21.9.2022 | 15:08
Leikbrúðulandið Múlaþing.
Undanfarnar vikur hafa verið allsérkennileg umræða og afgreiðsla átt sér stað í nefndum og ráðum hjá sveitarfélaginu Múlaþingi. Þyngst vega stórundarlegar kosningar er varðar vanhæfi áheyrnarfulltrúa. Einstaklingar, sem eru áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt, eru kosnir vanhæfir af pólitískum andstæðingum sínum.
Ekki verður annað séð en að þetta sé til eins fallið, að einskorða umræðuna við þann eina sannleika sem meirihlutanum hugnast. Þetta er stutt áliti lögfræðings sveitarfélagsins. Hinsvegar er það ávallt svo í hverju máli, að það þarf tvo lögfræðinga, sem jafnan eru á öndverðu meiði. Því hefur ekki verið svarað af meirihlutanum, hvar má finna í lögum um vanhæfni áheyrnarfulltrúa sérstaklega.
Fulltrúar meirihlutans í Múlaþingi virðast vera strengjabrúður, andsetnar utanaðkomandi pólitísku afli, sem lýsa sér í því fulltrúar leika sína rullu eftir fyrirframgefnu handriti. Vei þeim sem voga sér hafa sína eigin skoðun á fundum og sjálfstæða hugsun. Þeir eru strax teknir til kostanna og kjósa síðan á næsta fundi eftir handritinu, þvert á sannfæringu sína. Greinilegt er að þar er beitt óvægnum pólitískum þrýstingi til að berja kjörna fulltrúa til hlýðni, sem er þvert á eigin sannfæringu og á skjön við stjórnarskrá Íslands.
Hvort er verra fyrir samfélagið, blóðtengsl við einhvern eða þau pólitísku?