25.3.2020 | 23:38
002 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND
Eldsneytismálin
Lengi voru eldsneytismálin í þokkalegum farvegi á Egilsstaðaflugvelli með birgðir geymdar á Reyðarfirði og ekið jafnóðum til Héraðs þegar á þær gekk. Hængur var á, þar sem olíufélaginu gekk seint að samræma framboð við notkun vegna breyttra tíma í flugflota landsmanna. Áður fyrr var notað bensín (Avgas 100) á Douglas DC3, DC4 og DC6 og birgðastaðan miðuð við það. Þegar Flugfélag Íslands tók í notkun Fokker F27, sem notar steinolíu (Jet A1) brást olíufélagið ekki við og birgðir af bensíni og steinolíu héldust áfram óbreyttar. Þotur nota einnig steinolíu á sína mótora. Árið 1993, þegar nýmalbikuð braut var tekin í notkun, var sama staðan uppi og þrátt fyrir að olíufélaginu hafi ítrekað verið bent á að birgðir steinolíu þyrftu að taka mið af breyttum flugflota þá gerðist ekkert. Það var ekki fyrr en málið var tekið fyrir á Alþingi að frumkvæði þingmanna Austurlands að málinu var kippt í liðinn. Ekki svo að skilja að málin hafi komist í góðan farveg, en skárri þar sem flugfélög voru farin að sniðganga varaflugvöllinn á Egilsstöðum vegna takmarkaðra olíubirgða.
Sú einkennilega staða er enn við lýði að verð á flugvélaeldsneyti er hærra á landsbyggðinni en í Keflavík. Flest fyrirtæki bæði í einka- og opinberum rekstri hafa sett sér þau markmið að hafa vörur sínar og þjónustu á sama verði um allt land, en ekki olíufélögin. Mikilvægt er að kippa þessu í liðinn vegna þess að flugrekendur setja eldsneytisverð fyrir sig þegar minnst er á að nýta Egilsstaðaflugvöll, þrátt fyrir að í nokkrum tilfellum vinnist munurinn upp vegna styttri flugleggja og hverfandi líkum á biðflugi vegna annarrar umferðar.
Á þessum tíma breytinga í orkumálum er rétt að staldra við og skoða hvar við erum stödd með allar þessar bensínstöðvar inni í miðju bæjarfélagi. Er komið að þeim tímapunkti að öll leyfi fyrir bensín og olíusölu á Austurlandi verði endurmetin og farið í gagngera uppstokkun? Er ekki rétt að það verði skoðað í samhengi og verðjöfnun sé á öllu eldsneyti? Er ekki rétt að samið verði við eitt erlent fyrirtæki um að koma inn á Austurland með sölu á eldsneyti og eitt íslenskt. Hvernig er þessum málum háttað í Færeyjum? Getum við átt samleið með þeim?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2020 | 10:39
001 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND.
Egilsstaðaflugvöllur.
Undanfarnar vikur hefur í fjölmiðlum verið nokkur umræða um þá áherslu samgöngu-ráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, um varaflugvallarmál og þann þunga sem hann leggur á endurbætur Egilsstaðaflugvallar.
Þegar endurbyggður flugvöllur á Egilsstöðum var tekinn í notkun 23.9.1993 hafði staðið nokkur styr um þá ákvörðun, en eftir ýtarlega úttekt sérfræðinga, hafði það flugvallarstæði allnokkra yfirburði í samantektinni og réð það ákvörðun ríkisstjórnarinnar um framhaldið. Veðurfarslega og landfræðilega kom Egilsstaðaflugvöllur vel út úr samanburði og þar að auki var aðflug að flugvellinum gott og vaxandi umferð um hann.
Fjórir flugvellir voru í framboði til varaflugvallar. Staða hinna þriggja er í dag þannig; - að ekkert áætlunarflug er á Sauðárkrók, stopult flug var til Húsavíkur þar til flugfélagið Ernir tóku við keflinu með áætlaðar átta ferðir í viku 2020. Síðast en ekki síst, hefur þurft að leggja mikla fjármuni til að lengja flugbraut og bæta verulega aðflugsbúnað fyrir millilandaflug til Akureyrar.
Nokkurs titrings hefur gætt vegna þessarar skoðunar samgönguráðherra og hefur hann í því máli haft vindinn i fangið.
Öflugar flugbrautir
Til að vera í stakk búinn að taka við auknu flugi inn á flugvöllinn, þarf að gera eina braut þannig úr garði að hún geti þjónað öllum flugvélum sem nýta sér Keflavíkurflugvöll. Það táknar að aðalbrautin á Egilsstaðaflugvelli þarf að vera 2700x60m (nr. 3 á korti) að stærð. Jafnframt þarf að leggja nýja braut 2000x45m (nr. 1 á korti) sem hefur stefnu inn Eyvindardal, þar sem vindur úr þeirri áttinni veldur af og til erfiðleikum við að nýta flugvöllinn. Þar að auki er rétt að leggja neyðarbraut 900x30m (nr. 2 á korti), sem liggja mun sem næst austur-vestur. Byggja þarf nýjan flugturn, vélageymslu og slökkvistöð (nr. 5 á korti) og stórt flughlað (nr. 6 á korti).
Meðfylgjandi er skrá sem sýnir kort af nýrri útfærslu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)