Svikin loforð í Norðausturkjördæmi.

Það er að verða nokkuð ljóst, að það á að stinga öllum framkvæmdaáætlunum við Egilsstaðaflugvöll undir stól fyrir þessar kosningar.  Sveitastjórn Múlaþings þegir þunnu hljóði eins og þeim komi málið hreint ekkert við.  Aðeins mjóróma rödd Austurbrúar, um Loftbrú kemur tröllinu syðra til að rumska. „Hver er að trampa á brúnni minni“, heyrist úr samgönguráðuneytinu. 

Reyndar er þetta nær dæmisögunni um Litlu gulu hænuna þar sem margir gera tilkall til að hafa „fattað upp á“ Loftbrúnni.   Vandamálið er hinsvegar; - hver er Litla gula hænan í þessu ævintýri?

Loforð Framsóknarflokksins um stórkostlegar framkvæmdir 2020 breyttust á einni nóttu 2021 í björgunaraðgerðir til þess að flugvellinum yrði ekki lokað um óákveðinn tíma.  Hugmyndir samgönguráðherra um að færa verkefni Egilsstaðaflugvallar undir ISAVIA Keflavík hurfu eins og dögg fyrir sólu, þegar stjórn ISAVIA hunsaði vilja Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem lyppaðist niður undan ströngu augnaráði undirmanna sinna.  Einhver hefði haft döngun í sér að skipa nýja stjórn við þessar aðstæður.  Fyrsta sæti Framsóknarlistans vermir þingmannsefni úr Eyjafirði.  Hvers má vænta?  Loforð, sem auðvelt verður að svíkja?  Sporin hræða, það er eina sem er alveg víst.

Sjálfstæðismenn, með Njál Trausta Friðbertsson við stjórnvölinn, sjá ekki austar en sem nemur Vaðlaheiðinni, þó búið sé að gera rándýrt gægjugat í hana.  Kjósendur Sjálfstæðisflokksins handan Vaðlaheiðarinnar geta gengið að því vísu, að atkvæði greidd flokknum núna, gera það eitt að efla efstu menn listans að auka lífsgæði fólksins á Eyjafjarðasvæðinu á kostnað hinna.  Egilsstaðaflugvöllur á ekki talsmann meðal þingmannaefna í fyrstu sætum D-listans í Norðausturkjördæmi.

Skammarlegast er þó, að sveitastjórnarmenn (-konur) nefndra flokka í Múlaþingi virðast ekki vera í neinu sambandið við móðurflokka sína á Alþingi, um málefni Egilsstaðaflugvallar,  frekar en að hvorki sé búið að finna upp síma né önnur fjarskiptatæki.

Máski er það annað sem veldur:

Algjört áhugaleysi á verkefninu hjá umræddum fulltrúum í Múlaþingi. 

 

 


Bloggfærslur 3. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband