Loforð og efndir Sigurðar Inga Jóhannssonar í öryggismálum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur ítrekað talað fyrir því að endurbætur á Egilsstaðaflugvelli séu rétt handan við hornið og tæplega það. Tvö ár eru nú liðin síðan samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lofaði því að verkið væri að fara í útboð, ekki aðeins það, heldur átti að byggja fyrsta hluta akstursbrautar meðfram flugbrautinni, til þess að liðka fyrir umferð um brautina, og að sá hluti mundi jafnframt nýtast til að leggja flugvélum skamma hríð.

Þannig hafði akstursbrautin tvíþætt áhrif, liðka fyrir umferð loftfara á flugbrautinni, og flýta fyrir að rýma brautina fyrir annarri umferð. Að auki átti sá kostur að vera fyrir hendi að nota akstursbrautina sem stæði fyrir flugvélar þegar ástand lokaði öðrum flugvöllum á Íslandi um stundarsakir. Hugmyndin var góðra gjalda verð og ekki að sjá annað en hún gæti virkað fullkomlega, enda kviknaði hugmyndin heima fyrir.

Nú er loks búið að bjóða út endurbætur á flugvellinum sem felast í því að endurnýja yfirborð brautarinnar. Brautin er orðin mjög varasöm að mati Öryggisnefndar íslenskra flugmanna og flugrekenda almennt. Það voru vissulega mikil tíðindi að nú skyldi standa við stór orð samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hefja framkvæmdir. En sælan varði ekki lengi hjá áhugafólki um Egilsstaðaflugvöll sem þó er löngu orðið vant því að loforð séu ekki efnd þegar kemur að framkvæmdum á landsbyggðinni. Stóra áfallið var að akstursbrautin var skorin frá verkinu og framkvæmdum frestað um óákveðinn tíma en eins og allir vita getur slík frestun varað í áratugi.

Austfirðingar hafa þagað þunnu hljóði vegna annars flugvallaverkefnis í NA-kjördæmi, sem virðist hafa betri aðgang að ríkiskassanum. Eflaust blöskrar mörgum eyðslan í það verkefni, einkum Austfirðingum. Samkvæmt áætlunum verður, árið 2025, framkvæmdakostnaður við það eina verk kominn í sjö milljarða frá aldamótum talið. Þar er ekki stýft úr hnefa. Ljóst er að digur sjóður er í umsjá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ætti honum ekki verða skotaskuld úr því að koma myndarlega að verkefni um Egilsstaðaflugvöll, standa við gefin loforð, og leggja það fé sem til þarf í Egilsstaðaflugvöll.

Flugvöllinn er einn sá fremsti í flugöryggislegu tilliti á Íslandi.


Háskólaklasi á Austurlandi

Austurland hefur lengi mátt sæta því að vera langt á eftir þegar kemur að samfélagsþjónustu og verklegum framkvæmdum með þátttöku hins opinbera.  Að hluta til má kenna heimamönnum um, vegna þess að þeir eru mun orkuríkari í hrepparíg en þegar kemur að sameiginlegum hagsmunum heildarinnar.  Undantekningin var verkefnið í kringum Kárahnjúka og Álver Alcoa á Reyðarfirði.  Þar sannaðist að þegar allir ýta vagninum í sömu átt, verður framvinda.

Í mörg ár hefur verið þrýst á um háskóla á Austurlandi.  Lítið hefur þokast m.a. vegna alkular á slíku verkefni hjá Háskóla Íslands.  Ráðamenn skólans eru haldnir Ártúnsbrekkusyndrominu eins og flestir ráðamenn með heimilisfestu í Reykjavíkurhreppi.  Fleiri íslenskar menntastofnanir á háskólastigi hafa verið þuklaðir, en þær beiddu allar upp.

Ekki er hallað á nokkurn mann þó nefndur sé Jón Þórðarson, fyrrverandi sveitastjóri á Borgarfirði eystra.  Hann hefur vakinn og sofinn unnið að þessu verkefni og dregið vagninn í átt að endapunktinum svo hlutirnir eru nú farnir að skýrast.

Austurfrétt 20.5.2021:

Forsvarsmenn skoska háskólans University of the Highlands and Islands (UHI) segjast líta björtum augum til væntanlegs samstarfs á sviði háskólastarf og rannsókna sem gert var við sveitarfélagið Múlaþing í mars.

„Tilgangur okkar að breyta framtíðarmöguleikum svæðisins okkar, efnahags þess, fólki og samfélögum. Í gegnum þetta samstarf reynum við að færa þetta markmið út fyrir landsteinana og hjálpa Múlaþingi til að takast á við sínar áskoranir og væntingar. Þetta er spennandi samstarf sem ég vona að við getum byggt á til framtíðar,“ segir Todd Walker, rektor skólans í tilkynningu.

Til hamingju Austurland!

 


Bloggfærslur 21. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband