2. Brú, flugvöllur og þjóðvegur eitt

Það gladdi mig að lesa svar Stefáns Boga við grein minni í Austurglugganum.  Ég ætla að treina mér andsvar þar til að ég hef lokið yfirferð minni um skipulag Mið-Héraðs.  En eitt má þó Stefán Bogi vita strax, með tilvísun sinni í skrúðmikinn málblómavönd, að Miðflokkurinn er með rósir í jurtagarði Múlaþings og þær eru ekki án þyrna.

Brúin
Mikil framsýni var eitt sinn við lýði á Fljótsdalshéraði og eitt af verkum frumbyggjanna var að koma á samgöngum m.a. með að þrýsta á um byggingu Lagarfljótsbrúarinnar 1905, sem þurfti að vísu að endurbyggja 1906 vegna þess að ísrek tók hana af í leysingum það vor.  Brúin þjónaði fram yfir miðja þá öld og mátti lesa litla frétt í Morgunblaðinu 8. nóvember 1953.

Ný brú á Lagarfljót er nauðsynjamál.
HÉRAÐI, 3. nóv. — Í haust hefur verið komið fyrir fargi á ísbrjótunum sem eru straum megin við Lagarfljótsbrúna. Ætlunin mun að reyna, hvort þeir síga undan því, og ef ekki, þá mun koma til greina að byggja ofan á þá nýja brú, sem fyrirhuguð er á Fljótið. Lagarfljótsbrúin er nú að verða 50 ára. Hún var aðeins gerð fyrir hestvagna, og eru undur mikil að hún skuli hafa þolað hin þungu ökutæki síðustu ára. Hún hefur nú látið mikið á sjá, og er nauðsyn á að endurbyggja hana sem fyrst. — G. H.“

Lagarfljótsbrúin var endurbyggð og tvíbreið árið 1958.  Síðan eru liðin tæp 70 ár.  Brúin er nú fyrir nokkru komin aftur á það stig að þurfa gagngera andlitslyftingu vegna þess að hún er ekki, frekar en 1905, hönnuð fyrir nútímaflutninga.  Brúin er háð þungatakmörkunum og er til verulegs ama fyrir eigendur þungavinnuvéla, sem við núverandi aðstæður þurfa að flytja tæki sín á milli staða og fara um Tunguna og yfir við Lagarfossvirkjun við að koma þeim á milli Fellabæjar og Egilsstaða. 

Þetta er einnig farið að setja þungaflutningum með Norrænu skorður, þar sem Lagarfljótsbrúin er eins og að framan getur og ekki bætir úr skák að brúin yfir Jökulsá á Fjöllum er einbreið og einnig háð þungatakmörkunum.  Brúin á Skjálfandafljóti við Goðafoss er enn ein „perlan“ í þessari grúppu. Það örlar lítið á þrýstingi meirihlutans í Múlaþingi um að endurnýja þessar brýr.  Ný Lagarfljótsbrú er innanbæjarkróníka meirihlutans gegn málefnalegri umræðu kjósenda.  Ástæðan er að engin raunhæf framtíðarsýn er til í fórum bæjarfulltrúa í Múlaþingi er varðar samgöngumál.  Það er hins vegar orðið forgangsmál að fara strax í það verkefni, vegna vöru- og fólksflutninga um helstu samgönguæðar Austurlands.  Nú þegar þurfa stjórnendur Múlaþings að taka sér tak og hanna nýja leið yfir Lagarfljótið og um lítt áhugavert byggingaland inn á veglínu þjóðvegar 1 við sunnanvert Urriðavatn.

Flugvöllur
Flugvöllur hefur verið við Lagarfljót frá 1941 og frá 1952 hefur hann verið aðalflugvöllur Austurlands frá þeirri stundu er grasflugbrautir viku fyrir malarflugbraut á bökkum Eyvindarár. Þriðji flugvöllurinn var vígður haustið 1993 þegar endurbyggður alþjóðlegur flugvöllur á Egilsstöðum var tekinn í notkun.  Með þeim endurbótum urðu til nýir og spennandi möguleikar á  fjölbreyttri notkun flugvallarins, - fyrir Austurland allt.  Til að lengja flugvöllinn þarf að færa þjóðveg 1 innar og brúa Lagarfljótið þar.  Landrými er það eina sem við höfum nóg af og ekki má á nokkurn hátt þrengja að flugvellinum né öryggissvæði hans. 

Atvinnu og menningarnefnd Fljótsdalshéraðs fundaði 14.11.2019 og var m.a. eitt mál fundarins: Umhverfi Egilsstaðaflugvallar.  „Fyrir liggur erindi frá Benedikt V. Warén þar sem varað er við hugmyndum um að myndPabbþrengja að starfsemi Egilsstaðaflugvallar, sem rýra kunna möguleika á nýtingu flugvallarins og framtíðar uppbyggingu hans.
Atvinnu- og menningarnefnd bendir á mikilvægi þess að við endurskoðun aðalskipulags fyrir sveitarfélagið verði gætt að framtíðarmöguleikum flugvallarins á Egilsstöðum. 
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.“ 
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs staðfesti fundargerð atvinnu- og menningarnefndar þann 20.11.2019.  (mál 201911043)

Hugmyndir núverandi meirihluta stangast hins vegar á við þessa nálgun.  Lóðir í Ferjukíl eru án skilyrða um flugtengda starfsemi og án færslu þjóðvegar 1 er ekki hægt að lengja flugvöllinn.  Þetta rímar illa við háleitar hugmyndir sömu fulltrúa um aukna umferð stærri flugvéla um Egilsstaðaflugvöll.

 

Rauða punktalínan er tillaga að  nýrri legu þjóðvegar eitt yfir Lagarfljótið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband