Stækkun sveitarfélaga, gæfa eða.....?

Nú er að herðast umræðan um sameiningu sveitarfélaga og hér eystra tala menn fyrir því að sameina allt Austurland í eitt sveitarfélag.  Ekki hef ég myndað mér skoðun um þessa samþykkt SSA, en vissulega er hún blendin. 

Með stækkun sveitarfélaga hverfa beinu samskiptin við yfirstjórnina, boðleiðir lengjast og persónuleg samskipi þoka fyrir skrifræði og þunglamalegu kerfi skriffinna.  Þeir þurfa sitt fóður i formi A4, til þess að hafa allt skjalfest til að tryggja rekjanleikann m.a. til að hægt sé að senda reikning á rétta staði fyrir veitta þjónustu.

Stækkun sveitarfélaga gerir þeim hins vegar kleyft að taka til sín stærri bita af þeirri þjónustu sem ríkið innir nú af hendi.  Allir skólar, heilsugæslan og vegagerð gæti færst frá ríki til bæjar, svo eitthvað sé nefnt.  Tekjustofnar þurfa að fylgja með í kaupunum.

Nýtt fyrirkomulag í innheimtu skatta gæti litið dagsins ljós.  Það væri mjög viðeigandi að það væri á herðum sveitarfélaga að innheimtu alla skatta sem verða til í viðkomandi sveitarfélagi.  Síðan væri greitt í sameiginlegan sjóð, ríkissjóð, eftir höfðatölu og öll sveitarfélög sömu krónutölu, t.d. 2-300.000 kall á haus pr. ár. Þá gilti einu hvort um ungabarn, ungling eða öryrkja væri að ræða, sama krónutala fyrir hvern og einn.  Sama gilti um fullvinnandi einstakling og eftirlaunaþega. 

Með þeim fjármunum sem rynnu í ríkisjötuna, væri ríkið rekið.  Sveitarfélögin ynnu síðan með sína fjármunina og tækju að sér fleiri verkefni.  Þá bæri úr sögunni sú píslaganga sveitarstjórnarmanna að á hverju ári að fara bónleið til búðar, til að reyna að skrapa sama eitthvað fé frá ríkisvaldinu í nauðsynlegan rekstur og framkvæmdir.  

Annað mál, þessu tengt.  Er t.d. sanngjarnt að Flugfélag Íslands greiði nær alla skatta og skyldur af starfsemi sinni og sinna starfsmanna til Reykjavíkur, af tekjum sem verða bróðurpart til vegna þjónustu sem landsbyggðamenn borga í þjónustugjöld og skatta. 

Sama gildir um þau fyrirtæki sem sinna nær eingöngu þjónustu við landsbyggðina, hafa tekjur sínar þar, en hafa hingað til greitt skatta sína af framlegðinni í Reykjavík.  Virðisaukaskatturinn er greiddur af kaupanda vöru, sem leggst ofan á flutninginn og hækka aðföng og vöruverð verulega.  Þeir fjármunir fara inn í hítina og er ráðstafað af stjórnsýslunni, sem er staðsett í Reykjavík.  Hingað til hafa landsbyggðarmennirnir þurft að "væla" út peninga út úr sömu stjórnsýslunni sem skammtar sér fjármuni, sem koma m.a. af landsbyggðinni.   

Þessu þarf að breyta með breyttu fyrirkomulagi sveitarfélaga. 

Annars er betra heima setið en af stað farið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Mér hefur ekki fundist hagkvæmni stærðarina hafa virkað í þeim sameiningum sem gerðar hafa verið. Lítil skuldlaus sveitarfélög sem hafa sameinast og úr verður eitt skuldugt sveitarfélag.  Hagræðingin var augljós en niðurstaðan hinsvegar meir kostnaður og meiri skuldahali.  Sama kom upp ersjávarútvegsfyrirtækin voru sameinuð.

Því hefði ég vilja stoppa þessar sameiningar meðan sameinuð sveitafélög reyna að finna hagkvæmnina við að sameinast. Ég hef fulla trú á því að hagkvæmara sé að reka stærri sveitarfélög en einhvernvegin hafa þau ekki ratað þá leið.

Offari, 30.9.2009 kl. 11:19

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Eins og ég segi Offari.....ég hef ekki myndað mér skoðun.... en er hún blendin. 

Sumt hefur gengið vel í sameiningum, annað miður.  Skilvirknina virðist vanta, en yfirbyggingin stækkar oft meira en sem nemur meintum samlegðaráhrifum við sameiningu.

Þetta verður allt að skoða niður í kjölinn og rasa ekki um ráð fram. 

Benedikt V. Warén, 30.9.2009 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband