Göng og skipulag

Það er mikil skammsýni ef menn telja að skipulag í og við Egilsstaðabæ sé smá innanbæjarverkefni, sem menn geti leyft sér að fjalla um í hálfkæringi, eins og hvort eigi að leyfa lausagöngu katta eða ekki.  Málið er heldur betur stærra en það, framtíðarhagsmunir sveitarfélagsins eru í húfi.  Skipulag er langtímamarkmið. 

Greiðar samgöngur og tengingar milli samgöngumannvirkja og þjónustukjarna er lykillinn að uppbyggingu og farsæld íbúanna.  Því ber öllum kjörnum fulltrúum að sjá til þess að þetta fari saman og stilla málum þannig upp að sem mestur heildarávinningur náist.  Pólitísk fantabrögð verða að víkja fyrir hagsmunum íbúanna og málefnalegri umræðu.

Þegar til uppbyggingar hafnarmannvirkja í Finnafirði kemur, gæti Egilsstaðaflugvöllur gegnt miklu hlutverki í því verkefni.  Þá er mikilvægt að tenging flugvallarins við önnur samgöngumannvirki séu hnökralaus og að önnur mannvirki við flugvöllinn hamli ekki stækkun hans né þrengi svo að honum að það spilli getu hans til stórra verkefna.  Kjörnir fulltrúar verða að átta sig á því, að í mannfagnaði vega skálaræður ansi létt og loforð sem þar eru gefin eru marklítil.  Ítrekað hafa komið svardagar og vilyrði fyrir uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar og að lenging hans sé forgangsmál.  Loforð hafa enga merkingu fyrr en þau eru efnd.

Fyrir stuttu var í Austurfrétt athygliverð grein eftir Agnar Sverrisson þar sem hann bendir á það augljósa að ekki þurfi strax að fara í veigamikla vegagerð í tengslum við væntanleg Seyðisfjarðargöng, hvorki á Seyðisfirði né Héraði.  Með því að færa gangamunnann til upphafslegs skipulags má spara umtalsvert fé.  Síðar er hægt að fara í vegatengingar þegar aukin umferð kallar á slíkt.

925CED2C-C0BE-47B0-A573-CF4BA9203408_4_5005_cOddviti Framsóknarflokksins bergmálaði alla kosningabaráttuna, að ef valin yrði dýrari leið að mati Vegagerðarinnar, gæti sveitarfélagið setið uppi með reikning að upphæð allt að einum og hálfum milljarði.  Þessu ákvæði hefur aldrei verið beitt en það skipti oddvitann auðvitað engu máli; ítrekað endurkast helgar meðalið.  Með færslu gangamunnans til upphafsins mundi sparast umtalsvert fjármagn.  Mun Vegagerðin greiða Múlaþingi einn og hálfan milljarð ef það kæmi í ljós að færsla gangamunnans og ný nálgun hefði í för með sér umtalsverðan sparnað?  Umrætt ákvæði hlýtur að virka í báðar áttir.

Ekki er ljóst hver var meining þáverandi meirihluta sveitarfélagsins að færa munnann frá Steinholti. Enn hefur því ekki verið svarað.  Hver var ávinningurinn við færsluna inn í Dalhús?  Var fyrri sveitarstjórn beitt þrýstingi?  Hverra hagsmuna var verið að gæta?  Var einhver vanhæfur í þeirri afgreiðslu?  Er ekki rétt að þeir, sem stjórna á bak við tjöldin, geri hreint fyrir sínum dyrum?

Það vakti athygli á 27. fundi sveitarstjórnar Múlaþings, þegar fyrrnefndur oddviti upplýsti að hann væri síður en svo á móti norðurleiðinni að því gefnu að  gangamunninn væri við Steinholt.  Hvað hefur hindrað meirihlutann í Múlaþingi að breyta fyrri samþykktum? Það ætti að vera auðvelt að fenginni vitneskju frá Vegagerðinni um að það sé á forræði meirihlutans í Múlaþingi að taka ákvörðun um staðsetningu gangamunnans.  Flest rök hníga í þá átt en oddvitastoltið getur auðvitað ekki kyngt því.  Undrun vekur hve lágt risið er á þorra kjörinna sveitarstjórnarmanna, að þeir hafi valið oddvita Framsóknarflokksins, sem talsmann samvisku sinnar. 

Meirihlutinn í Múlaþingi virðist ekki ætla að ganga í takt við vilja íbúanna um staðarval leiðar frá Seyðisfjarðargöngum Héraðsmegin né hefur meirihlutinn heildarsýn um gagnkvæmar tengingar umferðar- og samgöngumannvirkja.  Því er lagt til að frekari vinnu við skipulag verði frestað þar til greiningarvinna hefur átt sér stað um samspil umferðar- og samgöngumannvirkja á mikilvægustu gatnamótum Austurlands.

Fyrir því eru þau mikilvægu rök: 

  1. Ekki er hægt að fara í svo umfangsmiklar breytingar á skipulagi án þess að taka inn í heildarmyndina hvar ný Lagarfljótsbrú á að vera.
  2. Skipuleggja þarf hvar þjóðvegur eitt á að vera til að lengja megi Egilsstaðaflugvöll í allt að 2700 metra, eins og upphafleg áform gerðu ráð fyrir.
  3. Markmið skipulagsins verður jafnframt að taka tillit til þess að minnka þungaumferð um miðbæ Egilsstaða.

Bloggfærslur 24. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband