8.12.2007 | 00:30
Næst besti flugvöllur íslendinga?
Egilsstaðaflugvöllur var tekinn í formlega notkun 23. sept 1993 eftir gagngerar endurbætur og hefur frá þeim tíma þjónustað flugflotann. Frá því í desember 1995 hafa verið 24 tíma vaktir á flugvellinum alla daga ársins og hefur hann síðan þjónað sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug og yfirflug fyrir þær vélar sem nýtt geta völlinn. Vægi Egilsstaðaflugvallar er mjög vanmetið hjá öðrum en þeim sem stunda flugrekstur. Varla líður sú klukkustund, að Egilsstaðflugvöllur er ekki skráður varaflugvöllur hjá einhverju flugfélagi.
Flugvélar Flugleiða, Boeing 757 og 767 nota oftast Egilsstaðaflugvöll sem varaflugvöll og það munu nýjar flugvélar þeirra, Boeing 787 einnig geta. Flugrekendur Boeing 747 hafa engan varaflugvöll á Íslandi ef þeir hyggjast nýta sér Keflavíkurflugvöll. Við núverandi aðstæður getur Egilsstaðaflugvöllur ekki sinnt fullkomlega því hlutverki sem að var stefnt, að vera aðal varaflugvöllur fyrir Keflavík fyrir allar flugvélar. Það dregur úr áhuga flugrekenda Boeing 747 að nýta Ísland sem valkost til eldsneytistöku.
Flugbrautin á Egilsstöðum er malbikuð og skráð 2000 x 45 metrar með burðarlagi til að taka við flugvélum með hámarksflugtaksþunga allt að 250 tonnum (PCN 35). Einn hængur er þó á, að Þjóðvegur 1 liggur það nálægt suðurenda brautarinnar að lendinga punkturinn (touch down) færist inn á brautina og rýrir hana um 153 metra þegar lent er til norðurs.
Þetta er bagalegt fyrir stærri vélar þegar brautarskilyrði eru slök, t.d. vegna þess að krapi, snjór eða ís er á brautinni og/eða hliðarvindur. Við erfiðustu veðurskilyrðin á svæðinu, þarf því að nota skerta braut vegna legu Þjóðvegar 1, sem lítið mál er að færa. Með frekari lengingu um 700 metra, verður flugbrautin fær um að taka við flestum vélum, sem eru í notkun um þessar mundir, þar með talin Boeing 747 og trúlega einnig Airbus 380.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.