Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Eftirmáli um flug F8 + GM

Heinkel HE111H5, sem bar einkennisstafina F8+GM, var gerð út frá Gardermoen í Noregi af Luftwaffe, flugdeild nasista.  Flugvöllurinn er norðan við Osló og 1998 var hann gerður að aðalflugvelli Noregs, eftir gagngerar endurbætur.  Áður þjónaði Fornebu því hlutverki.

Lítið er ennþá vitað um ástæðu leiðangurs F8+GM, þar sem öll gögn Luftwaffe Kampfstaffel 4./II./KG 40, hafa farið forgöngum.  Trúlega hefur þeim verið eytt er ljóst var hvert stefndi með lok stríðsins.  Þá tóku menn sig til og eyddu eins og mörgum leynilegum skjölum og kostur var.  Leiddar  hafa verið líkur að því, að um könnunarflug hafi verið að ræða, ekki árásarferð á hernaðarleg mannvirki á Austurlandi.  

Þennan sama dag sigldi Bismark, flaggskip Hitlers, og Prinz Eguen úr höfn Kors Fjord nærri Bergen og Bismarck fór í sína einu ferð út á Atlandshafið.  Það má því álykta að ferð F8+GM hafi fyrst og fremst verið farin í þeim tilgangi að kanna ferðir óvina þriðja ríkisins á hafinu milli Noregs og Íslands, einkum og sér í lagi hvort floti óvinanna hafi legið leyni á Reyðarfirði, tilbúinn til að ráðast á Bismark.  Þetta eru hins vegar eingöngu getgátur, sem ekki styðjast við skrifleg gögn, en samt hreint ekki ólýkleg skýring.

Haustið 1957 voru lík áhafnarinnar grafin upp og flutt sjóleiðis til Reykjavíkur.  Í Fossvogskirkjugarði var búið að úthluta þýska sendráðinu stað undir grafreit.  Þar fékk áhöfnin á F8+GM hinstu hvílu ásamt þeim löndum sínum er fórust við skyldustörf fyrir land sitt og þjóð.

Lítið er eftir af flaki flugvélarinnar en það er ósk okkar að þeir sem hafa undir höndum muni frá þessu slysi að þeir afhendi þá Stríðárasafninu á Reyðarfirði.  Sérstaklega eru skrifleg gögn vel þegin, s.s. leiðarbók flugvélarinnar/flugstjórans, handbækur og önnur gögna sem kunna að hafa varðveist.

Síðasta ferð F8 + GM frá Gardermoen til Reyðarfjaðrar

Síðla kvölds, sennilega um klukkan 20:30 þann 21.maí 1941 hóf Heinkel HE111 H5 sig á loft frá herflugvellinum á Gardermoen.  Ferðinni var heitið til Íslands, en tilgangur ferðarinnar er ekki kunnur.  Gögn sem svifta hulunni af þeirri ráðgátu hafa enn ekki litið dagsins ljós, hvað sem síðar kann að verða. 

Flugstjóri í þessari ferð var Hans Joackim Dürfeld (☆1910).  Hann hafði getið sér gott orð í Spánarstyrjöldinni og notið virðinga á æðstu stöðum Spánar og Þýskalands og hlotði heiðursorðu vegna þeirra verkefna.  Hann var ný kvæntur Leonoru Dürfeld.

Þennan sama dag lagði orustuskipið Bismark úr höfn frá Bergen áleiðis til Íslands, í sína einu för út á Atlandshafið.  Leiddar hafa verið að því líkur að flug vélarinnar, sem bar einkennin F8+GM, hafi tengst þessari siglingu Bismark.  Tími flutaksins var óvenjulegur svona síðla kvölds og því er talið hugsanlegt að áhöfnin hafi átt að kanna ferðir óvinaskipa þjóðverja á hafinu milli Íslands og Færeyja og sér í lagi hvort einhver floti óvinanna lægi fyrir skipinu í jómfrúferð þess, reiðubúinn að ráðast til atlögu við þetta flaggskip Hitlers. 

Eftir flugtakið á Gardermoen, eru mestar líkur á að stefnan hafi verði tekin á Solaflugvöll til að taka eldsneyti til Íslandsfararinnar, og hefur flugtak á Sola trúlega verið um klukkan 22:00 þann 21.maí 1941.

Solaflugvöllur (Stavanger) var öflug bækistöð Luftwaffe fyrir árása- og könnunarflug út á Atlandshaf og heppilegur brottfarastaður fyrir þunghlaðnar flugvélar á leið í langan leiðangur.  Flugvöllurinn er skammt frá ströndinni og ekki yfir háa fjallgarða að klífa á drekkhlöðnum loftförum.  Frá Solaflugvelli hefur stefnan verið tekin á Orkneyjar og það svæði kannað áður en strikið var tekið á Ísland.

