Pólitíski kosningakækurinn

Það er sérstakur alþjóðlegur pólitískur kækur að fara offari fyrir kosningar og drita loforðum vinstri hægri út á pólitíska kreditkortareikninginn og ætlast svo til að hann verði sendur til innheimtu á annan greiðanda, - að kosningum loknum.

Þegar birtir af degi eftir kosninganóttina, má reikna með að einhverjir skríði undan brekáni sínu og úr rekkju og með þá nöturlegu staðreynd á bakinu, að hafa lofað hressilega upp í ermina, ekki eingöngu á sjálfum sér heldur einnig upp í ermina á sameiginlegu sveitarfélagi.  Sveitarfélagi sem þurfti allt annað en pólitíska skrautsýningu fyrir kosningar, sem eru eingöngu til þess fallnar að rugla kjósendur í ríminu.  Nýtt sveitarfélag þarf að gæta aðhalds og velta hverri krónu, sem fara á í sameiginleg verkefni.

Næstu mánuðir munu verða notaðir í að samþætta fjögur sveitarfélög og vinna og fjármunir fara að mestu í það verkefni, en ekki til að efna óraunhæfa loforðalista.  Að telja fram verulegum framkvæmdum í stefnuskrám sínum er eins og að ætla að kaupa stóran eyðslufrekan bíl út á krít og ætlast jafnframt til að annar sjái um að reka hann.  Það er ekki barnaskapur, það er hrein heimska og ekki bætir úr skák þegar tilgangurinn er að þyrla upp ryki til þess eins að byrgja kjósendum sýn á getuleysi viðkomandi síðustu kjörtímabil.

Næsta brýna verkefni sameinaðs sveitarfélags verður að marka sér sérstöðu til langrar framtíðar og stefnu í þeim málum sem brýnast brenna á íbúum þess.  Samgöngumálin vega þar þungt en síðan þarf að huga að því að atvinnumálin komist í þann farveg að í sveitarfélaginu þrífist gott og heilbrigt mannlíf.  Það gerist ekki með að rjúka stefnulaust í framkvæmdir, bara til að gera eitthvað.

Innviðir samfélagsins verða að þróast áfram.  Barnafólki verður að líða vel í sveitarfélaginu.  Öll skólastig þarf að aðlaga og heilsugæslan verður að standa undir væntingum.  Umgjörðin verður einnig að vera þannig að til verði lóðir og íbúðir við allra hæfi á sanngjörnu verði.  Hvetja þarf með öllum ráðum sveitarfélagið, byggingarfyrirtæki, framkvæmdasjóði og ríkisvaldið til að ganga í takt og vinna saman að því markmiði. 

Framboð atvinnulóða þarf að vera þannig að fyrirtæki hafi áhuga á að setjast að í sveitarfélaginu og hlúa þarf að þeirri starfsemi sem fyrir er og bæta í s.s. matvæla-, framleiðslu- og hátæknigeiranum.  Hvert starf skiptir máli.  Það er best gert með því að telja fram kosti sveitarfélagsins og standa við þá.  Þar er átt við lóðaframboð, trygga raforku, heitt og kalt vatn, nálægð við hafnir, flugvöll og samgöngukerfi þjóðarinnar.  Allt kostar þetta fjármuni en er sá fórnarkostnaður sem leggja þarf í.  Innviðirnir sveitarfélagsins eru til staðar en huga þarf að því að nýta mannauðinn betur og forgangsraða. 

Að lokum skal hafa eitt í huga.  Við öll erum sveitarfélagið og við berum ábyrgð á því að það verði áhugavert og að öllum líði þar vel.  Því á það ekki að vera spurningin; hvað sveitarfélagið gerir fyrir okkur, heldur hvað við gerum fyrir sveitarfélagið.

Benedikt V Warén

Skipar 11. sæti Miðflokksins í Múlaþingi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband