5.9.2020 | 15:46
Varahöfuðborgin og hátæknisjúkrahúsið.
Svo merkilegt sem það kann að hljóma þá virðist það vera í huga margra að þar sem sjúkrahús er staðsett þar skuli einnig vera fullbúinn flugvöllur. Víðast á Íslandi er þetta þannig.
Einn staður sker sig þó allhressilega úr, með einn best útbúna flugvöll á Íslandi en einungis slitrur af heilsugæslustöð. Flugvöllurinn er ekki grafinn milli hárra fjalla, hann er með þægilegt aðflug inn á báða enda og ekki er sérstök þörf á að koma ILS-aðflugi inn á þann enda, þá flogið er úr norðri. Flugvöllurinn er malbikaður og vegna aðstæðna í landslaginu er hann sá flugvöllur sem sjaldnast er ófær veðurfarslega séð, ef frá er talinn Keflavíkurflugvöllur. Keflavíkurflugvöllur hefur nauman vinning, eingöngu vegna þess að þar eru tvær flugbrautir. Ef Keflavíkurflugvöllur væri einungis með eina flugbraut stæði hann að baki þeim flugvelli sem hér er til umræðu.
Heimabær umrædds flugvallar er þannig í sveit settur að þar eru allar gerðir af náttúruvá í lágmarki, nema hugsanlega skógareldar. Hverfandi áhætta er af ágangi sjávar og hækkuð sjávarstaða mun seint hafa áhrif þar. Skriður, jarðskjálftar, eldgos, aur- og snjóflóð eru nær óþekkt á svæðinu. Vatnsflóð hafa ekki teljandi hættu í för með sér, þótt áður fyrr hafi þau haft lítilsháttar truflandi áhrif á dagleg störf íbúa svæðisins en fráleitt lífshættu í för með sér. Þar hafa þakplötur ekki fokið af húsum síðan rifflaður þaksaumur var fundinn upp. Staðurinn er þar af leiðandi ekki einungis kjörinn til að taka víð íbúum annarra svæða þegar framangreindar hamfarir, einar eða fleiri, hella sér yfir heldur ætti það að vera markmið stjórnvalda að búa svo um hnútana að íbúar þessa lands ættu sér athvarf þar þegar náttúruvá knýr upp á hjá þeim. En merkilegt nokk þar er ekkert sjúkrahús.
Stefna stjórnvalda, eins og allir vita, er að koma allri stjórnsýslunni, menntastofnunum, menningarstofnunum, heilbrigðiskerfinu, almannavörnum o.s.frv. inn á eitt eldvirkasta landsvæði Íslands. Hver er rýmingaráætlun Reykjavíkur og nágrennis ef til hamfara kemur? Er það um Hvalfjarðargöngin einföld eða tvöföld? Er það um flugvöllinn í Hvassahrauni? Hvert á fólkið að fara?
Er ekki rétt að staldra ögn við í þeirri vinnu að byggja nánast eingöngu upp í Reykjavík? Fram að þessu hefur excel-sértrúarsöfnuðurinn haft það eina markmið að færa allt til Reykjavíkur án þess að fram hafi farið áhættumat á því fyrir íbúa þess svæðis, fyrirtæki eða stofnanir. Það má varla skipta um þvottaefni á almenningssalerni án þess að gera um það áhættumat. Hvar er aðgengilegt áhættumat fyrir Reykjavík og nágrenni? Hvernig hefur það verið kynnt íbúum?
Hagkvæmni stærðarinnar er gjarnan flaggað til að rökstyðja samþjöppun valds og stofnana, en aldrei er fjallað um neitt í víðara samhengi, eins og aðgengi annarra íbúa landsins að þjónustu á vegum ríkisins. Þar eiga íbúar landsbyggðarinnar engan kassa í excel-skjölum, enda er ævinlega lagt upp með fyrirframgefnar niðurstöður til að fá heppilega lausn. Ferðakostnaður eru fjármunir sem renna beint úr vasa skattgreiðenda utan höfuðborgarsvæðisins og ættu, jafnræðisreglum samkvæmt, að vera a.m.k. frádráttarbærir til skatts, nema allar slíkar ferðir væru greiddar af almannafé vegna ferða í stofnanir sem ekki hafa starfsstöð innan eitt hundrað kílómetra radíuss frá heimili íbúans.
Aftur að upphafi þessarar greinar. Bæjarfélagið sem hér er um rætt heitir Egilsstaðir. Flugvöllurinn er góður og væri enn betri ef hann væri lengdur strax, eins og áformað er, í tvö þúsund og sjö hundruð metra, og breikkaður og skráður sem sextíu metra breið braut. Leitun er að betri aðstæðum fyrir varaflugvöll á Íslandi, sem jafnframt er í fullum rekstri. Með markvissum hætti yrði lággjaldaflugi frá Evrópu vísað þangað til að minnka kolefnisspor ferðamanna á Íslandi. Egilsstaðir yrðu auk þess skilgreindir sem varahöfuðborg Íslands og fengju þar af leiðandi sérstaka meðhöndlun sem slík, t.d. með fullkomnu sjúkrahúsi, útstöðvum fyrir helstu stofnanir ríkisins og öflugu menntakerfi.
Benedikt V Warén
11. sæti Miðflokksins í Múlaþingi
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.