Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Ríkisstjórnarsamþykkt um Egilsstaðaflugvöll.

Við byggingu á flugvellinum á Egilsstöðum var áformað að endanleg lengd vallarins yrði 2700 metrar og við hönnun hans var það haft að leiðarljósi.  Það var ekki að áeggjan heimamanna að það var gert, heldur var það ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar að frumkvæði Steingríms J. Sigfússonar samgönguráðherra.  Nú er hann heillum horfinn í þessu máli og hefur ekki beitt sér í því.

Ákvörðun um þessa uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar var mjög skynsamleg og í fyrsta þætti verkefnisins var brautin 2000 metrar, en dregist hefur að taka seinna skrefið við verkefnið og koma henni í fulla áformaða lengd.   Hugsanlega hefur aðkoma Halldórs Blöndal í ráðuneyti samgöngumála á sínum tíma, haft einhver letjandi áhrif þar á.  Hugur hans hefur gjarnan hvarflað til annars flugvallar í hans heimasveit.   Hugmyndafræðin á bak við þessa framkvæmd var, að Egilsstaðaflugvöllur gæti nýst sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll þá sjaldan sem sá síðar nefndi lokast.   Til að fullnægja því markmiði, verður Egilsstaðaflugvöllur að geta tekið við öllum flugvélum sem gera flugáætlanir sínar inn á Keflavíkurflugvöll. 

Þeir flugvellir sem þá voru í athugun vegna umræðunnar um varaflugvöll auk Egilsstaðaflugvallar voru, Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók og Húsavíkurflugvöllur.  Aðrir flugvellir voru ekki inni í myndinni, ýmist vegna veðurfarslegra ástæðna eða landfræðilegra.   Egilsstaðaflugvöllur varð að lokum fyrir valinu, vegna þess að umferðin var vaxandi inn á hann, en dvinandi inn á hina staðina, auk þess sem veðurfarslegir þættir þóttu vega þungt.


Ég mun halda áfam að fjalla um Egilsstaðaflugvöll næstu daga. 


Hvert er raunverulegt verðmæti Vatnsmýrarinnar?

Fjöldi íbúa í Reykvíkurhreppi hafa apað hver eftir öðrum um hið gríðarlega miklu verðmæti Vatnsmýrarinnar. Þar hefur verið settur á hana einhver ótilgreindur verðmiði, sem við hin eigum síðan að trúa eins og guðspjöllunum, lóð sem ekki er lengur í miðju hreppsins.

Hvað er í nágrenni Vatnsmýrarinnar og hvað hefur Reykjavíkurhreppur haft upp úr þeim viðskiptum?

Mörg gömul og léleg hús voru á sínum tíma, flutt vestur í bæ, vegna þess að þar voru ódýrar lóðir í gömlu kartöflugörðunum. Þar var fátæklingum og sérvitringum gefinn kostur á að endurbyggja þessa kofa. Fyrirtæki Kára Stefánssonar hefur efalaust þurft að borga eitthvað fyrir sína lóð. Askja, náttúruvísindabygging Háskóla Íslands hefur ekki greitt ofurverð fyrir sína lóð og þá ekki Umferðarmiðstöðin, innan um gróðurhús og ónýta kofa. Hvað kostaði lóð Listaháskóla Íslands þegar þeir fengu hana úthlutaða?

Varla eru íþróttafélög á Íslandi það vel stæð, að þau velji dýrustu lóðirnar í Reykjavík undir sparkvelli og íþróttaskemmur, eins og gert er við Hlíðarsmára.  Braggarnir við Flugvallarveg stæðu ekki þarna, ef lóða verð væri hátt og varla hafa Björgunarsveitirnar greitt hátt verð fyrir sína lóð. Margar lóðir standa óhreyfðar, sem hægt væri að skipuleggja með Öskjuhliðinni og alla leið niður í Nauthórsvík, ef einhver væri eftirspurnin. Hver er svo rúsínan í pylsuendanum í öllu þessu ferli, - Reykjavíkurborg gaf lóð undir Háskóla Reykjavíkur, - að hluta til land í eigu ríkisins.

Hvert er svo hið raunverulega verð Vatnsmýrarinnar?  Svar óskast.

Hvar eru Vinstri-Grænir núna?

Hvernig ber að túlka þessa frétt?  Hver er afstaða Vinstri-Grænna??  Eru upphrópanir Vinstri-Grænna marklausar, eru þeir í sífellu að hrópa  "Úlfur....úlfur" ???

Það er talað um trúarbrögð þegar hugsandi einstaklingar vilja nýta þau gæði sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða, m.a. vistvæna orku. 

Hvað nefnist þá hitt, að vera alltaf á móti framförum og auknum lífsgæðum??

 


mbl.is Ísland í fremstu röð í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurguðirnir rugla blaðamann.

Í vikublaðinu “austur-glugginn” er frétt á blaðsíðu tvö í 42.tbl. þar sem fyrirsögnin er “Veðurguðirnir gripu inn í”.  Þar fjallar blaðamaðurinn um fyrirhugaða umferð um Egilsstaðaflugvöll, en fyrir dyrum stóð að vígja Fljótsdalsstöð og auk þess áttu að fara utan þrír hópar erlendra verkamanna, sem voru að ljúka störfum hér eystra.

Í fréttinni kom fram að ekkert hafi verið flogið um Egilsstaðaflugvöll umræddan dag, sem er alrangt.  Aðvörun var í gildi frá Veðurstofu Íslands, um ókyrrð og ísingu yfir miðju landinu, af þeim sökum lá innanlandsflug niðri.  Það kom hins vegar ekki í veg fyrir það að tvær vélar Wizzair komu frá Katowice og sóttu þá verkamenn sem þeir höfðu tekið að sér að koma til síns heima og flugvél Flugleiða kom frá Keflavík og hélt utan til Katowice með einn hóp. 

Það er greinilegt að Veðurguðirnir hafa hrellt blaðamanninn svo, að hann hefur legið undir sæng þennan dag, með dregið upp fyrir haus og ekki verið meðvitaður um lífið utandyra.

6. desember.

Þjóðhátíðardagur Finna er 6. desember.  Þar sem ég er finnskur í móðurætt, þá hefur dagurinn alla tíð fylgt mér og átt sinn sess í mínu lífi. 

Ég spurði vinnufélaga minn hvort ekki væri rétt að flagga mér til heiðurs í tilefni dagsins. 
“Það er ekki við hæfi” svaraði hann. 
Auðvitað vildi ég vita hvers vegna.

“Það er ekki við hæfi….”  svaraði hann aftur “….þá muni ég flagga í hálfa stöng, vegna þess að þú ert hálfur Finni”.

------------------------------
Fyrir nokkrum árum, lenti í því sem oftar, að vera spurður að því hvernig það væri að vera svona blandaður.  Það var heldri borgari úr Reykjavík í vinnuferð og talsverð “kaupstaðalykt” af honum þegar hann andaði ofan í hálsmálið á mér og spurði  “… og hvernig er svo að vera hálfur Finni....?” 
Ég svaraði honum stuttur í spuna.  “Það er skárra að vera hálfur Finni en fullur Íslendingur”
 

Íslensku jólasveinarnir eða Coca Cola sveinki?

Það fer æ meir í taugarnar á mér, að við íslendingar getum ekki eingöngu notað okkar frábæru jólasveina og ævintýrin sem þeim tengjast. Við eigum fín nöfn á okkar “sveinkum”, en erum sí og æ að klína þeim nöfnum á sterilseraðan Coca Cola jólasveininn.

Hvernig væri að segja “good bye” við þann vestræna og hafa þetta síðustu jólin sem hann er notaður. Næstu jól yrðu síðan jól íslensku jólasveinanna og áfram eftir það. Það mundi vekja verðskuldaða athygli og jafnframt mundu skapast nokkur vinna við að “rigga” þá gömlu upp og samhæfa. Allir vita nöfn þeirra og nokkuð ljóst er, hvernig hver og einn þeirra er í hátt og skapferli. 

Það eru fleiri en undirritaður sem er í nöp við Coca Cola jólasveininn. Hópur manna í Þýskalandi sama sinnis og vilja banna jólasveininn. Eftirfarandi mátti lesa á mbl.is fyrir nokkru:

"Hópur Þjóðverja hefur myndað samtök sem berjast fyrir „jólasveinalausum svæðum“ og segja jólasveininn orðinn að táknmynd verslunargervingar jólanna. Hafa samtökin látið prenta þúsundir límmiða með mynd af yfirstrikuðum jólasveini og lýst stór svæði í Þýskalandi og Austurríki jólasveinalaus. 

Frá þessu greinir Ananova.com. Þá hafa samtökin dreift bæklingum þar sem minnt er á að samkvæmt hefðinni er það heilagur Nikulás sem kemur með gjafir, en ekki hvítskeggjaði og rauðklæddi sveinninn frá Ameríku.

Í bænum St Wolfgang í Austurríki hefur rauðklæddi jólasveinninn verið bannaður á hinum árlega jólamarkaði. Framkvæmdastjóri ferðamálaráðs bæjarins, Hans Wieser, segir:  „Jólasveinninn er ekki hluti af þýskri eða austurrískri jólahefð - þessi rauðklæddi maður kom fyrst fram á síðasta áratug, eða svo.“ 

Svo mörg voru þau orð. Þetta gæti orðið liður í ferðaþjónustunni, landið þar sem ekta jólasveinar búa. Ferðamálanefndir ættu að sameinast um þetta. Bendi á framtak Egilsstaðabæjar að nýta sér jólaköttinn og vekja athygli á bænum og hefðinni. 

Hér eystra gætu Samtök Sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) haft forgöngu um að stofna samsstarfsnefnd um þetta málefni, sem gæti meira segja notað sömu skammstöfunina,

- Samtök Sveinka á Austurlandi (SSA)!!!

Það er áhugavert að kíkja inn á heimasíðu þjóðminjasafnsins og lesa um Íslensku jólasveinana.
http://www.thjodminjasafn.is/fraedsla/arlegir-vidburdir/joladagskra/jolasveinar/nr/715

Norðfjarðarvegur, hvar endar hann eiginlega?

Það hefur komist inn í uppdrætti og kort að kalla Fagradalbrautina, Norðfjarðaveg. Í ljósi sögunnar er það með ólíkindum, vegna þess að, það var á árunum fyrir 1930 sem vegur var lagður yfir Fagradal af miklum myndarskap og gerður akfær, eins og það var kallað í þá daga.

Frá ómunatíð var nothæfur kerruvegur yfir Fagradal. Vegur yfir Oddskarð var hins vegar ekki byggður upp fyrr, en á árunum rétt eftir seinna stríð, eða um tuttugu árum síðar og var opnaður um 1950. Fyrir þann tíma varð að fara á hestum yfir Oddskarð eða á tveim jafnfjótum. 

Það er einkennilegt að hugsa til þess, að vegur sem liggur frá Egilsstöðum í gegnum tvo bæi (Búðareyri við Reyðarfjörð og Eskifjarðarkaupstað), skuli nefndur alla leið eftir endastöðinni á Norðfirði. Það er nokkuð hastarlegt að geta ekki kallað þessa samgöngubót við Hérað, Fagradalsbraut eins og gert var í upphafi, og að hún skuli í opinberum gögnum Vegagerðarinnar og í gögnum Austur-Héraðs vera kölluð, - Norðfjarðavegur. 

Hér er úrdráttur úr yfirliti yfir þjóðvegi á landinu frá 1907. 

"Ísafold, 1. maí 1907, 34.árg., 27. tbl., bls. 106: 

Akbrautir og þjóðvegir.I.Landsverkfræðingurinn Jón Þorláksson hefir samið mikið fróðlegt yfirlit yfir ástand flutningabrauta og þjóðvega, eins og það var í fyrra....." 

".....Verkfræðingurinn telur þær upp akbrautirnar, sem nú eru lögboðnar og fyrirhugaðar, tíu að tölu. Hann segir þær vera 375 rastir (km.....)" 

Þá segir í upptalningunni að: 

"...6. Fagradalsbraut ............. 35.0 rastir........" 

Síðan er skilgreindar akbrautir og skilgreining á svokölluðum "Norðfjarðavegi" er eftirfarandi: 


"...Fagradalsbraut frá Búðareyri við Reyðarfjörð upp að Egilsstöðum....."


Þarf að velta þessu frekar fyrir sér?  Vegurinn um Fagradal heitir Fagradaldbraut.


Eru sveitastjórnarmenn lélegir í markaðsmálum?

Mörg sveitarfélög hafa gengið í gegnum sameiningakosningar og í leiðinni hefur verið skipt um nafn á því sveitarstjórnarstigi, sem kosið var um. Á heimasíðu fyrrum bæjarfélagsins Egilsstaðir, stendur nú Fljótsdalshérað, nafnið sem sveitarfélagið fékk eftir síðustu sameiningu. Í millitíðinni hét það Austur-Hérað.


Hvar t.d. hægt að finna það nafn á landakorti?


Fyrir okkur íbúa svæðisins, er þetta ekki svo flókið mál, en fyrir einhvern John Smith í Bretlandi, sem kom til Egilsstaða árið 1995 er þetta mun flóknara. Hann er að segja vinum og kunningjum frá þorpinu okkar og ætlar að finna það á netinu, en þá poppar alltaf upp einhver staður sem hann veit hvorki haus né sporð á, - Fljótsdalshérað. Lengi hefur það verið vitað, að besta og markvissasta auglýsingin er ánægður gestur.

Sveitastjórnarmenn eru að samþykkja fjármagn í markaðsmál og til að styrkja Markaðsstofu Austurlands í þeirri viðleitni. Á sama tíma eru þeir að rústa margra áratuga vinnu við markaðssetningu með gusugangi og kollsteypum í nafngiftum sveitarfélagsins. Það fjármagn sem fer í þennan málaflokk verður því að engu fyrir þeirra sök.


Markaðssetning felst í að koma á framfæri og viðhalda einföldum hlutum, þ.e. vörumerki. Vörumerkið má ekki breytast með nokkurra ára millibili, nema í kjölfarið á mjög öflugri markaðssetningu. Egilsstaðir er vörumerki, sem verður að vera sýnilegt. Það er því nauðsynlegt að það komi skýrt fram, m.a. í haus heimasíðunnar að þú er kominn á síðu Egilsstaða / Fljótsdalshéraðs.

Það er auðvelt að koma þessu við á heimasíðunni og setja það á áberandi stað í hausinn, við hliðina á Fljótsdaldhéraði.

Það er ekki ástæða til að tíunda öll sveitarfélögin á haus heimasíðunnar, sem stóðu að umræddri sameiningu, vegna þess að þau höfðu ekki sama vægi í markaðssetningunni og Egilsstaðir.


Jólakötturinn kominn á kreik á Egilsstöðum.

Undanfarin ár hefur jólaköllurinn fengið uppreisn æru á Egilsstöðum og jólakattarþema verið á aðventunni í bænum.  Edda Kristín Björnsdóttir á Miðhúsum hannaði köttinn í samvinnu við bónda sinn Hlyn Halldórsson og er hægt að kaupa hann ýmsum myndum frá þeim í jólavertíðinni.  Hann hefur einnig einnig verið búinn til sem barmmerki, sem allir verslunarmenn bera á aðventunni.

Jólakötturinn


Nokkrir varskir menn á ýmsum aldri  tóku sig til og smíðuðu einn 2.5m háan kött, sem verður gestum og gangandi til yndisauka við Landsbankann á Egilsstöðum nú um jólin. 

Þetta gerðu þeir í sjálfboðavinnu með stuðningi til efniskaupa frá Húsasmiðjunni, Landsbankanum, Sjóvá-Almennum og KHB.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband