp á Keflavíkurflugvöll.  Annað dæmi um sama leiti var vegna alvarlegs slyss, sem leiddi af sér klukkustunda tafir á Reykjanesbrautinni.  Að slíkt ástand gæti bætist við sjúkraflug af landsbyggðinni setur að manni hroll, svo ekki sé meira sagt.

Ekki bætti úr skák að borgarstjórinn í Reykjavík hefur í stöðugum hótunum um að leggja af Reykjavíkurflugvöll, sem er anddyri landsbyggðarinnar að Landspítala Háskólasjúkrahúsi og helstu sérfræðingum þjóðarinnar í heilbrigðismálum.   Engin önnur rök eru gild í því máli, að mati borgarstjóra, nema hans eigin.

Það er morgunljóst að það þarf að berjast fyrir öllum framförum á landsbyggðinni ekki síst í heilsugeiranum.  Verði ekkert gert til að kom á móts við íbúa fjórðungsins í heilbrigðismálum, verður að velta upp öðrum lausnum fyrir Austurland.   Allir verða að leggjast á eitt að leita allra leiða að koma málum í það horf í heilbrigðisgeiranum að íbúar fjórðungsins geti búið við það öryggi, sem þeir hafa skýlausan rétt á.

Það er svo eitt að finna fyrir einhverju, sem viðkomandi telur veikindi og annað að ganga þann dimma dal um ganga heilbrigðisstofnana um að fá greiningu.

Stundum er heimilislæknirinn, eflaust fær í sínu fagi, af erlendu bergi brotinn.  Oftar en ekki koma upp tungumálaerfiðleikar, sem flækja málin verulega.  Þar getur sjúklingurinn verið ófær að tjá sig á erlendri tungu og læknirinn á þeirri íslensku.  Þetta skapar samskiptavandamál, sem leiðir það af sér að trauðla er hægt að ná fundi hjá sérfræðingi og alls ekki ef ekki er hægt að tjá sig um vanlíðan sína við heimilislækninn og fá „bevis“ hjá honum upp á slíka ferð.

Tækninni fleygir hratt fram og nú er hægt að láta hana um að skanna sjúklinginn með réttu tækninni, með sérhæfðu starfsliði.   Lokagreining færi svo fram í fjarlægum löndum án þess að þörf sé á að sjúklingur og sérfræðingur hittist.  Að lokinni greiningu verði sjúklingi vísað á réttan stað til að fá bót meina sinna.

Á hraðfleygri flugvél er t.d. hægt að komast til Bergen á innan við einum og hálfum tíma og við bætist um fimmtán mínútur við akstur milli flugvallar og sjúkrahúss.  Það er styttri tími en má búast við að koma sjúklingi í bráðaaðgerð, ef nota þarf Keflavíkurflugvöll.

Málin gætu æxlast þannig að Austfirðingar yrðu sjálfir að taka heilbrigðismál fjórðungsins föstum tökum og leysa þau á þann hátt að sómi sé að  t.d.  að kannaðir verði möguleikar á að ná samningum við Haukeland háskólasjúkrahúsið í Bergen, um að sinna bráðaþjónustu við íbúa Austurlands.  Gerð verði krafa um að nýta í það verkefni, hluta af þeim tíu prósentum, sem Austurland leggur til samfélagsins, fram yfir það sem rekstur fjórðungsins kostar.  Það væri ef til vill réttara að fara jafnframt að huga að því, að hafa eina námsbraut í grunnskólunum í norsku, - frekar en dönsku.  

 

Benedikt V Warén

Í 11. sæti Miðflokksins í Múlaþingi


Varahöfuðborgin og hátæknisjúkrahúsið.

Svo merki­legt sem það kann að hljóma þá virðist það vera í huga margra að þar sem sjúkra­hús er staðsett þar skuli einnig vera full­bú­inn flug­völl­ur. Víðast á Íslandi er þetta þannig.

Einn staður sker sig þó all­hressi­lega úr, með einn best út­búna flug­völl á Íslandi en ein­ung­is slitr­ur af heilsu­gæslu­stöð. Flug­völl­ur­inn er ekki graf­inn milli hárra fjalla, hann er með þægi­legt aðflug inn á báða enda og ekki er sér­stök þörf á að koma ILS-aðflugi inn á þann enda, þá flogið er úr norðri. Flug­völl­ur­inn er mal­bikaður og vegna aðstæðna í lands­lag­inu er hann sá flug­völl­ur sem sjaldn­ast er ófær veðurfars­lega séð, ef frá er tal­inn Kefla­vík­ur­flug­völl­ur. Kefla­vík­ur­flug­völl­ur hef­ur naum­an vinn­ing, ein­göngu vegna þess að þar eru tvær flug­braut­ir. Ef Kefla­vík­ur­flug­völl­ur væri ein­ung­is með eina flug­braut stæði hann að baki þeim flug­velli sem hér er til umræðu.

Heima­bær um­rædds flug­vall­ar er þannig í sveit sett­ur að þar eru all­ar gerðir af nátt­úru­vá í lág­marki, nema hugs­an­lega skógar­eld­ar. Hverf­andi áhætta er af ágangi sjáv­ar og hækkuð sjáv­ar­staða mun seint hafa áhrif þar. Skriður, jarðskjálft­ar, eld­gos, aur- og snjóflóð eru nær óþekkt á svæðinu. Vatns­flóð hafa ekki telj­andi hættu í för með sér, þótt áður fyrr hafi þau haft lít­ils­hátt­ar trufl­andi áhrif á dag­leg störf íbúa svæðis­ins en frá­leitt lífs­hættu í för með sér. Þar hafa þak­plöt­ur ekki fokið af húsum síðan rifflaður þaksaum­ur var fund­inn upp. Staður­inn er þar af leiðandi ekki ein­ung­is kjör­inn til að taka víð íbú­um ann­arra svæða þegar fram­an­greind­ar ham­far­ir, ein­ar eða fleiri, hella sér yfir held­ur ætti það að vera mark­mið stjórn­valda að búa svo um hnút­ana að íbú­ar þessa lands ættu sér at­hvarf þar þegar nátt­úru­vá knýr upp á hjá þeim. En merki­legt nokk – þar er ekk­ert sjúkra­hús.

Stefna stjórn­valda, eins og all­ir vita, er að koma allri stjórn­sýsl­unni, mennta­stofn­un­um, menn­ing­ar­stofn­un­um, heil­brigðis­kerf­inu, al­manna­vörn­um o.s.frv. inn á eitt eld­virk­asta landsvæði Íslands. Hver er rým­ingaráætl­un Reykja­vík­ur og ná­grenn­is ef til ham­fara kem­ur? Er það um Hval­fjarðargöng­in ein­föld eða tvö­föld? Er það um flug­völl­inn í Hvassa­hrauni? Hvert á fólkið að fara?

Er ekki rétt að staldra ögn við í þeirri vinnu að byggja nán­ast ein­göngu upp í Reykja­vík? Fram að þessu hef­ur excel-sér­trú­ar­söfnuður­inn haft það eina mark­mið að færa allt til Reykja­vík­ur án þess að fram hafi farið áhættumat á því fyr­ir íbúa þess svæðis, fyr­ir­tæki eða stofn­an­ir. Það má varla skipta um þvotta­efni á al­menn­ings­sal­erni án þess að gera um það áhættumat. Hvar er aðgengi­legt áhættumat fyr­ir Reykja­vík og ná­grenni? Hvernig hef­ur það verið kynnt íbú­um?

Hag­kvæmni stærðar­inn­ar er gjarn­an flaggað til að rök­styðja samþjöpp­un valds og stofn­ana, en aldrei er fjallað um neitt í víðara sam­hengi, eins og aðgengi annarra íbúa lands­ins að þjón­ustu á veg­um rík­is­ins.  Þar eiga íbú­ar lands­byggðar­inn­ar eng­an „kassa“ í excel-skjöl­um, enda er æv­in­lega lagt upp með fyr­ir­fram­gefn­ar niður­stöður til að fá „heppi­lega“ lausn. Ferðakostnaður eru fjár­mun­ir sem renna beint úr vasa skatt­greiðenda utan höfuðborg­ar­svæðis­ins og ættu, jafn­ræðis­regl­um sam­kvæmt, að vera a.m.k. frá­drátt­ar­bær­ir til skatts, nema all­ar slík­ar ferðir væru greidd­ar af al­manna­fé vegna ferða í stofn­an­ir sem ekki hafa starfs­stöð inn­an eitt hundrað kíló­metra radíuss frá heim­ili íbú­ans.

Aft­ur að upp­hafi þess­ar­ar grein­ar. Bæj­ar­fé­lagið sem hér er um rætt heit­ir Eg­ilsstaðir. Flug­völl­ur­inn er góður og væri enn betri ef hann væri lengd­ur strax, eins og áformað er, í tvö þúsund og sjö hundruð metra, og breikkaður og skráður sem sex­tíu metra breið braut. Leit­un er að betri aðstæðum fyr­ir vara­flug­völl á Íslandi, sem jafn­framt er í full­um rekstri. Með mark­viss­um hætti yrði lággjalda­flugi frá Evr­ópu vísað þangað til að minnka kol­efn­is­spor ferðamanna á Íslandi. Eg­ilsstaðir yrðu auk þess skil­greind­ir sem vara­höfuðborg Íslands og fengju þar af leiðandi sér­staka meðhöndl­un sem slík, t.d. með full­komnu sjúkra­húsi, út­stöðvum fyr­ir helstu stofn­an­ir rík­is­ins og öflugu menntakerfi.

 

Benedikt V Warén

11. sæti Miðflokksins í Múlaþingi


Egilsstaðaflugvöllur. Hin gáttin í flugi til Íslands

Egilsstaðaflugvöllur hefur verið aðalflugvöllur fyrir Austurland síðan 1952, þegar eldri grasflugbraut vék fyrir malarflugbraut á bökkum Eyvindarár. Stórum áfanga var náð 1993, þegar endurbyggður flugvöllur á Egilsstöðum var tekinn í notkun.  Með þeim endurbótum, urðu til nýir og spennandi möguleikar á  margskonar notkunar flugvallarins fyrir Austurland allt.

Slitlag flugbrautarinnar er hinsvegar komið á það stig, að Öryggisnefnd íslenskra atvinnuflugmanna hefur ályktað um að flugvöllurinn þurfi nýtt malbikslag nú þegar til þess að teljast full öruggur fyrir lendingar stærri flugvélar við krefjandi veðurfarslegar aðstæður.  Hækka þarf þjónustustig við flugfélög sem nýta flugvöllinn  og sjá til þess að eldsneytisgjald sé sama um land allt.  Stærra flughlað er jafnframt aðkallandi þegar millilandaflug kemst í fyrra horf.  Full ástæða er að hafa áhyggjur af stöðugum jarðhræringum á Reykjanesi og þeim vanda, sem landsmenn lenda í þegar fer að gjósa, sé ekki annar valkostur í boði til að sinna millilandaflug. Byggja þarf nýja flugstöð í náinni framtíð og eru til metnaðarfullar hugmyndir hjá Miðflokknum um öflugan þjónustukjarna í þeim áætlunum.

Veðurfarslega og landfræðilega er Egilsstaðaflugvöllur vel staðsettur og aðflug að flugvellinum eitt það besta á landinu og samkvæmt úttekt sérfræðinga er hann ákjósanlegur varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll, þar sem andstæður í veðurfari eru mestar milli flugvalla og áreiðanleiki áætlunarflugs nær 99%. 

  • Nokkrir möguleikar eru í ferðaþjónustu með beinu flugi inn á Egilsstaðaflugvöll.
  • Ferðamenn inn á Austurland.
  • Ferðamenn í hringferð um landið.
  • Íslendingar í ferðalög til útlanda.
  • Skipta út farþegum á skemmtiferðaskipum.
  • Flug og ferja í samvinnu við Smyril-Line.
  • Auknir möguleikar eru á flugi með fiskafurðir á markað.
  • Egilsstaðaflugvöllur er miðsvæðis útgerða- og fiskiræktarstaða.
  • Flutningur verðmætra afurða úr söltu og ósöltu vatni.
  • Framleiðslufyrirtækin eru frá Höfn í suðri að Eyjafirði í norðri.
  • Markaðssvæðið er beggja megin Atlandsála.
  • Einhverjir möguleikar eru á innflutningi til Íslands um Egilsstaðaflugvöll.
  • Kveða þarf niður þá mýtu, að megnið af innflutningi þurfi að fara um Reykjavík.

Austurland er hin gáttin
Það er engin tilviljun að Norræna sigli til Austurlands, því þangað er styst.  Önnur stærsta millilandahöfn Íslands er á Austurlandi.  Rétt er að nefna það að fluglínan frá Norður Evrópu er jafnframt styst til Austurlands. 

Kolefnaspor í flutningum.
Með því að nota Austurland meira í millilandaviðskiptum sparast tími og jafnframt verður kolefnisspor landsins minna.

Ríkir hagsmunir
Fljótsdalshérað er einn af þeim stöðum á Íslandi, sem ekki hefur sterkan bakhjarl í atvinnulegu tilliti hvorki öflug útgerðafyrirtæki né orkufrekan iðnað og þarf því að seilast dýpra í vasa íbúanna en eðlilegt getur talist, til að standa undir lögboðnum verkefnum.  Ríkisstjórnin ætti því að sjá um að standa myndarlega að uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar og fullnýta kosti hans, ekki síst þegar sterk rök eru með því.  

Sigurður Ingi Jóhannsson lofar endurbótum
Í lok árs 2019 lofaði framsóknarráðherrann endurbótum á Egilsstaðaflugvelli.  Hvar sjást merki þess að hann ætli að standa við það?  Vita frambjóðendur Framsóknarflokksins í Múlaþingi eitthvað um það?

Frekari hugleiðingar um flugvallarmá undirritaðs, er að finna hér í fyrri færslum. 

Benedikt V Warén

11 sæti í framboði fyrir Miðflokkinn í Múlaþingi


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband