Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Er Agl.is í andaslitrunum?

Vona ekki.  En, - er von að þeirri hugsun skjóti niður?

Nú 17. sept. er nýjasta fréttin á Agl.is dagsett 15. sept. Þrátt fyrir stórfrétt frá Borgarfirði Eystri um að Fiskverkun Kalla hafi sagt upp öllu sínu starfsfólki og hefur í hótunum við Matvælastofnunina. http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/16/krefst_opinberrar_rannsoknar/. 

Það er miður ef þessi miðill er að drabbast niður. – mjög miður.

Ummælakerfið hjá Agl.is hefur einnig verið úti á annan sólahring, en það er ef til vill í lagi, lítil umfjöllun þar og rýr eftir að innskráningu á það var krafist.  Það er slæmt, vegna þess að oft komu þar inn góðar og gildar ábendingar frá einstaklingum, sem ekki vildu láta nafns síns getið. 

Það á ekki að láta þær ábendingar gjalda þess að nokkrir, sem ekki hafa þroska til að halda sig á málefnalegum nótum og í skjóli nafnleyndar eru í persónulegu skítkasti.  Þessir einstaklingar eru ekki í fullkomlega andlegu jafnvægi og verða alltaf aumkunarverðir hvort eð er.  Slíkum athugasemdum má farga.
 

Hvað er að rafkerfinu?

Þetta er farið að verða ansi þreytandi, þegar vandamál eru á Grundartanga þá skuli rafmagnið undantekningalítið jafnframt fara af á Austurlandi og víðar.  Um daginn var rafmagnslaust í um klukkustund á Austurlandi og fyrr á árinu var ljóslaust í rúmar tvær klukkustundir. 

Er þetta nútíminn?  Eða eru menn komnir of langt í að hagræða?  Er ekki nægur mannskapur til að bregðast við, til að stytta tímann sem rafmagnslaust er? 

Annað sem vekur athygli.  Þegar rafmagnslaust er í Reykjavík í einhverju hverfinu í 10 mín, eru því gerð góð skil í fréttatímum.  Fulltrúar rafveitunnar spurðir í þaula.  Kemur þetta fyrir aftur?  En - þegar rafmagnslaust er klukkustundum saman á landsbyggðinni, þá er hlaupið á hundavaði yfir það í fréttatímanum, ef fréttamenn leggjast þá á annað borð svo lágt að minnast á það í fréttatímanum og reyna að leita skýringa.

Hvað veldur?  Hagræðing og fækkun fréttamanna á landsbyggðinni?


mbl.is Raforkukerfið komið í eðlilegt ástand á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenis av Rana er minn maður....

...ekki það að ég sé sannkristinn, öðru nær, heldur vegna þess að mér finnst menn eiga fullan rétt á að standa við sína sannfæringu.  Ef einhver haldbær rök eru fyrir afstöðu viðkomandi, þá er honum frjálst að viðra þær og standa við.  Þetta er nú einu sinni partur af lýðræðinu og málfrelsinu, sem við berum fulla virðingu fyrir.  Stundum svíður undan, en það verður þá bara að hafa það.


mbl.is Segir Færeyinga skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Axarskaft Kristjáns Þórs Júlíussonar?

Ráðamenn í Fjarðabyggð hafa farið mikinn undanfarið og krafist færslu á þjóðveginum án þess að nokkur haldbær rök fylgi.  Helst er að skilja að lægra vegnúmer skili fleiri ferðamönnum án þess að geta skýrt það hvers vegna vegur 939 um Öxi er með umtalsvert meiri umferð en Þjóðvegur 1 um Breiðdalsheiði (www.vegagerdin.is) og skv. heimasíðu Steinasafns Petru á Stöðvarfirði eru gestir þar um og yfir 20.000 árlega.  Einnig hefur oft heyrst að Fagridalur sé slíkt veðravíti að Oddskarð sé hreinn barnaleikur í samanburðinum.  Núna hentar hins vegar að tala um að vegurinn liggi allur á láglendi frá Hornafirði til Héraðs, þrátt fyrir að Fagridalur sé hátt í fjögur hundruð metra hæð yfir sjó.

Það er síðan dásamlegt, þegar einn þingmaður kjördæmisins, Kristján Þór Júlíusson, kemst óvænt að því að það er eitthvað lífsmark austan Vaðlaheiðarinnar og ekki síður er það gleðilegt að hann skuli taka frá stund til að mæta á fund um þau mál sem hvað brýnast brenna að baki sumra Austfirðinga.  Auðvitað er maður snortinn af því, að umræddur þingmaður skuli á einni kvöldstund átta sig á því, að eitt brýnasta framfaramál í fjórðungnum skuli vera það að færa Þjóðveg 1 frá Breiðdalsheiði um firði til Héraðs. 

Í aðdraganda alþingiskonsinga 2006 hélt Kristján Þór úti heimasíðu og þar kom fram aldeilis metnaðarfull greining hans á samgöngumálum kjördæmisins.

"Samgöngumál
Ég tel bráðnauðsynlegt að halda áfram að bæta samgöngur innan kjördæmisins og ekki síður milli þess og annarra landshluta. Hér bíða fjölmörg brýn verkefni sem ég mun fjalla sérstaklega um annars staðar hér á vefsíðu minni en margir munu kannast við baráttu mína fyrir hálendisvegi milli Akureyrar og Reykjavíkur, Vaðlaheiðargöngum og flugsamgöngum milli Akureyrar og Reykjavíkur og fyrir beinu flugi til útlanda frá Akureyri." 

Eftir nokkur skeyti okkar í milli á netinu hvarf þessi kafli og áherslur í samgöngukaflanum náðu þar eftir örlítið út fyrir Eyjafjarðasvæðið.  Sérstaka athygli vekur að þingmaðurinn tók sérstaklega fram bættar samgöngur.  Ekki er hægt að skilja að í því felist að lengja leiðir, þvert á móti má skynja að bættar samgöngur og stytting sé keppikeflið, - a.m.k. í tíma, eða átti þingmaðurinn eingöngu við samgöngur til og frá Akureyri?

Það hlýtur því að vekja nokkra furðu, þegar þingmaðurinn opinberar skoðun sína um að heppilegt sé að færa Þjóðveg 1 á Austurlandi um firði með tilheyrandi lengingu.  Oftast eru menn sammála um að bæta og stytta leiðir.  Í þessu tilfelli hefði verið nær að fjalla um að færa Þjóðveg 1 í fyllingu tímans, þannig að hann mundi liggja um Öxi og stytta þar með hringveginn umtalsvert.  Þessar nýju áherslur hljóta að vekja menn til umhugsunar um legu Þjóðvegar 1 í víðara samhengi.  Á t.d. með bættum samgöngum út Eyjafjörð, að færa Þjóðveg 1 þannig að hann verði skilgreindur um Siglufjörð, en ekki um Öxnadalsheið, sem þó liggur nokkrum metrum hærra en vegur um Öxi og liggur þar að auki hjá garði nokkurra stórra bæjarfélaga á Tröllaskaganum. 

Tilviljun að nöfni heiðanna skuli vera svo lík, en það skýrir ef til vill ruglinginn í  þingmanninum.  Það er einnig athyglivert að hann skuli kjósa að stilla sér svona ákveðið upp með öðrum hópnum í svo viðkvæmu hitamáli. 

Í Austurglugganum er mynd á forsíðu af þingmanninum, hvar ekki fer á milli mála skoðun hans á málinu.  Er Austurglugginn ef til vill að oftúlka orð þingmannsins?  Hvor er sekur um axarskaft í sínum vinnubrögðum, Austurglugginn eða Kristján Þór Júlíusson?


Hver er ávinningurinn?

Hvað kostar það þjóðarbúið að hafa núna fjóra fyrrverandi ráðherra á launum?  Hvað þarf að greiða þeim aukalega út kjörtímabilið?  Hverju bjarga þessar hrókeringar?  Auðvelda þær umsóks í ESB?

Ekki svo að skilja að ég sé ekki ánægður með að allir voru látnir taka pokann sinn, nema að Ragna átti að sitja áfram, en Árni Páll að víkja.  


mbl.is Yfirgefa ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf má fá nýtt skip og annað föruneyti.

Nú hefur Landsbakinn og Íslandspóstur tekið sér Morgunblaðið, Ríkisútvarpið og fleiri stofnanir sér til fyrirmyndar og í nafni hagræðingar og sparnaðar, lokað sinni starfstöð á Stöðvarfirði.

Landsbyggðamenn mega hafa það, að ávallt eru það okkar minnstu bræður sem fyrst finna fyrir sparnaði og hagræðingu. Það virðist kennt í virtustu skólum þjóðarinnar, að best sé að skera það sem lengst er í burtu frá höfuðstöðvunum.  Það eru engin ný sannindi. 

Spaugstofan skipti nýverið um skipsrúm.  Er það eitthvað sem hægt er að skoða hér?  Í Fjarðabyggð er starfræktur öflugur sparisjóður. Gæti hann yfirtekið starfsemi Landsbankans á Stöðvarfirði og jafnframt þjónustu póstsins?  Eru hér tækifæri til sóknar?  Ástæðulaust að leggja árar í bát baráttulaust.

Hefur það verið rætt? Eru einhverjir vankantar á því að opna útibú frá Sparisjóði Norðfjarðar á Stöðvarfirði og jafnvel viðar um Austurland?  Getur nýr bæjarstjóri í Fjarðabyggð ekki leiðbeint mönnum í þessu? 

Sjálfur hef ég oft hugsað að færa allt mitt fjármagn í Sparisjóðinn, en þegar málin eru síðan skoðuð í kjölinn, sé ég að flestir mínir reikningar í mínus. Veit ekki hvort hægt er að opna reikning í mínus, þó ég hafi eitt sinn átt þar sparisjóðsbók númer 22 í Sparisjóði Norðfjarðar þegar Jón Lundi réði þar ríkjum.

En það er nú allt önnur saga. 


Er forgangsröðin á hreinu á stjórnarheimilinu?

Það er ekki hægt að neyta því, maður verður hugsi yfir forgangsröðinni hjá ríkisstjórninni. 

Var þetta það sem skipti mestu máli einmitt núna?  Eru ráðherrastólar það sem á að hafa forgang, eins og ástandið er í þjóðfélaginu?  Hrókeringar um hverjir hafa völdin?

Ef til vill er þetta rétt.  Það kemur í ljós.  Hugsanlega þarf að hreinsa út „bremsuklossana“ sem standa í vegi atvinnuuppbyggingarinnar í landinu. 

Ef til vill þarf að koma þeim frá sem
„...vilja gera eitthvað annað.....“ þó enginn viti enn hvað það er.

Þetta kemur væntanleg í ljós seinna í dag.


mbl.is Þingflokkar funda í allan dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband