Axarskaft Kristjáns Þórs Júlíussonar?

Ráðamenn í Fjarðabyggð hafa farið mikinn undanfarið og krafist færslu á þjóðveginum án þess að nokkur haldbær rök fylgi.  Helst er að skilja að lægra vegnúmer skili fleiri ferðamönnum án þess að geta skýrt það hvers vegna vegur 939 um Öxi er með umtalsvert meiri umferð en Þjóðvegur 1 um Breiðdalsheiði (www.vegagerdin.is) og skv. heimasíðu Steinasafns Petru á Stöðvarfirði eru gestir þar um og yfir 20.000 árlega.  Einnig hefur oft heyrst að Fagridalur sé slíkt veðravíti að Oddskarð sé hreinn barnaleikur í samanburðinum.  Núna hentar hins vegar að tala um að vegurinn liggi allur á láglendi frá Hornafirði til Héraðs, þrátt fyrir að Fagridalur sé hátt í fjögur hundruð metra hæð yfir sjó.

Það er síðan dásamlegt, þegar einn þingmaður kjördæmisins, Kristján Þór Júlíusson, kemst óvænt að því að það er eitthvað lífsmark austan Vaðlaheiðarinnar og ekki síður er það gleðilegt að hann skuli taka frá stund til að mæta á fund um þau mál sem hvað brýnast brenna að baki sumra Austfirðinga.  Auðvitað er maður snortinn af því, að umræddur þingmaður skuli á einni kvöldstund átta sig á því, að eitt brýnasta framfaramál í fjórðungnum skuli vera það að færa Þjóðveg 1 frá Breiðdalsheiði um firði til Héraðs. 

Í aðdraganda alþingiskonsinga 2006 hélt Kristján Þór úti heimasíðu og þar kom fram aldeilis metnaðarfull greining hans á samgöngumálum kjördæmisins.

"Samgöngumál
Ég tel bráðnauðsynlegt að halda áfram að bæta samgöngur innan kjördæmisins og ekki síður milli þess og annarra landshluta. Hér bíða fjölmörg brýn verkefni sem ég mun fjalla sérstaklega um annars staðar hér á vefsíðu minni en margir munu kannast við baráttu mína fyrir hálendisvegi milli Akureyrar og Reykjavíkur, Vaðlaheiðargöngum og flugsamgöngum milli Akureyrar og Reykjavíkur og fyrir beinu flugi til útlanda frá Akureyri." 

Eftir nokkur skeyti okkar í milli á netinu hvarf þessi kafli og áherslur í samgöngukaflanum náðu þar eftir örlítið út fyrir Eyjafjarðasvæðið.  Sérstaka athygli vekur að þingmaðurinn tók sérstaklega fram bættar samgöngur.  Ekki er hægt að skilja að í því felist að lengja leiðir, þvert á móti má skynja að bættar samgöngur og stytting sé keppikeflið, - a.m.k. í tíma, eða átti þingmaðurinn eingöngu við samgöngur til og frá Akureyri?

Það hlýtur því að vekja nokkra furðu, þegar þingmaðurinn opinberar skoðun sína um að heppilegt sé að færa Þjóðveg 1 á Austurlandi um firði með tilheyrandi lengingu.  Oftast eru menn sammála um að bæta og stytta leiðir.  Í þessu tilfelli hefði verið nær að fjalla um að færa Þjóðveg 1 í fyllingu tímans, þannig að hann mundi liggja um Öxi og stytta þar með hringveginn umtalsvert.  Þessar nýju áherslur hljóta að vekja menn til umhugsunar um legu Þjóðvegar 1 í víðara samhengi.  Á t.d. með bættum samgöngum út Eyjafjörð, að færa Þjóðveg 1 þannig að hann verði skilgreindur um Siglufjörð, en ekki um Öxnadalsheið, sem þó liggur nokkrum metrum hærra en vegur um Öxi og liggur þar að auki hjá garði nokkurra stórra bæjarfélaga á Tröllaskaganum. 

Tilviljun að nöfni heiðanna skuli vera svo lík, en það skýrir ef til vill ruglinginn í  þingmanninum.  Það er einnig athyglivert að hann skuli kjósa að stilla sér svona ákveðið upp með öðrum hópnum í svo viðkvæmu hitamáli. 

Í Austurglugganum er mynd á forsíðu af þingmanninum, hvar ekki fer á milli mála skoðun hans á málinu.  Er Austurglugginn ef til vill að oftúlka orð þingmannsins?  Hvor er sekur um axarskaft í sínum vinnubrögðum, Austurglugginn eða Kristján Þór Júlíusson?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill .

(IP-tala skráð) 8.9.2010 kl. 21:29

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þakk fyrir innlitið Silla og ekki síður fyrir "commentið". 

Benedikt V. Warén, 9.9.2010 kl. 17:00

3 identicon

Sæll Benedikt.

Hingað hef ég aldrei komið áður en mér var ekki kunnugt um að þú héldir úti bloggsíðu. Ljómandi fínir pistlar hjá þér.

Það hefur borið á gagnrýni varðandi umfjöllun Austurgluggans um Þjóðveg 1. Mikil er sú gagnrýni ekki en mér var bent á þitt blogg af þeim ástæðum. Ég tek allri gagnrýni og umfjöllun um blaðið fagnandi og mun leitast eftir því að svara þeirri gagnrýni sem beinast að mér eða minni umfjöllun. Gagnrýni er af hinu góða og ég vænti þess að Austfirðingar verði áfram duglegir við að tjá sínar skoðanir á blaðinu og málefnum líðandi stundir. En til þess að svara því hvort ummæli Kristjáns Þórs á fundinum séu oftúlkuð í blaðinu þá er svarið NEI. Svarið er mjög einfalt því ég þurfti aldrei að túlka neitt né lesa á milli neinna lína. Ég á ummælin hans á bandi og fór mjög vel yfir þetta fyrir birtingu. Hann tekur þar skýrt fram að hann sé þessarar skoðunnar og ég birti ummælin orðrétt í blaðinu. Kristján verður svo að leiðrétta ummælin sé hann annarrar skoðunnar amk. er mér ekki kunnugt um það og ég veit að Kristján hefur séð blaðið. Engar athugasemdir hafa borist frá honum né neinum þeim sem sátu fundinn. 

Ég vill þakka þér kærlega fyrir aðsendu greinina í síðasta blað.

Kær kveðja

Ragnar Sigurðsson

Ritstjóri Austurgluggans  

Ragnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.9.2010 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband