9.1.2008 | 22:54
Híbýli foreldra okkar eru fornminjar barna okkar.
Það er einkennilegt af þjóð, sem leggur miljónir í það að eiga flottustu og nýustu bílana, skuli vera heltekin af gömlu kofarusli, og það á besta og dyrasta stað Íslands. Er ekki allt í lagi með þessa þjóð?
Það er einkennlileg staða sem komin er upp í Reykjavík. Eigandi gamalla kofa vill rífa þá til að byggja hótel, komim með öll leyfi upp á vasann, þá vakna allt í einu nokkrir borgarbúar og fara að berjast um á hæl og hnakka og sjá einhver verðmæti í rusli. Þessir drullukofar voru ekki fallegir þegar þeir voru byggðir þeir urðu ekki fallegri þó þeim væri ítrekað breytt og fráleitt eru þeir fallegir núna.
Það er marg búið að umturna húsunum og breyta án þess að þeir skáni hætis hót. Upp í hugann kemur sagan um gamla manninn, sem fékk hamar hjá afa sínum og hafði átt hann í rúm sextíu ár og hélt mikið upp á gripinn. Hann var búinn að skipta þrisvar um hausinn á honum og fimm sinnum um skaft, en þetta var samt alltaf sami gamli góði hamarinn.
Húsfriðunarnefnd sá ekkert verðmætti í kofunum og gaf leyfi til að fjarlægja þá. Það kemur því nokkuð spanskt fyrir sjónir þegar nefndin rumskar á elleftu stundu og breytir ákvörðun sinni. Það er hreint með ólíkindum að þegar Húsfriðunarnefnd er farin að vinna eins og Samfylkingin og þá er ekki von á góðu. Húsfriðunarnefnd tók faglega ákvörðun en þorir svo ekki að standa við hana þegar ljós kom að einhverjir eru nefndinni ósammála og hafa hátt. Húsfriðunarnefndin fó á taugum og beygði af. Því miður er hér of seint í rassinn gripið og rétt að Húsfriðunarnefnd fái sjálf að hafa áhyggjur af vinnubrögúm sínum í þessu máli.
Í miðborg Reykjavíkur er vilji til að hlutirnir blómstri og að líf sé í borginni. Hvað er betra en að byggja hótel á þessum stað til þess að laða ferðamenn að miðborginni? Er ekki vilji til þess að nýta kaffihús í 101 Rvík? Er ekki vilji að nýta aðra ferðatengda þjónustu sem er í boði í miðborginni? Er ekki verið að byggja tónlistarhús við höfnina?
Er ekki hægt að átta sig á því að byggingar gærdagsins eru menningarverðmæti morgundagsins og fornminjar? Áttið ykkur á því, einu sinni voru þessi kofaskrifli nýbyggingar, þá og aðeins þá voru einhver verðmæti fólgin i þeim.
Það er einnig erfitt að átta sig á þessu söfnunaræði Reykvíkinga, nema láta hugann hvarfla til leikstykkisins "Hellisbúinn" þar sem kerlingarnar eru safnarar en karlarnir veiðimenn. Einkennilegt hvað margar "kerlingar" af báðum kynjum búa í Reykjavík.
Athugasemdir
hmmmmmm hmmmmmm það hafa nú margir gamlir kofar orðið að höllum hér í Seycity
Einar Bragi Bragason., 18.1.2008 kl. 01:29
EBB.
Þó Seycity sé æðislegur staður, þá er því miður ekki sama verð á lóðum og húsum þar og í Reykjavíkurhreppi, - hvað sem síðar kann að verða. Þar af leiðandi geta menn þar leyft sér að "geyma" hús og gera upp síðar, þau eru ekki fyrir neinum.
Ég er fráleitt á móti að gera upp gömul hús, það þarf samt ekki að gera upp öll hús, sem einhverntíma hafa verið byggð á Íslandi, hús sem geta ekki með nokkru móti þjónað því samfélagi sem við hrærumst í nú.
Benedikt V. Warén, 18.1.2008 kl. 02:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.