22.11.2007 | 21:34
Austan við 17° vestur.
Oft veltir maður fyrir sér hvernig tekið er á hinum ýmsu málum samtímans, sérstaklega ef þarf að byggja upp einhverja þjónustu út um hinar dreifðu byggðir.
Dæmi A:
Það þarf að hafa staðsettar sjúkraflugvélar á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Akureyri, ekki á Austurlandi, sem er þó lengst frá tæknivæddu sjúkrahúsunum í Reykjavík.
Austurlandið austan við 17°vestur.
Dæmi B:
Þegar byggt er við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, eru smíðaðir hallandi veggir til að "lúkka" við ílla ígrundaða hönnun Leifsstöðvar. Ekki einasta er þetta fokdýrt, heldur kallar þetta á endalaus vandamál við frekari stækkun. Skásettir útveggirnir rýra aukheldur gólfplássið um hundruði fermetra. Ferjuhöfnin á Seyðisfirði mátti sæta því, að hver einasti fermillimeter var skorinn í burtu, sem nokkur smuga var á að skera. Húsið var því strax of lítið og krubbulegt fyrir starfsemina og skoðun á stærri bílum þarf að fara fram utan dyra.
Seyðisfjörður er líka austan við 17° vestur.
Dæmi C:
Stórt menningar- og ráðstefnuhús rís nú við höfnina í Reykjavík og þar er engu til sparað, nægu fjármagni til að dreifa, ekkert skorið við nögl. Þegar stóru verkefni um álver og virkjanir var hrint í framkvæmd á Mið-Austurlandi, voru litlir peningar til í að laga þá vegi, sem mestu þungaflutningarnir frá Reyðarfirði áttu sér stað og ekki var hægt að breikka tvær einbreiðar brýr á Fljótsdalhéraði eða endurbæta vegstubb sem er að hverfa ofaní drulluna á kafla. Fráleitt þótti að leggja nokkurn pening í að bæta við sjúkrahúsið á Egilsstöðum, þrátt fyrir mikla aukningu starfsmanna á svæðinu.
Enda er Mið-Austurland austan við 17° vestur.
Þetta eru bara smá sýnishorn og það ber að hafa í huga, að ákvaranir um þessi mál eru ekki teknar austan við 17° vestur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.