30.12.2010 | 14:49
Af túttujeppum.
Bloggarinn er Jón Bragi Sigurðsson og gef ég honum hér með orðið:
"Hef aldrei skilið þessa jeppadellu ekki minnst hjá þeim sem aka 99% innanbæjar. Í þau u.þ.b. 15 ár sem ég átti bíl (alltaf eindrifs bíl) á Íslandi get ég talið þau skipti á fingrum annarrar handar sem ég fann fyrir því að ég þyrfti á jeppa að halda.
Að aka stöðugt um á 2. tonna jeppa upphækkuðum með risatúttum, til þess að mæta þessum fáu tilfellum, fannst mér álíka gáfulegt og að ganga í klofstígvélum nr. 47 árið um kring uppá það að einhvern tíma komi hugsanlega upp sú staða að maður þurfi að vaða yfir á. Áður fyrr var karlmennska á Íslandi gjarnan mæld í fjölda yfirvinnutíma en nú virðist hún vera mæld eftir stærð jeppadekkjanna og hæð ökutækis yfir sjávarmál.
Og þegar ég kem til Íslands í dag þá verður mér starsýnt á og vorkenni konunum sem þurfa að klöngrast upp í þessa hækkuðu jeppa. Það er álíka fyrirtæki og fyrir gröfumenn að komast uppí gröfur sínar, nema að konurnar eru auk þess með innkaupapoka og börn sem líka þurfa að komast uppí herlegheitin.
Get að vísu skilið þá sem ferðast mikið útum land, og þá sérstaklega að vetri, að þeim finnist öryggi í því að vera á fjórhjóladrifsbíl. Þeir láta að vísu betur að stjórn í hálku en hinir að öllu jöfnu en nútíma fólksbílar eins drifs með ABS, spólvörn og stöðugleikastýringu standa fjórhjóladrifsbílunum ekkert að baki hvað varðar öryggi í hálku. Þeir hafa líka þann kostinn að vera ekki eins háir og jepparnir þ.e.s. hafa lægri þyngdarpunkt sem er stór kostur ef eitthvað ber útaf.
Mér er í minni þegar ég kom í fyrsta skipti á vegum fyrirtækisins til Íslands fyrir nokkrum árum ásamt forstjóra þess og markaðsstjóra að heimsækja viðskiptavini okkar. Buðum við íslenskum uppá kvöldverð á Reykjarvíkurapóteki, dýrðlegan saltfisk og allt gott með það. Hins vegar var leiðin þangað, fótgangandi frá Sögu ekki sérlega greið á köflum vegna fjölda monsterjeppa sem lagt var uppá gangstéttar og alla vega og hindruðu jafn vel sólarsýn á köflum. Þetta þótti erlendum gestum stórundarlegt.
Bæði parkeringskúltúrinn og þessir ógnar torfærutæki um allan miðbæ. Þeir voru ekki búnir að ná sér þegar við vorum sestir til borðs með gestum okkar og fóru að reyna að komast að því hvað þetta ætti að fyrirstilla en það varð heldur fátt um svör hjá íslenskum.
Eftirfarandi samtal átti sér þá stað:
Gestur: -Það er náttúrlega feikna mikill snjór hér í bænum á veturna og þess vegna þurfa menn þessa jeppa?
Íslendingur: -Nee, það er nú eiginlega aldrei snjór til trafala hér í bænum.
Gestur: -En menn þurfa náttúrlega að fara mikið útá land og þar eru náttúrlega ógnar vondir drulluvegir sem ekki eru færir fólksbílum?
Íslendingur (hálfmóðgaður): -Nei nei, allir helstu vegir eru malbikaðir og færir öllum bílum.
Gestur: En á veturna þá þurfa menn auðvitað að fara mikið útá land og þá eru vegirnir fullir af snjó?
Íslendingur: -Nee, þeir sem eiga þessa jeppa þurfa nú yfirleitt ekki að fara neitt mikið útá land. Og allir helstu vegir eru ruddir daglega þegar snjóar.
(Vandræðalega þögn þar til Íslendingur segir):
-En þegar menn fara uppá jökul, þá er gott að hafa svona jeppa.
Gestur: -Og hvaða erindi eiga menn þangað?!"
--------
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.