Góðan dag, góðan dag. Þetta er Fréttaveita Reykjavíkur.

Allar stærstu fréttaveitur landsins eru í Reykjavík og með sömu fréttirnar og eðli málsins samkvæmt ber hæst það sem gerist í nærumhverfi fréttamannanna sjálfra.  Auðvelt er jafnframt fyrir þá að hengja sig á nokkrar erlendar fréttasíður og „gúggla“ það sem hæst ber þar.  Verst er þó sú hjarðhegðun Reykvískra fréttaveitna að þar virðist ríkja þegjandi samkomulag um samræmdar skoðanir á öllum málum, sem leiðir það af sér að þeir sem eru efins um sannleiksgildi fréttanna þurfa að leita annarra leiða fyrir annað sjónarhorn.  Það er svo sem gott og blessað, en hluti þjóðarinnar er tækniheftur og jafnvel ekki inni í öðrum tungumálum til að geta lesið sér til gagns.

Landafræðin er svo kapítuli út af fyrir sig.  Ísland er náttúrulega Reykjavík og nágrenni.  Reykjanesið að Reynisfjöru og norður að Vaðlaheiði.  Vestfirðir og Austurland tilheyra ekki fréttakorti Fréttaveitu Reykjavíkur nema þegar vá knýr uppá.

Svo maður snúi sér að nærumhverfi Fréttaveitu Reykjavíkur, þá hefur hún samviskusamlega fjallað um hinsegin fólk af mikilli natni, eins og sá hópur hafi einn mátt þola eitt og annað sem Covid 19 lagði á heimsbyggðina, án þess að hér sé á nokkurn hátt verið að gera lítið úr þeim hópi. 

Annað dæmi má nefna um þrönga sýn Fréttaveitunnar í Reykjavík, þegar lítil flugvél nauðlenti vestur af Öxnadal vegna vélarbilunar seinni hluta júlí.  Sem betur fer fór það vel og enginn slasaðist alvarlega. Mikið var fjallað um þennan atburð í fréttum, löngu eftir að allir landsmenn voru alveg búnir að ná atburðarrásinni.  Sömu helgi var haldinn velheppnaður flugdagur á Egilsstöðum að viðstöddu fjölmenni.  Engar myndir birtust í prentmiðlum né á öldum ljósvakans.  Rétt er að nefna að það var tekið micro-útvarpsviðtal við einn af aðstandendum dagsins í beinni útsendingu.

Hvers vegna er þetta svona og hvað þarf margar fréttastofur til að fjalla um sömu fréttirnar með nánast sama orðalaginu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband