Færsluflokkur: Samgöngur
31.5.2024 | 10:13
Skattheimtumenn ISAVIA
Egilsstaðaflugvöllur hefur verið aðalflugvöllur fyrir Austurland síðan 1952, en þá vék eldri grasflugbraut fyrir malarflugbraut á bökkum Eyvindarár. Stórum áfanga var náð 1993, þegar nýr malbikaður flugvöllur á Egilsstöðum var tekinn í notkun. Með þeim endurbótum, urðu til nýir og spennandi möguleikar á margskonar notkun flugvallarins fyrir Austurland allt. Öll loforð um akbrautir og stæði hafa verið vanefnd í áraraðir.
Hins vegar er hægt að fara snöggt í skattheimtu vegna bílastæða. Það gerist eins og hendi sé veifað þó stór hluti bílastæðisins, við Alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum, sé möl og undir vatni í bleytutíð. Vanalega eru framkvæmdir við flugvelli á fjárhagsáætlun Alþingis. En, - öfugt við hina tvo alþjóðaflugvelli Íslands, er allt í einu þörf á að fjármagna framkvæmdir við Alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum, - með betli. Þeir sem hafa einhverja glóru um skiptingu þess fjármagns, sem verður til á Íslandi, vita að Austfirðingafjórðungur leggur til mun meira fjármagn til ríkisreksturs en kemur til baka til Austurlands í verklegar framkvæmdir.
Lítið aðlaðandi fyrir farþega með farangur. Malborið bílastæði með pollum í bleytutíð og án ljósastaura.Áætlanir ráðamanna Isavia voru að hefja skattlagningu, eingöngu vegna bílastæða á Alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum. Það hefur væntanlega verið gert til að Austfirðingar hefðu forgang á þá sérstöku upplifun að greiða skemmtanaskatt. Rúsínan í pylsuendanum var að upplifa skattinn við það eitt að skjótast út á flugvöll að ná í frakt. Það er ekki séns að Austfirðingar átti sig á því í hverju sú jákvæða upplifun á að vera fólgin, að láta féfletta sig.
Eftir kröftug mótmæli heimafyrir, var dregið úr ýtrustu skattheimtu Isavia. Fallið var frá því að innheimta skattinn við að skjótast á flugvöllinn, vegna flutningsþjónustu Flugleiða og voru frímörk skattleysisins rýmkuð í fimm klukkustundir. Jafnframt var samþykkt að hefja ekki innheimtu skattsins fyrr en að hægt væri gera slíkt hið sama á Reykjavíkurflugvelli og Alþjóðaflugvellinum á Akureyri.
Auk þess að Austfirðingar búi við skerta heilbrigðisþjónustu, þurfa þeir að taka á sig hagræðinguna, sem búið er að koma á í nafni hagkvæmni stærðarinnar og býr umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað við alvarlegt fjársvelti af þeim sökum. Stór hluti heilbrigðisþjónustunnar er þar með komin á þjóðvegakerfið og flugleiðir til borgarinnar. Það bitnar harkalega á þeim sem þurfa á þjónustunni að halda. Þar er vinnutap ekki inni í EXCEL-skjali heilbrigðisyfirvalda og fellur því af fullum þunga á sjúklinginn. Þá skiptir engu hvort tafir verði í flugi vegna áhafnaskorts, bilana eða veðurs.
Svona skattlagning er grímulaus atlagan að fólki sem býr á Austurlandi. Það fólk er þátttakendur í sameiginlegum rekstri ríkisins með vinnuframlagi sínu. Eiga þeir skertan rétt þegar kemur að þjónustu ríkisins? Er umrædd skattheimta með vilja og vitund ríkisstjórnarinnar?
