Surpricelandair

Covid 19 setti strik í ferðaáætlanir okkar hjóna í upphafi árs.  Þá var áformað að fara til Noregs í heimsókn til afkomenda.  Fyrirhugað var að fara utan í upphafi apríl.  Sú ferð var slegin af eins og mörgum öðrum og fráleitt bitnaði það eingöngu á okkur.  Margir urðu að bíta í það súra epli að dvelja þar sem þeir voru þegar ósköpin dundu yfir.

Hvað um það, ferðin var færð til júní.  Í júní var ástandið svipað og ferðin sett á fyrsta september.  Lengi var talið að ekkert yrði af ferðinni.  Búið var að panta læknisheimsókn í lok ágúst og sett auka í ferðatöskur til að fara til Noregs ef gæfi.  Nokkrum dögum fyrir áætlaðan brottfaratíma voru boð látin út ganga um að ferðinni yrði flýtt um sólahring.  Okkar vegna var það í lagi.  Rétt fyrir brottför komu önnur boð um að ferðin væri til Amsterdam og þriggja tíma stopp þar og síðan með KLM til Osló.

Í Osló lentum við á áætluðum tíma miðað við síðasta flugplan.  Úti áttum við dásamlegan tíma með fjölskyldunni en allan tímann vofði yfir að einhverjar breytingar yrðu á leiðinni Osló – Keflavík.

Tveim dögum fyrir brottför var illt hugboð staðfest.  Nú átti að vera mætt í flug með áætlaðan brottfaratíma klukkan sex að morgni og bið í sjö tíma á Kastrupflugvelli áður en farið yrði til Íslands.  Það hefði kostað vökunótt vegna þess að við hefðum þurft að leggja af stað frá heimili sonar okkar eigi síðan en hálf tvö aðfaranótt brottfaradags.  Engar almenningssamgöngur voru heldur í boði á þessum tíma og því voru góð ráð dýr.

Elskuleg kona hjá Icelandair svaraði í símann og ekkert mál var að færa brottför til klukkan tíu.  Við breyttum því plani okkar og kvöddum börn og buru og skrunuðum til Gardermoen kvöldinu áður.  Þar gistum við á hóteli og á lappir klukkan sjö.  Eftir morgunverð var trítlað yfir götuna og um borð í flugvél SAS til Kaupmannahafnar í fjögurra tíma bið þar.

Í Keflavík var lent á umsömdum tíma eftir ljúft flug og í stað þess að hafa greitt fyrir fjögurra tíma flug fram og til baka til Osló, fengum við átta tíma um borð í flugvélum þriggja flugfélaga og auk þess þriggja landa sýn.  Það er aldeilis hægt að kalla þetta að fá eitthvað fyrir peninginn.


Rúsínan í  pylsuendanum var svo e-mail daginn eftir.  „Thank you for flying with Icelandair“.

Ég segi nú bara: „Surprise, surprise. Thank you for being SurprIcelandair“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Gott dæmi um góða þjónustu. Geri ráð fyrir að þú sért búinn að kaupa "skammtinn" í útboðinu?

Þorsteinn Siglaugsson, 16.9.2020 kl. 23:22

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Þorsteinn.

Ég held að þú hafir ekki áttað þig á því hve stór þessi sakleysislega spurning þín er.

Auðvita eru flestir landsmenn búnir að legga fé í þetta fyrirtæki, ekki endilega með samþykki sínu, en í gegnum sameiginlega sjóði landsmanna.  Þar með talinn ég.

Lífeyrissjóðirnir og ríki er ítrekað búið að leggja fluggeiranum til fé, ríkissjóður þegar illa árar og lífirssjóðirnir þegar er uppsveifla.  Ríkiskassinn er okkar allra og lífeyrissjóðir flestra. 

Ekki vorum við spurð þegar það var gert frekar en ábyrgðir okkar nú til Icelandair.  Þegar vel árar er ekkert greitt til baka en í staðinn greiddur út arður til eigenda.  Svona virkar kapitalisminn í raun.

Það leiðir svo hugann að því hvort ekki sé verið að leggja óþarflega þungar birgðar á fyrirtæki á landinu.  Er ekki rétt að fé úr rekstrinum, þegar vel árar, nýtist til að greiða upp tap í þeim mögru?

Hvað með arðgreiðslur? Fylgir engin ábyrgð eigenda sem taka við þeim?

En stutta svarið við spurningu þinni er "NEI".

Benedikt V. Warén, 17.9.2020 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband