26.3.2020 | 22:32
004 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND
Airpark (nr. 4 á korti sjá 001 Hin gáttin..)
Á nýjum Egilsstaðaflugvelli verði markað svæði, þar sem hægt verður að byggja sér reisuleg íbúðarhús með bílageymslu og flugskýli. Hvergi hefur slíkt svæði verið skipulagt á Íslandi. Slíkt svæði kann að vera áhugavert fyrir útlendinga jafnt sem íslendinga og ekki skemmir fyrir að markhópurinn er fjárhagslega vel stæður.
Einkasjúkrahús
Sú hagræðingarstefna, sem hefur verið við lýði síðan EXCEL-kerfið fór að tröllríða allri vinnu við skipulagningu, hefur komið mjög hart niður á landsbyggðinni og mannlega þættinum úthýst. Austurland hefur borið mjög skarðan hlut frá borði og því þarf að grípa inn í með einhverjum hætti.
Ef þetta flugvallarverkefni kemst á skrið og farið verður í að beina fólki inn á svæðið er það mikill ábyrgðarhluti að gera það án þess að geta samhliða boðið upp á heilbrigðisþjónustu, sem stendur undir nafni. Þá verður að hugsa sér að erlendir sérfræðingar annist að mestu slíkt verkefni, því það er borin von er að íslenska ríkið komi að slíku verkefni á meðan sú harðvítuga hagræðingarstefnu er við líði, þar sem íslensk heilbrigðisyfirvöld eru búin að njörva sig niður í að færa nánast alla slíka þjónustu á einn stað.
Finnist einhver erlendur fjárfestir í slíkt sjúkrahús er ljóst að markaðurinn verður beggja vegna Atlantshafs og markaðssvæðið því mjög stórt. Miklir möguleikar eru jafnframt á endurhæfingu og heilsurækt m.a. vegna heita vatnsins. Leirinn í Lagarfljóti á eftir að leika mjög stórt hlutverk í leirböðum tengdu slíku verkefni.
Fljótsdalshérað í atvinnulegu tilliti
Flest bæjarfélög hafa atvinnustarfsemi, sem skilar tekjum til samfélagsins, mismiklum þó. Reykjavík, sem höfuðborg Íslands, hefur til dæmis nær alla stjórnsýslu, helstu mennta-stofnanir, öflugustu sjúkrahúsin og sérfræðinga á ýmsum sviðum og almenningur í landinu tekur fullan þátt í þeim rekstri.
Svo eru félög, sem hafa nær allar sínar tekjur af landsbyggðinni, vegna sérhæfðrar þjónustu þeirra en allar tekjur eru skattlagðar í Reykjavík. Þar eru flugfélögin og landflutningar stærstir.
Fólk og vörur eru þeirra lifibrauð, en litlar tekjur verða eftir þar sem þeirra er aflað. Ef fólk byggi ekki á landsbyggðinni væri þessi þjónusta í skötulíki.
Litlu skila bankar til baka út á landsbyggðina og fjárfestingasjóðir eru mjög tregir í fjárfestingar utan þéttbýliskjarnanna á suðvesturhorninu. Svona má lengi telja. Sérstaklega er þetta slæmt víða á landsbyggðinni þar sem útgerð og vinnsla er í smáum stíl og jafnvel engin eins og á Fljótsdalshéraði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.3.2020 | 10:02
003 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND
ADS-B flugstjórnarkerfi
Nýtt kerfi til flugstjórnunar er skammstafað ADS-B og kemur í stað ratsjár, sem hefur verið nýtt um áratuga skeið við stjórnun flugs og skipaumferðar. ADS-B kerfið nýtir merki frá GPS gervitunglum og þekur mun stærra svæði og gefur betri yfirsýn fyrir flugstjórnir en núverandi ratsjárkerfi. Ratsjáin verður þó ekki aflögð í náinni framtíð þar sem hún mun áfram hafa hernaðarlegt gildi.
Munurinn á þessum kerfum er í aðalatriðum sá, að ratsjáin sendir frá sér merki, sem endurkastast af föstum hlutum til baka á upphafsstað og fæst þannig miðun á stefnu, hæð og fjarlægð hlutarins.
ADS-B kerfið vinnur hins vegar með GPS merki og nýtir sömu upplýsingar og tækin um borð í flugvélunum og senda boð um staðsetningu í gegnum jarðstöðvar til flugstjórnamiðstöðva .
Egilsstaðir eru mjög vel í sveit settir með tillit til gervitungla og þar að auki er starfrækt GPS leiðréttingastöð á vegum ISAVIA innan fjallahrings Fljótsdalshéraðs, sem gengur undir nafninu EGNOS. Tvær slíkar eru á Íslandi, hin er á Reykjanesi.
Kerfi þetta gagnast vel fyrir nákvæmnisaðflug að Egilsstaðaflugvelli og með uppsetningu tveggja ADS-B jarðstöðva á Héraði væri hægt að varpa mynd af aðflugi flugvéla, sem eru með þennan búnað, inn í flugstjórnarmiðstöðina og er vélin sýnileg þar til flugmaðurinn slekkur á kerfinu á flughlaði.
Airport city / Aerotropolis
Byggingar á Egilsstaðaflugvelli eru í grunninn frá 1959 og vegna sífellt hertari krafna um aukin öryggissvæði í kringum flugbrautir, líður senn að því að núverandi byggingar verði að víkja. Húsakosturinn hamlar jafnframt uppbyggingu og hertari kröfum um þjónustu innanhúss og gera auk heldur hlutina önugri við að koma upp heppilegu svæði fyrir flugvélastæði.
Það er því tímabært að huga að heildstæðu, metnaðarfullu framtíðarskipulagi flugvallarins og kanna hvaða möguleikar eru þar og hvernig við viljum sjá framtíðina tengda Austfjörðum og hvaða möguleika flugvöllurinn hefur inn í lengri framtíð.
Með glæsilegri nýbyggingu væri hægt að sækja á ný mið. Fjölbreytta þjónustu má fá með því að reisa stóra flug-, verslunar-, þjónustu- og ráðstefnumiðstöð og koma þar öllu þannig fyrir að hægt verði að vinna innandyra að ýmsum verkefnum þar sem menn leiða saman hesta sína í viðskiptalegu tilliti, þvert á Atlantsála. Fámennið, næðið og kyrrðin gæti verið sá segull sem margir kunna að dragast að auk afþreyingar utan dyra og sú staðreynd að stutt er í víðernin austanlands.
Í flugklasanum (nr. 7 á korti 001 Hin gáttin...) verði stórt hótel, ráðstefnusalir, fjölbreytilegir matsölustaðir, góð aðstaða fyrir afþreyingu og heilsubót, verslanir, bílaleigur, bíó og samgöngumiðstöð Austurlands.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)