Veðurspár fyrir svæðið voru af skornum skammti, en skv. veðurkortum, sem eru til frá þessum tíma, var lítil lægð vestur af landinu og langt á milli þrýstilína svo það hefur verið hæg suðlæg átt á svæðinu milli Noregs og Íslands.  Loftrakastig var hátt og því hætta á þoku.   Samkvæmt veðurgjöf frá Dalatanga þann 22.4 kl 07:00 var logn hiti 6°C, skyggni innan við 100m þoka og ekki sá til lofts.  Gera má ráð fyrir að þoka hafi legið með ströndinni og inn um alla firði austanlands.  Hugsanlega hefur efra borð þokuslæðunnar náð upp í miðjar fjallshlíðar, en þar fyrir ofan hefur verið léttskýjað.  Skýjabakkar hafa verið í fjöllum og hulið þau.

Frá15. maí til 25. Júlí ár hvert, er bjart allan sólahringinn við Ísland, þannig að auðvelt hefur verið fyrir áhöfnina að skima eftir óvinaskipum hefðu þoka og ský ekki byrgt mönnum sýn.

Með Hans Joackim í áhöfn voru Franz Breuer yfirliðforingi (☆1914), Josef Lutz undirliðsforingi (☆1917) og Friedrich Harnisch loftskeytamaður (☆1914).

Flugtíminn frá Solaflugvelli hefur verði á fjóða tíma.  Reikna má með að áhöfnin hefði getað flogið með austurströndinni í um klukkustund, áður en hún hefði orðið að hverfa heim aftur, vegna eldsneytisskorts. Þegar vélin nálgaðist ströndina, hefur verið flogið í sjónflugssklyrðum og áhöfnin hefur séð móta fyrir landi, hulið þoku. Flugstjórinn  hefur lækkað flugið í þeirri von að sjá niður til að athuga hvort óvinurinn leyndist einhvers staðar innanfjarða.  Flogið hefur verið fram og til baka meðfram ströndinni og ber vitni að hafa heyrt í flugvél allt að fjórum sinnum á þessum tíma.

Líklegast er að flugstjórinn hafi ákveðið að lækka flugið enn frekar svo hann gæti flogið rétt yfir þokunni í þeirri veiku von að sjá niður.  Þokan var hinsvegar þétt og hefur náð frá sjó með efra borðið í um fimm- til sexhundruð metra hæð.  Þrátt fyrir léttskýjað veður þar fyrir ofan hefur einstaka tindur verði þakinn skýjum.  Þarna hefur flugstjórinn misreiknað sig og flogið inn í skýjaþykkni sem hefur umvafið Snæfuglinn og Sauðatind.  Of seint hefur hann áttað sig á mistökum sínum með þeim afleiðingum að hann flýgur vélinni beint í stálið og ferst þar  með áhöfn sinni.

Við áreksturinn splundraðist vélin og önnur sprengjan af tveimur sprakk.  Aftari huti flaksins með vængjum og mótorum hrundi niður með klettaveggnum og dreifist í urðinni.  Hluti flugstjórnarklefans varð eftir á nibbu í klettabeltinu á þeim slóðum er vélin hitti bjargið.

Um stund bergmálaði sprengingin milli fjallanna og síðan varð allt hljótt.


(Grein sem birtist í Austurglugganum 18 maí 2011)
      


Alþýðublaðið Mánudagur 9. júní 1941.

Þýsk flugvél rekst á klettavegg við Reyðarfjörð

Allt bendir til að hún hafi ætlað að nauðlenda

Aðfaranótt sl. uppstigningardags heyrðist um  kl. 2 frá Krossanesi við Reyðarfjörð til flugvélar.  Fólk sem var á fótum að Krossanesi sá um leið til flugvélar, sem flaug  lágt yfir túnið fjórum sinnum, en vegna þess að þoka var og dimmt yfir urðu merki flugvélarinnar ekki greind.

Allt í einu flaug flugvélin frá bænum í vesturátt, inn til lands. Skömmu síðar heyrðist gífurleg sprenging úr fjallinu fyrir ofan bæinn og nötruðu bæjarhúsin.  Sprengingin heyrðist og að Vallarnesi, sem stendur hinum megin fjarðarins, svo og að Karlsstöðum og Vaðlavík og nötruðu bæjarhúsin einnig þar.  Skömtmu áður en sprengingin varð, sást frá Krossanesi í þá átt er flugvélin hafði flogið, hárautt ljós og rétt eftir sprenginguna sást gegnum þokuna mikill bjarmi, sem virtist geta stafað af olíueldi.  Annan hvítasunnudag var Tryggvi Eiríksson, bóndi að Krossanesi að ganga til fjár á svönefndum Valahjalla milli Karlsstaða og Krossaness.  Sá hann þá allt í einu brak úr flugvél, ásamt leifum af mannslíkömum. 

Næsta dag fóru á slysstaðinn hreppstjóri Helgustaðahrepps, ásamt nokkrurm brezkum hermönnum frá Reyðarfirði.  Á fimmtudag fóru sýslumaður Suður-Múlasýslu með nokkrum hjálparmönnum, úr setuliðinu, ásamt brezkum herlækni á slysstaðinn.  Flugvélin virðist hafa flogið á klettavegg í 400-500 metra hæð. Hafði nokkur hluti af
grindinni hrapað niður í klettaskor og voru þar einnig tvö lík. Ofar í fjallinu sást aflvélin og vængirnir, ásamt ýmsu braki.  Líkin tvö, sem fundust í klettaskorunni voru sett í ullarteppi og saumað utanum þau og voru þau síðan látin síga í reipum um 15 metra niður  fyrir standberg. 

Á Valahjalla er margskonar brak úr fluvélinnl á við og dreif, svo sem afturhluti vélar með vélbyssu og mörgum vélbyssuskotum í afturhlutanum. Þar var og eitt mannslík. Einnig
var á hjallanum sprengja, sem ekki hafði sprungið, 80 cm löng og 25 cm. í þvermál. Þar
var og annar hreyfill flugvélarinnar og lendingarhjól. Stóðu á því orðin „Contenintal", og
„Deutches fabrikat" og sömu orð á frönsku og ensku, enn fremur [voru þar] leifar af lítilli fallbyssu og n okkur skothylki úr hennfi. 

Á stéli flugvélarinnar var svartur hakakross með hvítri rönd og á jöðrunum talan 3900.  Líkin, sem þarna fundust voru mikið brunnin og sködduð.  Var sýnilegt á legu þeirra, að mennirnir höfðu dáið þegar í stað. Litlar fataleifar voru á líkunum, en þó fannst þar veski með norskum peningum og skjöl, sem af mátti ráða að vélin hafði komið frá Noregi.  Tvö líkanna báru þýzkan járnkross.  Líkin voru flutt til Reyðarfjarðar á föstudagsnótt á brezkum varðbát og jarðsett þegar í stað í kirkjugarði Búðareyrar með hernaðarlegri viðhöfn.

Frétt úr Alþýðublaðinu mánudaginn 9. júní 1941


Flugvélin F8 + GM / Heinkel HE111 H5

Flugvélin F8 + GM / Heinkel HE111 H5 er vélin sem fórst á Valahjalla við Reyðarfjörð og með henni fjórir þýskir hermenn.  Minningaskjöldur er kominn upp og var afhjúpaður 22 maí sl.

Eftir fyrra stríð var þjóðverjum bannað að hanna og framleiða stríðstól eða nokkur þau tæki sem nýttust í hernaði.  Heinkel HE 111 var hönnuð sem tíu manna farþegaflugvél fyrir Lufthansa.  Vélin þótti allgóð, hrekklaus og með góða flugeiginleika.  Hún hentaði vel í Spánarstríðinu, en þótti hægfleyg og þunglamaleg í seinni heimstyrjöldinni.

Á upphaflegri útgáfu flugvélarinnar var trjónan hefðbundin.  Herútgáfan er þannig, að gluggar voru auknir verulega og sett á hana svokallað “gróðurhús” til þess að auka útsýnið og nýta fremsta hlutann fyrir vélbyssu fram úr, en ekki síst fyrir þann sem stjórnaði losum á sprengjum.  Til þess var notaður sérstæður kíkir, sambyggðum einskonar reiknistokk, til að reikna út hvar sprengjur mundu lenda miðað við flughæð vélarinnar og hraða. 

Þessi Heinkel HE 111 var með einn flugmann.  Sæti aðstoðarflugmanns var fjarlægt til að bæta aðgengi skyttunnar að trjónunni.


http://www.richard-seaman.com/Aircraft/AirShows/Frederick2000/He111/index.html#Banking

Almennar upplýsingar:
Tegund: Heinkel HE111 H5
Framleiðslunúmer: 3900
Framleiðsluár: 1941
Einkennisstafir: F8 + GM
Mótor: Tveir Bulluhreyflar teg. Jomo-211F V12 mótorar 1350 Hp
Hámarkshraði: 435 km (235Kt)
Hámarks flugtaks þyngd (MTOW): 14000kg
Vænghaf: 22,50 m
Lengd: 16,40 m
Hæð: 3.40 m
Áhöfn: 4 - 5
Fyrstaflug: 17.11.1934
Framleiðslutímabil: 1936-1944
Framleiddar: 6.508 (7536)
Afbrigði: Casa 2.111 framleidd á Spáni


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband