24.2.2008 | 09:24
Jarðgöng milli Héraðs og Vopnafjarðar!
Nú hafa göngin milli Reyðar- og Fáskrúðsfjarðar sannað ágæti sitt og það hafa göngin undir Almannaskarð einnig gert. Það er því tímabært að fara fara að vinna að fullum þunga við undirbúning að jarðgöngum til Vopnafjarðar og hefja framkvæmdir eins fljótt og við verður komið.
Svæðið, sem nyti góðs af þessari framkvæmd, nær a.m.k til Þórshafnar og er mjög brýnt að fara í þetta verkefni til að rjúfa vetrareinangrun Þórshafnar, Bakkafjarðar og Vopnafjarðar. Það kann að vera að einhver önnur göng hér eystra hafi örlítið betri arðsemi, en á það ber að líta, að ítrekað hefur verið ályktað um þessa framkvæmd m.a. hjá SSA, um að rjúfa vetrareinangrun norðan Smjörvatnsheiðar.
Íbúar á þessu svæði er í ríkara mæli að uppgötva kostina við að sækja aðföng og þjónustu á Mið-Austurland, eftir talsverðar endurbætur á veginum frá Vopnafirði til Þórshafnar og yfir Hellisheiðina, sem áttu sér stað fyrir nokkrum árum. Það er landfræðilega styttra frá Þórshöfn til Egilsstaða en frá Þórshöfn til Akureyrar, bæði hvað varðar beina loftlínu og eftir vegakerfinu.
Samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar eru 163 km frá Þórshöfn til Egilsstaða (Hellisheiði, Sandvíkurheiði) á meðan það eru 231 km frá Þórshöfn til Akureyrar miðað við að fara Vaðlaheiðina, Tjörnesið og Öxarfjarðaheiði. Þar munar 68 km aðra leiðina. Einhverjar styttingar eru mögulegar, en það gildir einnig um leiðina til Egilsstaða. Loftlínan frá Þórshöfn til Akureyrar er um 139 km á meðan hún er um 112 km til Egilsstða. Hér munar um 27 km aðra leiðina. Það er þar með ljóst, að þetta svæði hefur meiri samleið með Mið-Austurlandi, en Akureyri.
Athugasemdir
Það væri nær fyrir ríkisvaldið að nota peningana í að gata fjöllin fyrir austan frekar en að þráast við að virða dóm Hæstaréttar um skattagreiðslur Impregilo. Það er hægt að láta preglana bora svolið fyrir það sem ríkið þarf að greiða í dráttarvexti.
Haraldur Bjarnason, 25.2.2008 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.