Nú skil ég loksins hvað Isavia á við með bættri ferðaupplifun. Innifalið í bílastæðagjaldinu er nefnilega veiðileyfi á leirgeddurnar í drullupollunum á bílastæðum á Egilsstaðaflugvelli.Verður Vegagerðin næsta ríkisfyrirtækið, sem kemur til með að nýta sér þessa sérstæðu skattaglufu? Gæti Vegagerðin farið að rukka inn veggjöld vegna Fjarðarheiðaganga til að vegfarendur fái þá sérstöku upplifun að borga fyrir aðgang að göngum en þurfa samt sem áður að fara yfir Fjarðaheiðina í blindbyl þar til búið er að fjármagna göngin?
Hvort þarf fimm háskólagráður til að skilja svona fíflagang eða þrjá Bakkabræður?
Meðfylgjandi myndir sýna hvað Isavia er að fara að rukka fyrir. Bílastæðin eru búin að vera óbreytt í 33 ár. Upplifunina geta lesendur getið sér til um.
30.5.2024 | 16:25
Bílastæðagjöld á Akureyri og á Egilsstöðum
Landsbyggðarskattur?
Búið er að setja upp bílastæðakerfi með aðgangsstýringu sem les bílnúmer og stefnt er að því að hefja nýtingu þess á næstunni. Markmiðið er sagt vera að bæta gestum þjónustu og ferðaupplifun, sem er verðugt markmið, en mikilvægt er að gjaldtakan sé hófleg og komi ekki á sama tíma niður á notendum þjónustunnar.
Samkvæmt gjaldskrá eru fyrstu fimm klukkustundirnar fríar en gert er ráð fyrir að dagurinn muni kosta 1750 kr. Þess ber að geta að þeir einstaklingar sem ætla að nýta sér innanlandsflug t.d. vegna heilbrigðisheimsóknar ná í flestum tilfellum ekki fram og til baka á innan við fimm klukkustundum. Fyrstu sjö dagana er gert ráð fyrir að dagurinn muni kosta 1750 kr. næstu sjö daga á eftir 1350 kr. og svo 1200 kr. hver dagur eftir 14 daga. Kostnaður vegna skemmri ferða getur því orðið töluverður, og bitnar einna helst á þeim sem búa utan Akureyri eða Egilsstaða og þurfa að keyra lengri leið á flugvöllinn. Þá þarf að huga að hvernig gjaldtakan mun horfa við bílaleigum og tryggja að kerfið sé skilvirkt fyrir þær og að óþarfa kostnaður lendi ekki á þeim, enda mikilvægur liður í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
Það er þörf á betri útfærslu
Vissulega hafa myndast álagspunktar á bílastæðum við flugstöðvarnar, er það þá einna helst þegar stór millilandaflug eru frá flugstöðvunum. Að mínu mati mætti réttlæta gjaldtöku vegna slíkra ferða, enda væri það í samræmi við það sem gengur og gerist við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að huga betur að útfærslu vegna styttri ferða, sér í lagi þeirra sem eru að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið, en viðbúið er að viðbótarkostnaður komi til með að leggjast á fólk af landsbyggðinni sem þarf að sækja slíka þjónustu.
Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að hægja hér aðeins á ferðinni og skilgreina betur gjaldtöku með þessum hætti. Það er ekki boðlegt leggja á auka kostnað á íbúa landsbyggðarinnar með svona einhliða aðgerð. Því hef ég komið málinu á framfæri í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og beitt mér fyrir því að gjaldtakan verði tekin til skoðunar á vettvangi nefndarinnar.
Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar.
20.12.2022 | 01:26
Kanna búnað bifreiða og getu ökumanna í vetrarakstri.
Oft er gripið til þess ráðs að stoppa ökumenn og kanna ástand þess sem undir stýri situr, með tilliti til hugsanlegs áfengismagns í blóði og/eða aksturs vegna vímuefna.
Sama er uppi á teningnum er varðar hraðakstur og hvort bifreið hefur verið færð til skoðunar á tilsettum tíma.
Nú erum við farin að snúa málunum á haus þegar kemur að fólki, sem ekki kann að aka við vetrarskilyrði né er fært um að meta aðstæður vegna fannfergis á Íslandi. Það tekur yfir alla heilbrigða hugsun hjá yfirstjórn vegamála að beita því að loka vegum, sem bitna á bílstjórum með mikla reynslu í vetrarveðrum og mörgum þáttum atvinnulífsins.
Er ekki gerlegt að setja upp pósta, eins og að framan greinir, þar sem dekk bíla eru skoðið og eftir atvikum hvort ökutækið hafi þá getu að takast á við krefjandi aðstæður og ekki síst ökumaðurinn?
Það ætti ekki að vera erfitt að sjá mun á lítilli eins drifa bifreið með ökumanni, sem ljóst má vera að hefur ekki reynslu af vetrarakstri og þaulreyndum bílstjóra á velbúnu farartæki til vetraraksturs.
Vissulega geta bílstjórar á velbúnum farartækjum verið óhæfir til að aka við umræddar aðstæður, en fá atvik eiga ekki að koma í veg fyrir að beita heilbrigðri skynsemi og nýta spart forræðishyggjuna.
Meðalhófsreglan á sérlega vel við hér.
Bara grín að loka Reykjanesbrautinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2021 | 23:39
Hvar er mesta svifrykið?
Gæti það verið í Reykjavík?
Þar er mest skafið, sandað og saltað.
Þar snjóar minna og þar hafa íbúar val um almenningssamgöngur.
En þá dettur einhverjum vitringnum í hug að rukka sérstaklega fyrir notkun á nagladekkjum.
Heilsársdekk virka ekki eins og nagladekk í mikilli hálku, það hef ég sannreynt.
Nagladekk eru engin alsherjar lausn og ávallt verður að aka miðað við aðstæður.
Púnkturinn er hins vegar sá, af því að þetta veldur mengun í Reykjavík á náttúrulega að koma í veg fyrir að nota nagladekk á landsbyggðinni þar sem færð á vegum er oft slæm, sérstaklega þegar bleyta ofan á ís valda mikilli hálku. Vetrarþjónustu er verr hægt að sinna m.a. skorts á fjárframlagi í slíkt.
Væri ekki heppilegra að byrja á því að rukka þá hressilga, sem ekki virða hámarkshraða?
Heimilt verði að rukka fyrir nagladekkjanotkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2021 | 14:14
Bæjarstjórnin í Múlaþingi og Seyðisfjarðagöngin
Nokkuð hefur verið fjallað um Seyðisfjarðagöng og sýnist þar sitt hverjum. Stjórnendur í Múlaþingi eru tvístígandi í hvar gangamunninn á að koma út Héraðsmegin og virðist bæjarstjórninni frekar hlusta á rök annarra en að líta til þess hvar vilji Seyðfirðinga liggur og hvernig samspil vegfarenda og íbúa Egilsstaða og Seyðisfjarðar fara best saman.
Hver er vilji Seyðfirðinga? Hefur verið gerð könnun á vilja hvar hugur þeirra stendur til samganga til og frá sveitarfélaginu þeirra? Hvert er samspil flugvallarins á Egilsstöðum við Seyðisfjarðagöng og höfnina á Seyðisfirði? Er hægt að vinna með skemmtiferðaskip og nýta þetta samspil til að koma á verkefni um farþegaskipti?
Tvær leiðir
Í þessu verkefni virðast einungis tvær leiðir færar, suðurleið eða norðurleið. Þær leiðir þurfa ítarlega skoðun og verður að greina kosti og galla með hvar framtíðarlega vegarins skili hámarks arði til langrar framtíðar. Aðrar tillögur, sem hafa komið fram eru illa ígrundaðar og meingallaðar, að mínu mati. Hafa ber í huga að þessi vegur mun vega þungt í framtíðarskipulagi Egilsstaðabæjar til langrar framtíðar. Nokkuð hefur borið á áhyggjum á að fyrirtæki hafi sett sig niður við þjóðbraut. Vissulega er það svo og taka verður sérstakt tillit til þeirra sjónarmiða við færslu þjóðbrauta. Hitt er svo að þessi framkvæmd tekur nokkurn tíma og breytingar eiga sér stað hjá fyrirtækjum í miðbæjum. Þau þróast og þurfa meira rými, sem oft á tímum er ekki í boði í hjarta bæjarfélags auk þess eru sum bæjarfélög betur staðsett í þjónustulegu tilliti og mikið þarf til að það breytist.
Leið eitt, norðurleið (Blá á korti)
Unnið með tillöguna um að gangamunninn verði fyrir ofan Steinholt með vegtengingu inn á þjóðveg 93 fyrir neðan Lönguhlíðina. Ekki þarf að gera annað að þessu sinni en að leggja vegstubb að núverandi vegi og brúa Miðhúsaána og umferð fer sömu leið og nú, yfir núverandi brú á Eyvindará og inn á Fagradalsbraut. Jafnframt verði unnið með eldri hugmyndir Vegagerðarinnar um brú við Melshorn og í framhaldi þarf stjórn Múlaþings að girða sig í brók, er varðar skipulag vegna nýrrar brúar á Lagarfljót með tilliti um lengingu Egilsstaðaflugvallar til suðurs. Þegar þessi fram
kvæmd verður öll komin til framkvæmda, þá léttist verulega á umferð um miðbæ Egilsstaða, sérstaklega vegna þungaflutninga. Svörtu brotastrikin á kortinu eru jarðgöng.
Leið tvö, suðurleið (Rauð á korti)
Verði valið að fara svokallaða Dalhúsaleið, skal gerð krafa um að gera um eins kílómetra löng göng í gegnum Egilsstaðaháls, gengt gangamunnanum við Dalhús og þaðan beint niður á Vallaveg við Kollstaði. Þá næst sama niðurstaða og við norðurleiðina, það mundi létta á allri umferð um miðbæinn.
Leið tvö er það langt frá núverandi þéttbýli á Egilsstöðum að ekki þarf að taka tillit til skipulags bæjarins í bráð og helgunarréttur vegarins verður virtur við skipulag umhverfis veginn á síðari stigum. Auðvelt verður að hanna að- og fráreinar frá veginum og mislæg gatnamót í fyllingu tímans.
Hvor leiðin sem farin verður, breytir samt ekki þeirri staðreynd að það verður að byggja nýja brú á Lagarfljót fyrr en seinna.
Næsta grein mín fjallar um það mál.
21.5.2021 | 18:05
Loforð og efndir Sigurðar Inga Jóhannssonar í öryggismálum
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur ítrekað talað fyrir því að endurbætur á Egilsstaðaflugvelli séu rétt handan við hornið og tæplega það. Tvö ár eru nú liðin síðan samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lofaði því að verkið væri að fara í útboð, ekki aðeins það, heldur átti að byggja fyrsta hluta akstursbrautar meðfram flugbrautinni, til þess að liðka fyrir umferð um brautina, og að sá hluti mundi jafnframt nýtast til að leggja flugvélum skamma hríð.
Þannig hafði akstursbrautin tvíþætt áhrif, liðka fyrir umferð loftfara á flugbrautinni, og flýta fyrir að rýma brautina fyrir annarri umferð. Að auki átti sá kostur að vera fyrir hendi að nota akstursbrautina sem stæði fyrir flugvélar þegar ástand lokaði öðrum flugvöllum á Íslandi um stundarsakir. Hugmyndin var góðra gjalda verð og ekki að sjá annað en hún gæti virkað fullkomlega, enda kviknaði hugmyndin heima fyrir.
Nú er loks búið að bjóða út endurbætur á flugvellinum sem felast í því að endurnýja yfirborð brautarinnar. Brautin er orðin mjög varasöm að mati Öryggisnefndar íslenskra flugmanna og flugrekenda almennt. Það voru vissulega mikil tíðindi að nú skyldi standa við stór orð samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hefja framkvæmdir. En sælan varði ekki lengi hjá áhugafólki um Egilsstaðaflugvöll sem þó er löngu orðið vant því að loforð séu ekki efnd þegar kemur að framkvæmdum á landsbyggðinni. Stóra áfallið var að akstursbrautin var skorin frá verkinu og framkvæmdum frestað um óákveðinn tíma en eins og allir vita getur slík frestun varað í áratugi.
Austfirðingar hafa þagað þunnu hljóði vegna annars flugvallaverkefnis í NA-kjördæmi, sem virðist hafa betri aðgang að ríkiskassanum. Eflaust blöskrar mörgum eyðslan í það verkefni, einkum Austfirðingum. Samkvæmt áætlunum verður, árið 2025, framkvæmdakostnaður við það eina verk kominn í sjö milljarða frá aldamótum talið. Þar er ekki stýft úr hnefa. Ljóst er að digur sjóður er í umsjá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ætti honum ekki verða skotaskuld úr því að koma myndarlega að verkefni um Egilsstaðaflugvöll, standa við gefin loforð, og leggja það fé sem til þarf í Egilsstaðaflugvöll.
Flugvöllinn er einn sá fremsti í flugöryggislegu tilliti á Íslandi.
31.8.2013 | 17:37
Íslenska ríkið taki Vatnsmýrina eignarnámi....
....þar sem ríkir almannahagsmunir eru í húfi. Reykjavíkurborg á eingöngu lítinn part í Vatnsmýrinni og létt verk ætti að vera slíta þessa fáu fermetra út úr borginni.
Stjórnarskráin segir:
72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Ef Reykjavíkurborg stendur við sinn keyp, verður að grípa til þeirra meðala sem þarf til að hnekkja því. Ef skipulgasvaldið í stjórnarskránni er þessari grein yfirsterkari og ekki gengur að knýja fram eignarnám, verður að finna nýrri höfuðborg stað. Stað þar sem allir þegnar þjóðarinnar verði velkomnir til að þyggja, ekki eingöngu að vera áhorfendur og greiðendur framkvæmda misvitra borgarfulltrúa.
Þá kemur sterkt inn að fara að dusta rykið hugmyndum Trausta Valsonar og byggja höfuðborg landsins inn á hálendi Íslands og færa alla opinberan rekstur þangað. Þá verða svipaðar vegalengdir fyrir alla í stjórnsýslu, menntun og á hátæknisjúkrahús.
Tveir vilja flugvöll í Vatnsmýri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 1.9.2013 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.8.2013 | 12:47
Srtætó styrktur af ríki á sama tíma og......
Er það réttmætt að greiða niður strætó í Reykjavík og allir landsmenn borgi það og skattpína síðan farþega sem nýta flugið og hafa ekki sömu möguleika á að nýta strætó??????
Segja Strætó njóta ólögmætrar ríkisaðstoðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 1.9.2013 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2013 | 13:04
Frábært framtak.
Almenningur á landsbyggðinni verður að standa saman í þessu máli, hagsmunirnir eru ríkir.
Í vor verður kosið til sveitastjórnar, þá er tækifæri að kjósa þá inn á lista sem hlynntir eru flugvellinum í Vatnsmýrinni, ekki síst að velja á listana í Reykjavík.
Samhliða sveitastjórnakosningunum, verði mönnum gefinn kostur á að kjósa um flugvöllinn í Reykjavík. Fyrri kosning, sem ítrekað er vitnað í, var tómt rugl og yfirlýsing þáverandi borgarstjóra af sama tilefni, embættinu til vansæmdar.
Hjartað í Vatnsmýrinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 1.9.2013 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2013 | 13:00
Þjóðvegur eitt ófær.
Hvernig má það vera, að þjóðvegur eitt skuli vera ófær?
Þetta kallar á Öxi, og það strax!
Festu bíl á ófærri Breiðdalsheiði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 1.9.2013 kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)