Handan Smjörvatnsheiðarinnar

Greiðar samgöngur

Til þess að gera Austurlandsfjórðung áhugaverðari til búsetu þurfa samgöngur að vera í lagi, helst í mjög góðu lagi.  Tvíbreiðar brýr og varanlegt slitlag er ekki munaður, það er réttur hvers vegfaranda, að geta keyrt á milli staða án þess að eiga von á því að farartækið hljóti skaða af.  Stór verkefni hafa lengi setið á hakanum hér eystra og enn bólar ekkert á Axarvegi og litlir tilburðir í þá átt að tvöfalda brýr á Austurlandi.

 

Vegalengdir

Hafa menn hugleitt fjarlægðir milli staða?  Það er styttra frá Þórshöfn til Egilsstaða en frá Þórshöfn til Akureyrar, bæði eftir þjóðvegakerfinu og í beinni loftlínu.  Samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar er stysta leiðin 163 km frá Þórshöfn til Egilsstaða á meðan það eru 231 km frá Þórshöfn til Akureyrar. Þar munar 68 km aðra leiðina.  Loftlínan frá Þórshöfn til Akureyrar er um 139 km á meðan hún er um 112 km til Egilsstaða. Hér munar um 27 km aðra leiðina. Þar með er ljóst að þetta svæði hefur meiri samleið með Mið-Austurlandi, en Eyjafirði.  Vopnfirðingar eru þar í betri stöðu fyrir aðdrætti en þeir sem norðar eru.

 

Hvað er málið?

Það þarf talsvert ríkt hugmyndaflug norðan Smjörfjalla,  að telja málum sínum betur borgið við að snúa sér alfarið norður í land með alla aðdrætti, þjónustu og verslun.  Vissulega er ýmislegt stærra í sniðum í Eyjafirði, en með bættum samgöngum má færa ýmislegt til betri vegar og efla og hækka þjónustustigið á mið-Austurlandi, - öllum íbúum fjórðungsins til hagsbóta.  Mesti ávinningurinn er að Austurland verður enn áhugaverðari kostur fyrir ungt fólk, sem er að velja sér stað til framtíðar búsetu.  Stytting á milli staða og möguleikinn að fara/koma er lykillinn að betra samfélagi.  Allir þekkja þann ótta að komast ekki milli staða þegar veður eru válynd og brýna nauðsyn ber til.

 

Jarðgöng

Jarðgangagerð hefur lengi verið í skoðun til Vopnafjarðar, en lítt miðað.  Hér er lögð til leið um út-Héraðið og að landsamgöngur norður fyrir Smjörfjöllin fari þar um.  Vegtenging til Vopnafjarðar væri þá um þjóðveg 94 að Móbergi.  Þaðan yrði lagður vegur þvPastedGraphic-3ert yfir sléttlendið (sjá kort).  Brýr þarf að byggja á Lagarfljótið og Jökulsá á Brú/Dal og vegur að göngum (A) hjá Hlíðarhúsum/Torfastöðum í gegnum Hlíðarfjöllin og yfir í Böðvarsdal.   Vegur þaðan yrði lagður út dalinn og tengdur við veginn hjá Eyvindarstöðum.  Efnið úr göngunum nýttist í vegalagningu.  Þar með yrði rofin vetrareinangrun íbúa vegna Smjörfjalla.  Seinna væri haldið áfram með önnur jarðgöng (B) gengt þeim fyrri, sem myndu opnast í hinn endann á svæðinu Skjaldþingsstaðir/Syðri-Vík.  Hæglega má skipta þessu verkefni í þrjá sjálfstæða áfanga.

 

Láglendisvegur

Með jarðgöngum “A” og vegalagningu þvert yfir Út-Héraðið væri vegurinn á láglendi alla leið frá Vopnafirði til Egilsstaða og innan við klukkustunda akstur fyrir íbúana að nýta það sem þar er að hafa.   Göng “B” mundu síðan stytta leiðina enn frekar. Innan tíðar verður vegurinn með varanlegu slitlagi frá Egilsstöðum í Útmannasveit og Heiðarendinn ekki til trafala vegna snjóa.  Auk heldur verða fleiri áhugaverðar útfærslur á ferðalögum fyrir gesti og gangandi. 

 

Ófyrirséð

Engin mun sjá fyrir öll tækifærin, sem munu skapast með slíku verkefni.  Sveitarstjórnir beggja vegna Smjörvatnsheiðar þurfa að hafa metnað til að vinna með stórar hugmyndir og fylgja þeim eftir við ráðamenn þjóðarinnar.  Kosið verður til sveitastjórna í vor og þá er brýnt að velja kröftuga fulltrúa, sem hafa vilja, þor og getu til að vinna með djarfar lausnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú virðist gleyma því að fæstir á þessu svæði óska eftir læknisaðstoð frá aussturlandi, sér í lagi sjúkrahússins á Norðfirði.

Rúnar Valsson (IP-tala skráð) 31.10.2021 kl. 14:10

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Rúnar.

Viltu skýra mál þitt betur.

Benedikt V. Warén, 31.10.2021 kl. 19:11

3 Smámynd: Benedikt V. Warén

Það eru fleiri atriði sem skipta máli, Rúnar.

Verslun innan við klukkustunda aksturs.

- Matur

- Varahlutir í bíla og tæki

- Efni við viðhald húseigna

- Ýmiskonar sérverslanir

Menntaskólinn

Margar ferðir á dag með flugi

Sjúkraflug til Reykjavíkur 

Þetta er nú um eitthvað að hafa að hugsa.

Benedikt V. Warén, 31.10.2021 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband