23.9.2022 | 09:44
Sniðganga Sjálfstæðisflokksins gegn Múlaþingi?
Það má öllum ljóst vera að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Njáll Trausti Friðbertsson, ber hag Egilsstaðaflugvallar lítt fyrir brjósti, þó hann sé þingmaður N-Austur kjördæmisins. Athygliverður er einnig máttlítill þrýstingur oddvita Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi, í flugvallarmálinu.
Berlega hefur komið í ljós að Seyðisfjarðagöng eru ekki eitt af uppáhaldsverkefnum í Fjármálaráðuneytinu, né í flokksmaskínu Sjálfstæðisflokksins heilt yfir. Nægt fé virðist þó í Borgarlínu, bæði í uppbyggingu og rekstur svo ekki sé minnst á nýjast fjárglæfraævintýrið, Þjóðarhöllina. Þá ber Bjarni Benediktsson ekki fyrir sig sjóðþurrð í ríkiskassanum.
Öxi er löngu tilbúin í útboð og enn er beðið eftir að verkið hefjist. Ríkisstjórnin var svo fyrirhyggjusöm að gefa það út, að sá sem vogaði sér að bjóða í verkið, mundi sæta því að reka mannvirkið og bera á því ábyrgð næstu árin. Mjög svo hvetjandi, - eða hitt þó heldur.
Eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi sáttir við framgöngu sinna manna?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.