Ómar enn í Kárahnjúkunum.

Ómar Ragnarsson er fljótur að grípa og álykta vegna fréttar um fólksfækkun á Austurlandi um 8.2 % milli ára.  Ég nýtti mér rétt minn til að setja eftirfarandi færslu inn á bloggið hans og held því sjálfur til haga á þessum stað.

“Árið 1990 voru Austfirðingar 13.216 en fækkaði jafnt og þétt að meðaltali um 121 á ári til 2002 eða um 1.458 manns niður í 11.758 íbúa.  Það má leiða líkum að því að ef ekkert hefði verið aðhafst væri íbúatalan nú um 11.000 manns, eða 1.649 íbúum færra en nú er raunin.

Frá 2002 til þessa dags, sem um er rætt, hefur dæmið snúist við og fjölgunin hefur verið 891 eða um 155 manns á ári og telja nú skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar 12.649 manns.

Við Austfirðingar erum að ná sama fjölda og 1996 þegar íbúatalan var 12.680.  Með sama framhaldi gæti íbúatalan á Austurlandi verið komin í 13.000 að þremur árum liðnum og gætum þá jafnað íbúatölu frá árinu 1993.

Ég tel þetta mikinn sigur í baráttunni við fólksflóttann.

Ég get hins vegar ekki annað en verið undrandi á jafn klárum manni og Ómari Ragnarssyni, að nýta sér tölur, sem eru ekki samanburðarhæfar.  Það vita allir sem það vilja það sjá, að á meðan á framkvæmdum stendur, á sér stað mikill flutningur starfsmanna á milli svæða, sem skekkja allan samanburð í íbúatölum.

Mér dettur hins vegar ekki augnablik í huga að andmæla því að fjölgunin er minni en væntingar stóðu til.  Það er hins vegar tilefni til frekari rannsókna og ekki fráleitt að spyrða það saman við það, að nokkrir Reykvíkingar eru búnir að draga land og þjóð þannig ofan í svaðið að mörg ár tekur að hreinsa upp eftir þá.  Það veldur ef til vill því, menn eru að upplifa það í Reykjavík, að lenda í átthagafjötrum, þegar fasteignamarkaðurinn er botnfrosinn og ekki hægt að selja eignir á sanngjörnu verði.

Þökk sé nú, að eitthvað er til staðar, eins og álver og virkjun í Fljótsdal, að afla gjaldeyris á meðan verið er að komast út úr þessu manngerða fjármálafárviðri og skaffa birtu og il í svartasta skammdeginu, sem er framundan í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.”

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband