Ætti að hafa hátæknisjúkrahús Austfirðinga í Bergen?

Síðustu tveir pistlar mínir fjölluðu um Egilsstaðaflugvöllinn og möguleika hans í samfélaginu.  Í seinni pistlinum var fjallað um samspil flugvallar og sjúkrahúss.  Það er öllum ljóst að ríkjandi stjórnvöld vinna ekki nægjanlega markvisst að koma verkefnum á landsbyggðina, þvert á það sem ítrekað kemur fram þar á pólitískum fundum.  Mjög hljótt er t.d. um hvenær ráðast á í nauðsynlegar endurbætur á Egilsstaðaflugvelli, sem kallað hefur verið eftir og lofað á fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni á jólaföstu 2019.  Ennþá lengra er í að sjúkrahús verði reist á Egilsstöðum, en þar gæti pólitískur þrístingur á heilbrigðisráðherra skýrt málið auk samþjöppunartilburða kerfisþrælanna.

Áður en Covid 19 tók yfir allan fréttaflutning fjölmiðla á Íslandi, var fjallað um að nánast ríkti stríðsástand milli Landspítala og stjórnvalda, þar sem djúpstæður ágreiningur opinberaðist um fjárveitingar til spítalans og „pillur“  voru miskunnarlaust sendar beggja megin víglínunnar. 

Þá var jafnframt fréttaflutningur um mikið óveður sunnanlands og um erfiðleika  vegfarenda á Reykjanesbrautinni.  Þar mynduðust langar raðir bifreiða, sem komust hvorki lönd né strönd vegna fannfergis og ófærðar.  Svo bágt var ástandið, að sjúkrabíll komst ekki leiðar sinnar í neyðarakstri og var s.k.v. fréttum um þrjátíu mínútur á leiðinni að sinna einstaklingi í hjartastoppi, frá sjúkrahúsinu í Keflavík upp á Keflavíkurflugvöll.  Annað dæmi um sama leiti var vegna alvarlegs slyss, sem leiddi af sér klukkustunda tafir á Reykjanesbrautinni.  Að slíkt ástand gæti bætist við sjúkraflug af landsbyggðinni setur að manni hroll, svo ekki sé meira sagt.

Ekki bætti úr skák að borgarstjórinn í Reykjavík hefur í stöðugum hótunum um að leggja af Reykjavíkurflugvöll, sem er anddyri landsbyggðarinnar að Landspítala Háskólasjúkrahúsi og helstu sérfræðingum þjóðarinnar í heilbrigðismálum.   Engin önnur rök eru gild í því máli, að mati borgarstjóra, nema hans eigin.

Það er morgunljóst að það þarf að berjast fyrir öllum framförum á landsbyggðinni ekki síst í heilsugeiranum.  Verði ekkert gert til að kom á móts við íbúa fjórðungsins í heilbrigðismálum, verður að velta upp öðrum lausnum fyrir Austurland.   Allir verða að leggjast á eitt að leita allra leiða að koma málum í það horf í heilbrigðisgeiranum að íbúar fjórðungsins geti búið við það öryggi, sem þeir hafa skýlausan rétt á.

Það er svo eitt að finna fyrir einhverju, sem viðkomandi telur veikindi og annað að ganga þann dimma dal um ganga heilbrigðisstofnana um að fá greiningu.

Stundum er heimilislæknirinn, eflaust fær í sínu fagi, af erlendu bergi brotinn.  Oftar en ekki koma upp tungumálaerfiðleikar, sem flækja málin verulega.  Þar getur sjúklingurinn verið ófær að tjá sig á erlendri tungu og læknirinn á þeirri íslensku.  Þetta skapar samskiptavandamál, sem leiðir það af sér að trauðla er hægt að ná fundi hjá sérfræðingi og alls ekki ef ekki er hægt að tjá sig um vanlíðan sína við heimilislækninn og fá „bevis“ hjá honum upp á slíka ferð.

Tækninni fleygir hratt fram og nú er hægt að láta hana um að skanna sjúklinginn með réttu tækninni, með sérhæfðu starfsliði.   Lokagreining færi svo fram í fjarlægum löndum án þess að þörf sé á að sjúklingur og sérfræðingur hittist.  Að lokinni greiningu verði sjúklingi vísað á réttan stað til að fá bót meina sinna.

Á hraðfleygri flugvél er t.d. hægt að komast til Bergen á innan við einum og hálfum tíma og við bætist um fimmtán mínútur við akstur milli flugvallar og sjúkrahúss.  Það er styttri tími en má búast við að koma sjúklingi í bráðaaðgerð, ef nota þarf Keflavíkurflugvöll.

Málin gætu æxlast þannig að Austfirðingar yrðu sjálfir að taka heilbrigðismál fjórðungsins föstum tökum og leysa þau á þann hátt að sómi sé að  t.d.  að kannaðir verði möguleikar á að ná samningum við Haukeland háskólasjúkrahúsið í Bergen, um að sinna bráðaþjónustu við íbúa Austurlands.  Gerð verði krafa um að nýta í það verkefni, hluta af þeim tíu prósentum, sem Austurland leggur til samfélagsins, fram yfir það sem rekstur fjórðungsins kostar.  Það væri ef til vill réttara að fara jafnframt að huga að því, að hafa eina námsbraut í grunnskólunum í norsku, - frekar en dönsku.  

 

Benedikt V Warén

Í 11. sæti Miðflokksins í Múlaþingi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband