Fornminjarnar yfir Lagarfljótið

Árið 1905 var brúað yfir Lagarfljótið við Hlaðir og var það mikið mannvirki og í tugi ára hefur brú verið á þessum stað, sem var sú lengsta á landinu.  1906 þurfti þó að endurbyggja brúna og endurbæta, vegna þess að hana tók af í leysingum er ísflekar tóku hana um koll.  Árið 1956 var brúin endurbætt og gerð tvíbreið og hefur þjónað sem slík síðan. 

Frá því að brúin var byggð hefur mikið vatn runnið til sjávar undir hana og notkunin breyst frá því að flytja mannskap, póst og varning á hestum í að fara yfir hana á þungum dráttarbifreiðum og flytja þunga farma á aftanívögnum.  Brúin var ekki hönnuð til þeirra flutninga og er eðlilega háð þungatakmörkunum.  Brúin er auk þess með klæðningu út timbri og þolir illa þá miklu umferð um hana og þarf því mikið viðhald af þeim sökum.

Löngu tímabær endurbygging hefur dregist úr hömlu og skrifast eingöngu á vandræðagang og ákvarðanafælni ráðamanna í sveitastjórn á mið-Héraði.  Þeir hafa ítrekað ýtt verkefninu á undan sér án þess að koma því inn á aðalskipulagið.  Vandamálið mun vaxa hratt úr þessu og nú þegar eru talsverð vandræði að koma þungum tækjum milli staða og eigendur og umráðamenn þeirra þurfa að aka PastedGraphic-1um langan veg til að koma stórum vinnuvélum á milli staða.  Það kostar bæði tíma, fyrirhöfn og fjármuni.

Lagarfljótið er grunnt rétt sunnan við núverandi brú og því auðvelt með nútímatækni að brúa Lagarfljótið þar og færa vegstæðið allt sunnar á nesinu.  Þá skapast svigrúm til að klára lengingu flugvallarins, sem hefur setið á hakanum vegna ráðaleysis fyrrnefndra fulltrúa sveitarfélagsins um að tryggja framtíðarlausn tveggja mikilvægustu samgöngumannvirkja sveitarfélagsins.

Eftirfarandi tillaga byggir á því að grafa og dæla upp efni úr botninum og skapa eyju í miðju Lagarfljóti um 3-400 metrum sunnan við núverandi brú (sjá kort). Byggð yrði lágreist brú frá landi Egilsstaðamegin út í eyjuna og á hinum bakkanum ögn háreistari yfir á bakkann rétt norðan við Stekk.  Ný veglína kæmi á landamerkjum Ekkjufells og Skipalækjar með stefnu upp á bakvið Vínland og Ekkjufellssel og kæmi inn á þjóðveg eitt við enda Urriðavatns. 

Egilsstaðamegin færðist vegurinn að Nátthagavíkinni og væri allur nær klettunum norðan við Egilsstaðabýlið.  Þar mætti hæglega koma fyrir undirgöngum fyrir bústofninn, til að skerða sem minnst aðkomu bænda að landi sínu á Egilsstaðanesinu.
Gamla brúin fengi það hlutverk að vera samgöngumannvirki fyrir létta bílaumferð, hjólandi og gangandi milli þéttbýliskjarnanna sitt hvoru megin Lagarfljóts og veginum breytt til samræmis við breytta nýtingu á Egilsstaðanesinu.

Eyjan hefði fjölþættan tilgang.  Syðst væri hægt að koma fyrir höfn fyrir áhugasama um siglingar á Lagarfljóti.  Þar væri einnig kjörinn staður fyrir hundagerði til útivistar til að spranga með fjórfætta vini og til viðra eigendur þeirra í leiðinni.

Norðan við nýjan þjóðveg eitt á eyjunni, væri yfirbyggð nútímaleg sorpflokkunarmóttaka og þar skammt frá yrði byggð hátækni skólphreinsistöð fyrir skólp frá byggð beggja megin Lagarfljóts. Við þessar breytingar nýttist skipulögð landspilda fyrir löngu tímabæra lengingu flugvallarins til suðurs. 

Byggingasvæði í Fellabæ yrði mun vænlegri kostur, þ.e. að vera ekki skorið að endilöngu af þjóðvegi eitt og þungaflutningum sem þeirri leið fylgir.


Næsta grein mín verður um vegtengingu til Vopnafjarðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband