Fílar í postulínsbúðum

Fyrir nokkru bloggaði ég; Stór-Reykjavíkursvæðið og Kraginn = Eitt kjördæmi

Ég setti þetta svona upp til að fá umræður um hve óheppilegt er að hafa einn stóran áhrifavald inn í stóru kjördæmi lítilla eininga, þar sem valdahlutföllin eru þeim minni mjög í óhag.  Sá stóri er eins og fíll í postulínsbúð. 

Svo merkilegt sem það kanna að virðast hafði einungis einn skoðun á málinu.  Ég verð að biðja vin minn, Magnús Sigurðsson, afsökunar á þessari útfærslu, þar sem ég ruglaði hann í ríminu með að setja hlutinn upp þvert á hug minn.

Ég hef nokkrum sinnum bent á að það sé óheppilegt að hafa Eyjafjörðinn í einni sæng í NA-kjördæminu og eins og að setja Reykjavík í kjördæmi með Kraganum, þá verður þyngdarpunkturinn á röngum stað og raddir minni sveitarfélaganna eru kæfðar af því stóra.

Þetta sést best á því að efstu menn framboðslistanna raða sér eftir búsetu í stærsta kjarnanum og hinir minni fá þann „heiður“ að raða sér neðar á listann, til að öllu „réttlæti“ sé fullnægt.  Allir vita að þar eru þeir eingöngu sem uppfylling.

Næsta þing verður að taka á þessu misvægi og í NA-kjördæmi verður að færa hlutina til betri vegar og kanna hvort ekki sé heppilegra að Eyjafjörður verði eitt kjördæmi í framtíðinni, og NA-kjördæmið nái frá Vaðlaheiðinni að Skeiðarársandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þú þarft ekki að biðja mig afsökunar á því að rugla rímið Pelli. Ég les pistlana þína og veit vel hvenær þú ert þversum.

En þú mættir líta þér nær, eins og fleiri, og kannast við þínar skoðanir jafnvel viðurkenna þegar þú hefur skipt um skoðun.

Málið er að málsmetandi menn hafa ekki talað gegn sameiningum undanfarna áratugi hvort sem þær eru til landsmála eða sveitastjórna.

Það er ekki lengra síðan en 2019 að íbúar okkar Múlaþings voru ginntir til sameiningar í einn fílinn sem situr á mölbrotnu rassgatinu okkar megin í postulínsbúðinni.

Auðvitað er það svo að þegar þeir fámennu sameinast þeim fjölmennu, þar sem er lýðræði, að sá fjölmenni ræður. Þetta virðist fólki almennt sjást yfir þegar það lætur frá sér sjálfstæðið í sameiningum.

Austurland er fyrir löngu komið í rúst vegna sameininga hvort sem það er hreppapólitík eða kjördæmapot. Það gerðist seint á síðustu öld og ég man ekki til að málsmetandi menn hafi þá andmælt, -þeir mæla frekar með sameiningum rétt eins og þú gerir í umræddum pistli, sem þú segist nú skrifa þér þvert um hug.

En ég man mann sem stakk upp á því í gríni, -að ég hélt, seint á síðustu öld, að Egilsstaðir sameinuðust Djúpavogi því þá kæmust Norðfirðingar ekki að heiman landleiðina án þess að fara í gegnum Egilsstaði.

Nú má segja að þetta sé orðið þannig -en að segja "Til hamingju Austurland" dettur mér ekki hug að taka undir og hefur aldrei til hugar komið.

Það var betra fyrir gamla Austurlandskjördæmi að eiga tvo þingmenn í stað fjögurra á sínum tíma, en að sameinast norður og suður með því að tvístrast. Það þurftir aldrei meðal greindan mann til að átta sig á því, -en menn annaðhvort þögðu eða mæltu með sameiningu. 

Magnús Sigurðsson, 17.6.2021 kl. 20:30

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Magnús.

 

Var á Möðrudal á fjöllum í fermingastússi og gaf mér ekki tíma til að svara.

 

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla  er þekkt máltæki. En þegar litið er af haug þeirra stærri er þetta þannig; 

Fjarlægðin gerir fjöllin grá og hali heimska.

 

Útfæra má aðra speki sem fellur betur að samstarfi sveitarfélaga;

Nálægðin sýnina skerpir jafnt og samtal manna á milli.

 

Það er munur á því að sameina sveitarfélög með íbúakosningu, sem hafa löngum verið í miklu samstarfi eða hrókera saman ólíkum sveitarfélögum og breyta sýslumörkum án samráðs við íbúa.

 

Fjárhagslegur ávinningur er óverulegur við sameiningu sveitarfélaga.  Kostnaður er jafnvel meiri.  Það helgast af því að meiri kröfur eru gerðar til stærra sveitarfélaga með að sinna meiri samfélagslegri þjónustu, en gerðar eru til þeirri smærri.  Stærri sveitarfélög geta þar að auki betur beitt sér í málefnum gagnvart ríkisvaldinu, sem þó getur verið erfitt, eins og dæmin sanna.

 

Múlaþings-módelið lítur út fyrir að vera nokkuð gott fyrirkomulag, þar sem gefið er færi á að heimamenn hafi rödd inn í stjórn sveitarfélagsins og þrátt fyrir allt er ávinningurinn meiri en ókostirnir. 

 

Óþarfi er að líta á alla hluti sem vandamál.  Það er mönnum mun hollara að líta á það sem verkefni að leysa.

 

En hvenær hægt að gera svo öllum líki?

Benedikt V. Warén, 21.6.2021 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband