Ríkisstjórnarsamþykkt um Egilsstaðaflugvöll.

Við byggingu á flugvellinum á Egilsstöðum var áformað að endanleg lengd vallarins yrði 2700 metrar og við hönnun hans var það haft að leiðarljósi.  Það var ekki að áeggjan heimamanna að það var gert, heldur var það ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar að frumkvæði Steingríms J. Sigfússonar samgönguráðherra.  Nú er hann heillum horfinn í þessu máli og hefur ekki beitt sér í því.

Ákvörðun um þessa uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar var mjög skynsamleg og í fyrsta þætti verkefnisins var brautin 2000 metrar, en dregist hefur að taka seinna skrefið við verkefnið og koma henni í fulla áformaða lengd.   Hugsanlega hefur aðkoma Halldórs Blöndal í ráðuneyti samgöngumála á sínum tíma, haft einhver letjandi áhrif þar á.  Hugur hans hefur gjarnan hvarflað til annars flugvallar í hans heimasveit.   Hugmyndafræðin á bak við þessa framkvæmd var, að Egilsstaðaflugvöllur gæti nýst sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll þá sjaldan sem sá síðar nefndi lokast.   Til að fullnægja því markmiði, verður Egilsstaðaflugvöllur að geta tekið við öllum flugvélum sem gera flugáætlanir sínar inn á Keflavíkurflugvöll. 

Þeir flugvellir sem þá voru í athugun vegna umræðunnar um varaflugvöll auk Egilsstaðaflugvallar voru, Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók og Húsavíkurflugvöllur.  Aðrir flugvellir voru ekki inni í myndinni, ýmist vegna veðurfarslegra ástæðna eða landfræðilegra.   Egilsstaðaflugvöllur varð að lokum fyrir valinu, vegna þess að umferðin var vaxandi inn á hann, en dvinandi inn á hina staðina, auk þess sem veðurfarslegir þættir þóttu vega þungt.


Ég mun halda áfam að fjalla um Egilsstaðaflugvöll næstu daga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband