Svar við bréfi Pella

Í grein þeirri sem Benedikt V. Warén ritaði í síðasta tölublað Austurgluggans var margt málblómið að finna. Ég ætla ekki að ganga í það verk að tína þau öll upp, þó svo að vöndur sá yrði skrúðmikill, heldur láta nægja að staldra við eina málsgrein sem þar er að finna. Þar segir: „Ekki er ljóst hver var meining þáverandi meirihluta sveitarfélagsins að færa munnann frá Steinholti“, en þar er vitaskuld rætt um gangamunna Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin.

Benedikt sat á framboðslista Miðflokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og hefur raunar verið kallaður til setu í sveitarstjórn Múlaþings á kjörtímabilinu í forföllum oddvita listans. Það var einmitt í umræðu um skipulagsmál tengd Fjarðarheiðargöngum á fundi sveitarstjórnar 14. september. Þetta hefur verið annasamur dagur hjá frambjóðendum Miðflokksins þar sem enginn þeirra níu sem skipuðu annað til tíunda sæti listans gátu mætt til fundarins en gott að Benedikt, sá ellefti, gat svarað kallinu. Hann er því málinu ekki ókunnugur og nógu áhugasamur til þess að skrifa um það greinar í blöð.

En það er verra með minnið. Umgengni fulltrúa Miðflokksins um staðreyndir málsins hefur verið í lakara lagi að undanförnu og margt sem þeir ekki muna eða skilja, þó þeir láti það alls ekki stöðva sig í að nýta málfrelsi sitt um efnið. Þannig háttar til um áður tilvitnaða málsgrein Benedikts um staðsetningu gangamunna Fjarðarheiðarganga við Dalhús.

Til upprifjunar er því rétt að eftirfarandi komi fram, en hér er í öllum tilfellum vitnað beint í fundargerðir bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs:

Þann 1. apríl 2020 er samþykkt samhljóða „…að skipaður verði starfshópur með fulltrúum frá öllum framboðum í bæjarstjórn, sem hafi það hlutverk að móta afstöðu sveitarfélagsins varðandi legu Fjarðarheiðarganga og vegtenginga í tengslum við þau.“ Í starfshópinn voru þá skipaðir Karl Lauritzson frá D-lista, Stefán Bogi Sveinsson frá B-lista, Skúli Björnsson frá L-lista og Hannes Karl Hilmarsson frá M-lista.

Á næsta fundi bæjarstjórnar þann 15. apríl er samþykkt samhljóða „…að skipa Björn Ármann Ólafsson í starfshóp sem móta á afstöðu sveitarfélagsins um legu Fjarðarheiðarganga og vegtenginga í tengslum við þau, í stað Hannesar Karls Hilmarssonar sem hefur óskað eftir að fá að víkja úr hópnum.“

Á bæjarstjórnarfundi 6. maí 2020 skilar framangreindur starfshópur af sér niðurstöðu. Bókun bæjarstjórnar af þeim fundi er hér í heild sinni:

Fyrir liggja fundargerðir starfshóps um legu Fjarðarheiðarganga, sem bæjarstjórn Fljótsdalshérað skipaði á fundi sínum þann 1. apríl.

Til máls tóku undir þessum lið og í þessari röð: Gunnar Jónsson, sem vakti athygli á vanhæfi sínu og úrskurðaði forseti hann vanhæfan. Gunnhildur Ingvarsdóttir, sem bar fram fyrirspurn. Björg Björnsdóttir, Hannes Karl Hilmarsson, Anna Alexandersdóttir, Stefán Bogi Sveinsson, sem m.a. svaraði fyrirspurn, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Björn Ingimarsson, Hannes Karl Hilmarsson, Gunnhildur Ingvarsdótir, Stefán Bogi Sveinsson, Björg Björnsdóttir og Björn Ingimarsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Að tillögu starfshópsins samþykkir bæjarstjórn að unnið verði áfram að undirbúningi ganganna miðað við að munni þeirra verði við Dalhús. Jafnframt felur bæjarstjórn umhverfis- og framkvæmdanefnd, í samstarfi við Vegagerðina, að hefja þegar nauðsynlegan undirbúning að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í þessa veru. Bæjarstjórn telur rétt að stefna að því að umhverfismat fyrir nauðsynlegar vegaframkvæmdir verði unnið samhliða gerð aðalskipulags og að í því ferli verði bornir saman þrír kostir í vegalagningu, sem í vinnu starfshópsins hafa verið nefndir Fagradalsbrautarleið, suðurleið og norðurleið. Gögn úr umhverfismatinu, sem og umferðarmati sem Vegagerðin mun einnig láta fara fram, verði nýtt til að taka endanlega afstöðu til legu vegarins í aðalskipulagsferlinu.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu, en einn var fjarverandi (GJ)

Þannig er nú það. Hér var enginn meirihluti að verki. Starfshópurinn sem skipaður var fulltrúum allra framboða var einróma í því að leggja til gangamunna við Dalhús. Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að gangamunninn yrði við Dalhús. Fulltrúar Miðflokksins tóku virkan þátt í þessari vinnu og samþykktu málið líkt og allir bæjarfulltrúar, utan raunar einn sem sjálfur vakti athygli á vanhæfi sínu og vék af fundi. O tempora o mores!

Stefán Bogi Sveinsson

Höfundur er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður

 

 


Göng og skipulag

Það er mikil skammsýni ef menn telja að skipulag í og við Egilsstaðabæ sé smá innanbæjarverkefni, sem menn geti leyft sér að fjalla um í hálfkæringi, eins og hvort eigi að leyfa lausagöngu katta eða ekki.  Málið er heldur betur stærra en það, framtíðarhagsmunir sveitarfélagsins eru í húfi.  Skipulag er langtímamarkmið. 

Greiðar samgöngur og tengingar milli samgöngumannvirkja og þjónustukjarna er lykillinn að uppbyggingu og farsæld íbúanna.  Því ber öllum kjörnum fulltrúum að sjá til þess að þetta fari saman og stilla málum þannig upp að sem mestur heildarávinningur náist.  Pólitísk fantabrögð verða að víkja fyrir hagsmunum íbúanna og málefnalegri umræðu.

Þegar til uppbyggingar hafnarmannvirkja í Finnafirði kemur, gæti Egilsstaðaflugvöllur gegnt miklu hlutverki í því verkefni.  Þá er mikilvægt að tenging flugvallarins við önnur samgöngumannvirki séu hnökralaus og að önnur mannvirki við flugvöllinn hamli ekki stækkun hans né þrengi svo að honum að það spilli getu hans til stórra verkefna.  Kjörnir fulltrúar verða að átta sig á því, að í mannfagnaði vega skálaræður ansi létt og loforð sem þar eru gefin eru marklítil.  Ítrekað hafa komið svardagar og vilyrði fyrir uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar og að lenging hans sé forgangsmál.  Loforð hafa enga merkingu fyrr en þau eru efnd.

Fyrir stuttu var í Austurfrétt athygliverð grein eftir Agnar Sverrisson þar sem hann bendir á það augljósa að ekki þurfi strax að fara í veigamikla vegagerð í tengslum við væntanleg Seyðisfjarðargöng, hvorki á Seyðisfirði né Héraði.  Með því að færa gangamunnann til upphafslegs skipulags má spara umtalsvert fé.  Síðar er hægt að fara í vegatengingar þegar aukin umferð kallar á slíkt.

925CED2C-C0BE-47B0-A573-CF4BA9203408_4_5005_cOddviti Framsóknarflokksins bergmálaði alla kosningabaráttuna, að ef valin yrði dýrari leið að mati Vegagerðarinnar, gæti sveitarfélagið setið uppi með reikning að upphæð allt að einum og hálfum milljarði.  Þessu ákvæði hefur aldrei verið beitt en það skipti oddvitann auðvitað engu máli; ítrekað endurkast helgar meðalið.  Með færslu gangamunnans til upphafsins mundi sparast umtalsvert fjármagn.  Mun Vegagerðin greiða Múlaþingi einn og hálfan milljarð ef það kæmi í ljós að færsla gangamunnans og ný nálgun hefði í för með sér umtalsverðan sparnað?  Umrætt ákvæði hlýtur að virka í báðar áttir.

Ekki er ljóst hver var meining þáverandi meirihluta sveitarfélagsins að færa munnann frá Steinholti. Enn hefur því ekki verið svarað.  Hver var ávinningurinn við færsluna inn í Dalhús?  Var fyrri sveitarstjórn beitt þrýstingi?  Hverra hagsmuna var verið að gæta?  Var einhver vanhæfur í þeirri afgreiðslu?  Er ekki rétt að þeir, sem stjórna á bak við tjöldin, geri hreint fyrir sínum dyrum?

Það vakti athygli á 27. fundi sveitarstjórnar Múlaþings, þegar fyrrnefndur oddviti upplýsti að hann væri síður en svo á móti norðurleiðinni að því gefnu að  gangamunninn væri við Steinholt.  Hvað hefur hindrað meirihlutann í Múlaþingi að breyta fyrri samþykktum? Það ætti að vera auðvelt að fenginni vitneskju frá Vegagerðinni um að það sé á forræði meirihlutans í Múlaþingi að taka ákvörðun um staðsetningu gangamunnans.  Flest rök hníga í þá átt en oddvitastoltið getur auðvitað ekki kyngt því.  Undrun vekur hve lágt risið er á þorra kjörinna sveitarstjórnarmanna, að þeir hafi valið oddvita Framsóknarflokksins, sem talsmann samvisku sinnar. 

Meirihlutinn í Múlaþingi virðist ekki ætla að ganga í takt við vilja íbúanna um staðarval leiðar frá Seyðisfjarðargöngum Héraðsmegin né hefur meirihlutinn heildarsýn um gagnkvæmar tengingar umferðar- og samgöngumannvirkja.  Því er lagt til að frekari vinnu við skipulag verði frestað þar til greiningarvinna hefur átt sér stað um samspil umferðar- og samgöngumannvirkja á mikilvægustu gatnamótum Austurlands.

Fyrir því eru þau mikilvægu rök: 

  1. Ekki er hægt að fara í svo umfangsmiklar breytingar á skipulagi án þess að taka inn í heildarmyndina hvar ný Lagarfljótsbrú á að vera.
  2. Skipuleggja þarf hvar þjóðvegur eitt á að vera til að lengja megi Egilsstaðaflugvöll í allt að 2700 metra, eins og upphafleg áform gerðu ráð fyrir.
  3. Markmið skipulagsins verður jafnframt að taka tillit til þess að minnka þungaumferð um miðbæ Egilsstaða.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband