Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Stóra stundin er runnin upp.

Tími okkar Austfirðinga er runnin upp með formlegri starfrækslu á þess mikla mannvirkis, Kárahnjúkavirkjunar.

Nokkrir einstaklingar hafa ólmast við að vara við þessu verkefni og fundið því allt til foráttu.  Nú síðast að verkið sé einhverjum mánuðum á eftir áætlun og kostnaðurinn kominn fram yfir áætlanir. 

Það hlakkar í sumum andstæðingum virkjunarinnar. 

Rétt væri fyrir þessa einstaklinga að róa sig aðeins niður, þeir standa frammi fyrir gerðum hlut og úr þessu er einungis framtíðin sem sker úr um réttmæti þessa verkefnis.  Einnig væri mönnum hollt að skoða í samhengi Kárahnjúkavirkjun og Grímseyjarferjuna, framúrkeyrsluna á síðarnefnda verkefninu og seinkun er í raun ótrúleg, á verkefni sem var í hendi og auðvelt að skoða nær allar hliðar þess.  

Í Kárahnjúkaverkefninu voru margir óvissuþættir, sem vissulega hefði mátt ransaka betur, en það þótti það dýrt að ásættanlegt væri að taka þá áhættu sem var tekin.  Þarna stöndum við einnig frammi fyrir ákvörðun, sem var tekin og einungis verið að æra óstöðugan að velta því frekar fyrir sér, bara að læra á því.  

Gangsetnign á Kárahnjúkavirkjun drógst um nokkra mánuði, en einungis lítið ef tekið er tillit til þess að líftími hennar er um hundrað ár, miðað við Grímeyjaferjuna með 10 - 20 ára líftíma.

Til hamingju með daginn kæru Austfirðingar og til hamingju með daginn allir Íslendingar, með þetta tæknilega afrek.


mbl.is Kárahnjúkavirkjun gangsett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýju föt keisarans......

Salan (lesist: gjöfin) á Eiðastað er orðinn farsi, sem hefur beina skírskotun ævintýri H.C Andersen um Nýju föt keisarans.  Sigurjón Sighvatsson athafnamaður, situr á síðkvöldum og saumar og saumar. 

Reglulega sýnir hann bæjarstjórninni á Egilsstöðum afraksturinn og þá fer ánægjukliður um meirihlutasöfnuðinn, sérstaklega sjálfstæðismennina, vegna þess að þeim finnst það svo ofboðslega flott sem hann er að gera. Safnaðarstjórinn, Soffía Lárusdóttir, botnar hins vegar ekkert í fólkinu, sakleysingjunum, sem ekkert sjá og ekkert skilja hvað um er að vera á Eiðum. 

Í stuttu máli þá seldi bæjarstjórnin á  Egilsstöðum, Sigurjóni Sighvatssyni jörðina Eiða og húsakost gegn yfirtöku á skuldabréfi bæjarins.  Bærinn keypti af ríkinu umrædda jörð og skuldabréf var vegna þeirra kaupa.

Sigurjón lofaði að reka á Eiðum menningarstarfsemi ýmiskonar og í aðdraganda kaupanna syndi hann  ráðamönnum merkilega möppu, hver innihélt stórtækar hugmyndir um að reysa staðinn till fyrri virðingar.  Eftir kaupin rykfellur mappa þessi upp í hillu og hefur ekki verið opnuð aftur.

Síðan kaupin áttu sér stað, sér almenningur enn ekki þá miklu uppbyggingu sem lofað var og átti að hefjast á allra næstu vikum.

Almenningur verður heldur ekki var við þá mörgu lista- og menningarviðburði sem þar var lofað. 

Almenningur varð hins vegar mjög áþreifanlega var við það, að Soffía Lárusdóttir varð mjög pirruð á því að vera spurð um málið og einnig á því hvað fáir voru himinlifandi yfir öllu því sem Sigurjón Sighvatsson var tilbúinn að “framkvæma” fyrir okkur. 

Fiskeldi á hverfandi hveli.

Það veit á gott, ef nú loks á að fara að taka sig saman í andlitinu og fara að leggja meiri áherslu á þorskeldi.  Þetta ætti að vera ráðstefna sem nær yfir allt fiskeldi, en fyrir sumar stöðvarnar er það samt ansi seint í rassin gripið.

Nú er nær allt fiskeldi að leggjast af á Austfjörðum og of litill skilningur hefur fram að þessu verið við það frumkvöðlastarf sem íbúar hafa sýnt. 

Með þessari ráðstefnu er vonandi verið að marka gæfurík spor til framtíðar.


mbl.is Mælir með sókn í þorskeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fornmunina heim í hérað.

Örfá misseri eru síðan flestir merkilegustu fornmunir þjóðarinnar höfðu það ömurlega hlutskipti að hýrast í kössum viðsvegar um Reykjavíkurborg.  Það var ill nauðsyn vegna viðhalds og viðgerða á Þjóðminjasafninu. Nú hefur ríkisstjórnin gert vel við það safn og nú er komið að ríkisstjórninni að sinna betur safnamálum úti á landsbyggðinni. 

Hvert bæjar- og sveitarfélag á, eða er í samstarfi um rekstur minjasafns. Húsnæði eru til staðar og starfsmaður (starfsmenn) eru á launum við vörslu þeirra muna sem í þeim eru geymd. Til þess að gera söfnin einstök, er nauðsynlegt að a.m.k einn verðmætur hlutur sé í hverju safni, hlutur eða hlutir sem fundist hafa í nágrenni safnanna og tengjast sögu svæðisins órjúfanlegum böndum.

Stöðugt er verið að reyna að finna leiðir til að “stöðva” ferðamenn lengur á hverjum stað, og af veikum mætt er verið að koma upp ýmiskonar afþreyingu og m.a. í því sambandi er verið að byggja á sögutengdri ferðamennsku.  "Menningartengd ferðaþjónusta” er einnig tískuorð, sem æ fleiri taka sér í munn við hátíðleg tækifæri.

Hér er því á ferðinni mjög brýnt og aðkallandi verkefni, sem gerðu landsbyggðina mun áhugaverðari en ella í augum ferðamanna, auk þess er ekki heppilegt að allir helstu dýrgripir Íslandssögunnar séu á einum stað. 
Allar gersemar þjóðarinnar geta horfið í jarðskjálfta, bruna eða öðrum hamförum í einu vetfangi. Seint verður hægt að koma í veg fyrir slys, en það má minnka áhættuna verulega með því að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.

Það er talið til tíðinda þegar þjóðin endurheimtir gersemar, sem varðveittir hafa verið í söfnum víðsvegar um heim, flestar í Danmörku og fá þær undantekningalaust varanlega búfestu í Reykjavík.  Eins eðlilegt og fornmunum er skilað erlendis frá, er sjálfsagt að Þjóminjasafnið skili þeim fornmunum sem það er með að láni af landsbyggðinni. 

Hlutir sem eiga heima í minni heimabyggð eru t.d.  Valþjófsstaðahurðin og Miðhúsasilfrið.  Flest bæjar og sveitarfélög eiga hluti í vörslu Þjóðminjasafnsins, sem teljast til stórmerkilegra muna. Þeim skal komið fyrir í þeim söfnum, sem staðsett er næst “heimaslóð” gripsins.

Ég legg til að menningarverðmæti okkar dreifbýlismanna, þeir fornmunir sem fundist hafa á landsbyggðinni, verði flutt heim í hérað. Með öðrum orðum, að nú þegar verði hafinn undirbúningur að flutningi fornmuna, sem Þjóðminjasafnið hefur haft að láni um árabil og þeim komið til síns heima, - þ.e. á landsbyggðinni.

Krafan okkar dreyfbýlismanna er skýr.  Fornmunina heim í hérað.

Ja, - hérna hér......

.... þetta er greinilega viðurkenning hjá Kolbrúnu og Steinunni Valdísi, þing-aðilum, að stjórnmálin á Íslandi eru aldeilis í afbragðs góðum málum hjá ríkisstjórninni, nú um stundir. 

Það segir okkur, að ekki er lengur þörf á að vinna í málum láglauna-aðila, fjölskyldu-aðila, öryrkja-aðila né eldri-aðilum, svo einhverjir séu nefndir.   

Stóru málin hjá þessum þing-aðilum, - bleikt og blátt annarsvegar,  ráðherra og "eitthvað annað" hins vegar.

Vonandi tekur heilbrigðis-aðilinn snarlega á þessu brýna máli í heilbrigðisgeiranum, sem þolir ljóslega enga bið. 

Ja,  - hérna hér........!!!!


mbl.is Ekki meira blátt og bleikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjórn Egilsstaða og bíó- og menningarleysið.

Umræðan vegna sölu og vandræðaganginn í kringum Valaskjálf, hefur oftar en ekki kallað á vangaveltur um bíóið, sem þar var rekið af  bloggara þessara síðu og fjölskyldu hans í níu ár.

Þegar fjölskyldan tók að sér að endurskapa bíómenningu svæðisins var hljóðkerfið ónýtt, sýningarvélin þurfti viðhald, stólar voru ónothæfir og sýningartjaldið götótt og notað til að skipta salnum í Valaskjálf í tvennt.  Það síðast nefnda orsakaði það að ekki var hægt að vera með dagskrá í stóra sanlum á meðan á bíósýningum stóð og nokkrir árekstrar urðu vegna þess. 

Það var því úr, að við létum byggja þykkan hljóðeinangraðan vegg til að aðgreina bíóið frá aðalsalnum, og um leið var gólfi breytt og keyptir notaðir bíóstólar, sem þurftu talsverða upplyftingu áður en þeir töldust brúklegir. 

Mikil vinna fór í þetta, blóð sviti og tár.  Þetta hafðist að lokum og með nýju hljóðkerfi kom aldeilis afbragðs bíósalur í plássið.  Þrátt fyrir umsóknir til menningarnefndar og bæjarstjórnar, fékkst enginn styrkur í þetta verkefni, en styrkur til hússins var notaður til að leggja út fyrir stólununum sjálfum.  Veggurinn og breytingar á gólfi gengu upp í leigu, en það sem við gerðum sjálf, var sjálfboðavinna. 

Vandræðin hófust svo fyrir alvöru, þegar bæjarstjórnin ákvað að selja Valaskjálf.  Menningarhúsið, sem byggt var á sínum tíma af miklum metnaði og stórhug, sem öll sveitarfélögin á Fljótsdalshéraði stóðu að.  Margir komu að byggingu hússins og margir lögðu hönd á plóg með sjálfboðavinnu.  Góðar gjafir voru gefnar við vígslu þess.  Þrátt fyrir mótmæli íbúa, var Valaskjálf selt.

Salan hússins var menningarslys, sem enn sér ekki fyrir endann á.

Flestir sem þekkja eitthvað til bíóreksturs vita, að hér fór saman áhugi á bíómenningu fjölskyldunnar og áhugi á að gera samfélaginu gott, en ekki gróðasjónamið, enda sjá flestir að það er mjög hæpið að græða á bíórekstri úti á landsbyggðinni.  Það sýnir hin napri raunveruleiki, nánast hvergi bíó í rekstri.

Þegar nýir eigendur tóku við Valaskjálf komu nýjar áherslur og meðal annars sáu þeir tækifæri á aðra notkun á bíósalnum.  Þá var aftur farið til bæjaryfirvalda til að athuga hvort enhver styrkur væri í boði til að halda starfseminni gangandi m.a. hærri leigu, en sem fyrr, - engar forsendur fyrir því.  

Sagan um bíósalinn er eitt það daprasta sem ég hef horft upp á um ævina.  Öllu var rústað.  Gólfið rifið burt og stólum hent.  Salurinn stóð þannig á þriðja ár.  Ég hef ekki enn hafð geð í mér til að kanna hver staða hans er í dag. 

Bíó er ekki flokkað hér undir menningu, samkvæmt skilgreiningu hjá "menningarvitum" svæðisins. Margir íbúar líta það öðrum augum.  Það er mergur málsins.  

Það særir okkur fjölskylduna mjög, þegar því er ítrekað haldið fram af ráðamönnum bæjarfélagsins, að við höfum ákveðið að hætta, þegar sannleikurinn er annar.  Okkur var gert ómögulegt að halda áfram. 


Velkomnir á Egilsstaðaflugvöll með starfsstöð.

Landhelgisgæslan eru hér með  hvött til þess að setja upp starfsstöð á Egilsstaðaflugvelli.  Þyrlur verða alltaf staðsettar í næsta nágrenni við  Reykjavík og með þyrlu staðsetta á Egilsstaðaflugvelli, verður til mjög stórt svæði sem hægt er að “dekka” með þyrlum.  Aðrir valkostir eru verri, af ýmsum ástæðum.

Ég bendi einnig á það, að um Egilsstaðaflugvöll er mikil flugumferð og í ljósi atburða þegar Fokker flugvél Flugfélagsins varð að lenda þar með annan hreyfilinn dauðan, þarf ekki ríkt ímyndunarafl til að sjá að þá má á ekki mikið út af bera  til þess að flugvöllurinn lokist.  Þá er ekki hægt að lenda venjulegum flugvélum á vellinum til  ná í sjúklinga, - ef illa tekst til.

Þyrlur geta þrátt fyrir það athafnað sig á svæðinu.  Næsta aðgerðasjúkrahús er á Norðfirði og það tekur þyrluna um 15 mínútur að fara þangað með slasaða  en um klukkustund tekur að fara þessa leið í sjúkrabíl.

Þetta er annað tilfellið á árinu sem vél í neyð, snýr til Egilsstaðaflugvallar.  Hitt tilfellið var þegar Boeing 757 í fraktflugi frá Svíþjóð, lenti á vellinum vegna aðvörunar um eld um borð.  


Verði óhapp á Akureyrarflugvelli, er einungis um fimm mínútna akstur á mun betra og fullkomnara sjúkrahús en hægt er að státa af, - í öllum austurlandsfjórungi.
 


mbl.is Gæslan á Keflavíkurflugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takið eftir þessu, - íbúar í Reykjavíkurhreppi

Þarna eru stórhuga menn á ferð, sem standa myndarlega að verki og leysa vandamálin í samgöngumálum þjóðarinnar. 

Í Reykjavíkurhreppi eru hins vegar endalaus vandamál hvort flugvöllurinn á að vera eður ei.  Fram að þessu hefur ekki verið hægt að byggja eina flugstöð til að sinna um 500 þúsund manns í innanlandsflugi. 

Það er hins vegar ekkert mál að byggja höll yfir menninguna við höfnina, þar sem innan við 200 þúsund manns munu sækja menningarviðburði.

Verði flugvöllurinn látinn víkja, legg ég til að Vatnsmýrin verði færð til upprunalegs horfs. 


mbl.is Heathrow flugvöllur stækkaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austan við 17° vestur.

Oft veltir maður fyrir sér hvernig tekið er á hinum ýmsu málum samtímans, sérstaklega ef þarf að byggja upp einhverja þjónustu út um hinar dreifðu byggðir.

 

Dæmi A:

Það þarf að hafa staðsettar sjúkraflugvélar á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Akureyri, ekki á Austurlandi, sem er þó lengst frá tæknivæddu sjúkrahúsunum í Reykjavík.

Austurlandið austan við 17°vestur.


Dæmi B:
Þegar byggt er við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, eru smíðaðir hallandi veggir til að "lúkka" við ílla ígrundaða hönnun Leifsstöðvar.  Ekki einasta er þetta fokdýrt, heldur kallar þetta á endalaus vandamál við frekari stækkun.  Skásettir útveggirnir rýra aukheldur gólfplássið um hundruði fermetra.  Ferjuhöfnin á Seyðisfirði mátti sæta því, að hver einasti fermillimeter var skorinn í burtu, sem nokkur smuga var á að skera.  Húsið var því strax of lítið og krubbulegt fyrir starfsemina og skoðun á stærri bílum þarf að fara fram utan dyra.
Seyðisfjörður er líka austan við 17° vestur. 

Dæmi C:
Stórt menningar- og ráðstefnuhús rís nú við höfnina í Reykjavík og þar er engu til sparað, nægu fjármagni til að dreifa, ekkert skorið við nögl.  Þegar stóru verkefni um álver og virkjanir var hrint í framkvæmd á Mið-Austurlandi, voru litlir peningar til í að laga þá vegi, sem mestu þungaflutningarnir frá Reyðarfirði áttu sér stað og ekki var hægt að breikka tvær einbreiðar brýr á Fljótsdalhéraði eða endurbæta vegstubb sem er að hverfa ofaní drulluna á kafla.  Fráleitt þótti að leggja nokkurn pening í að bæta við sjúkrahúsið á Egilsstöðum, þrátt fyrir mikla aukningu starfsmanna á svæðinu.   

Enda er Mið-Austurland austan við 17° vestur. 

Þetta eru bara smá sýnishorn og það ber að hafa í huga, að ákvaranir um þessi mál eru ekki teknar austan við 17° vestur.

Ryk af mannavöldum

Nú berast um það fréttir að svifryk í Reykjavík mælist nú hátt yfir heilsuverndarmörkum. Ástæðan er af mannavöldum, þegar malbikið er að kvarnast niður vegna umferðarinnar.  Þetta ágerist þegar þorri íbúanna eru búnir að setja nagladekkin undir og veðrið er gott og rykið þyrlast upp undan umferðinni.  Um þetta málefni má lesa um í blöðunum.  Það kveður svo rammt að þessu að nú varar umhverfissvið borgarinnar þá við, sem eru með viðkvæm öndunarfæri og/eða astma að vera ekki mikið á ferðinni þar sem umferðin er mest.  

Þetta ástand er viðvarandi vandamál í borginni og fer vaxandi.
 Ekki er mikil fyrirferð á umræðunni um þetta vandamál á bloggsíðum landsmanna, en ítrekað er búið að fjalla um “moldrok” frá lónbotni Kárahnúkavirkjunar á bloggsíðum.  Ég skil ekki alveg þessar áhyggjur, en þakka samt hina miklu umhyggju sem margir bloggverjar sýna okkur austfirðingum.   

Ég er fæddur og uppalinn á Fljótsdalshéraði,  hef búið á því svæði nær allan minn aldur og síðan 1981 hef ég unnið í flugturninum á Egilsstaðaflugvelli, og tel mig nokkuð dómbæran á þetta meinta moldrok. Þetta sem margir kalla moldrok er í raun leirfok og finn ösku/vikursalli, en það er nú allt annað mál. 

Mín upplifun er þessi.  Einu sinni til tvisvar sinnum á ári er hér leirfok.  Það fer eftir vindáttinni hvert mökkurinn stefnir.  Stundum fer hann suður um með stefnu frá Öskju til Djúpavogs.  Stundum rýkur leirinn frá sama svæði með stefnu á Vopnafjörð.   Af og til er stefnan yfir Egilsstaði og þá er skyggnið yfirleitt milli 8 og 9 km.  Ég hef einu sinni á öllum þessum tíma orðið vitni að skyggni sem er um og innan við einn km og sá þá ekki úr flugturninum yfir í Fellabæ, handan Lagarfljóts.  


Þetta leirfok er frá svæðinu sunnan við Öskju en mest frá svæðinu í kringum Jökulsá á Fjöllum, af svæði sem er margfalt stærra en allt svæðið sem mögulega kemur undan vatni við lónið við Kárahnjúka.   Hugsanlega bætist einhver örfá prósent við strókinn á meðan þetta ástand varir, en hvort skyggnið verður 7,5 til 8,5 km skiptir bara engu mála, jafnvel þó að á tuttugu ára fresti sjáist ekki frá flugvellinum yfir í Fellabæ. 


Þetta er mjög finn salli og smýgur inn um allt og kallar á hreingerningu á heimilunum þegar verst lætur og skapar húsráðendum aukavinnu við þrif.  Ég minnist þess ekki að yfirvöld heilbrigðismála á Austurlandi hafi séð ástæðu til að vara við þessu ástandi.
 

En, - enn og aftur, þakka hina miklu umhyggju sem okkur er sýnd vegna þessara vandamála, sem við íbúar svæðisins, sjáum reyndar ekki sem mikið vandamál, - bara náttúrulegt fyrirbæri sem lifa þarf með.  

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband