Grein 3. S-beygjur sveitarstjórnar Múlaþings

Flest sveitarfélög vinna að því að þungaflutningar og umferð, sem ekki á beinlínis erindi inn í bæjarfélög, hafi greiða leið í jaðri byggða.  Það er ný nálgun og nútímaleg öfugt við fortíðina þegar pósturinn var miðlægur í þorpum og bæjum ásamt því að þar var kaupfélagið með sínar höfuðstöðvar og verslun.  Það hefur líklega farið fram hjá framsóknarmönnum á Fljótsdalshéraði að hér er ekki lengur rekið kaupfélag og því þarf ekki að gæta hagsmuna þess sérstaklega.

Borgarnes er eitt þeirra sveitarfélaga, sem þótti vont að umferðin væri ekki um miðbæ sveitarfélagsins.  Miklu var fórnað til þess að svo mætti verða og verslun blómgaðist við brúarsporðinn, því er ekki að neita.  Nú er öldin önnur og ný sjónarmið vega þyngra á vogarskálum íbúanna og umferðaröryggi þeirra hefur öðlast meira vægi.  Nú er verið að vinna nýtt skipulag í Borgarnesi og koma þungaflutningum í jaðar sveitarfélagsins.

Nærtækt er að skoða hvernig vegurinn á Reyðarfirði var lagður með ströndinni í stað þess að liggja inni í bænum endilöngum.  Sama hugsun er í fleiri nútíma sveitarfélögum, sem vinna í samstarfi við íbúana.  Hafa ber í huga að flutningabílar hafa stækkað og heildarþungi þeirra vaxið á undanförnum árum og hafa skapað ný viðmið.  Ferðatíðni þeirra hafa þar að auki margfaldast.  Orsökin er að neyslusamfélag okkar gerir sífellt meiri kröfur til vörumagns og vöruflokka, sem aftur kallar á örari flutninga til að fullnægja þörfinni.  Endurbætur á vegakerfinu ná ekki að fylgja eftir neysluvæðingu samfélagsins.

Á Egilsstöðum hefur í mörg ár verið krafa um  að minnka umferð í miðbænum, en ekkert hefur áunnist í þeim málum og ráðamenn Múlaþings átta sig ekki á að öryggi íbúanna sé í húfi.  Þeir átta sig ekki heldur á þörfum atvinnulífsins um gott flæði um atvinnusvæðin með skriðþunga farma.  Meirihlutinn ætlar jafnframt að hunsa skoðun 64% íbúa sveitarfélagsins, sem tóku afstöðu á Fljótsdalshéraði með norðurleiðinni.

Iðnaðarsvæði við Lyngás er gott og gilt, en verður ekki þar tugi ára í viðbót.  Svæðið gæti hentað undir blandaða byggð, verslun og þjónustu til framtíðar og því er nauðsyn að skipulag sé lifandi plagg, án þess að taka dragstískum breytingum eftir dagsformi forseta bæjarstjórnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson er sá ráðherra, sem hefur undanfarin ár sett ný viðmið hvað telst vera sannleikur.  Ítrekað hefur hann riðið um sveitir landsins með digurbarkaleg loforð, sem síðan reyndust ígildi gúmmítékka.  Nægir þar að nefna nýframkvæmdir austan lands við Egilsstaðaflugvöll, Fjarðarheiðargöng og veg yfir Öxi.  Nú ná loforð hans nýjum hæðum og ná langt inn á verkefnalista komandi ríkisstjórna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband