Er Fjórðungssjúkrahús Austurlands á röngum stað?

Oft hafa austfirðingar tekist á um réttmæti þess að vera með Fjórðungssjúkrahúsið á endastöð samfélagsins, í skjóli hárra fjalla og um erfiðan fjallveg um Oddskarð að fara til þess að sækja þangað þjónustu. Í bráðatilfellum hefur oft verið farið með fársjúka einstaklinga þessa leið og síðan til baka til Egilsstaða til þess að vera fluttir á aðalsjúkrahús landsmanna í Reykjavík, vegna þess að þjónustuna var ekki hægt að veita á Norðfirði.

Ákvörðun var tekin um staðsetningu fjórðungssjúkrahússins og þótti ef til vill rétt þá, þó oft hafi hvarlað að manni að önnur sjónamið hafi þar ráðið ferð, en fagleg umhyggja gagnvart íbúum Austurlands.  Það breytir ekki því, að við, íbúar þessa fjórðungs, þurfum að lifa með þessum gjörningi forfeðra okkar.

Ég hef oft bent á það, að litlu skipti í raun hvar fjórðungssjúkrahúsið sé staðsett, svo framarlega sem samgöngur að og frá því séu í lagi. Metnaðarfull áætlun um samgöng hefur litið dagsins ljós, en þá strandar það á, -merkilegt nokk, að flestir í Fjarðabyggð eru fáhverfir hugmyndinni. Sumir hafa þó gefið ögn eftir og gætu fallist á verkefnið, svo framarlega sem byrjað yrði innanbæjar í Fjarðabyggð.
 
Þar sem þessi áhugi á samgöngubótum virðist af skornum skammti í Fjarðabyggð og auk þess er hópur íbúa bæjarfélagsins nú búinn skorða á bæjaryfirvöld að slíta sig frá HSA, er eðlilegast að þessi mál verði skoðuð heildstætt. Það hljóta flestir að sjá.
 
Það breytir heldur engu að berja hausnum við steininn, Egilsstaðir eru meira miðsvæðis en Norðfjörður og flugvöllurinn á Norðfirði getur aldrei þjónað sjúkrahúsinu með fullnægjandi hætti, jafnvel þó hann verði malbikaður og settur á hann brautarlýsing. 
 
Vissulega mundi það bæta stöðuna eitthvað, en það kostar mikla fjármuni og því fylgja ýmis vandamál að malbika og kallar á dýran búnað að halda mannvirkinu tilbúnu undir notkun um hávetur í svartasta skammdeginu.   Gildishlaðnar samþykktir og ályktanir íbúa og bæjarstjórnarmanna breyta þar engu um.

Að mínu mati er hins vegar til ásættanleg lausn, sem rétt væri að menn settust niður öfgalaust og skoðuðu.  Samhliða gerð ganga milli Eski- og Norðfjarðar væri rétt að fara í önnur 8.5 km göng undir Eskifjarðaheiði sem opnuðust innst í Eskifirði með gagnstæðan munna þar sem Eyvindárár-, Svína- og Tungudal mætast undir Tungufelliðinu.

Með þessari framkvæmd væri hægt að aka frá Fjórðungssjúkrahúsinu og á einn best búna flugvöll Íslands á broti þess tíma sem nú tekur að fara þessa leið.  Vegurinn yfirbyggður, ef svo mætti segja, stóran hluta af leiðinni, þannig að hvorki veður né færð hefðu þar teljandi áhrif á til trafala.  Nái menn lendingu í þessu máli, er ekki eingöngu gott vegasamband  komið við Norðfjörð, heldur Eskifjörð og Reyðarfjörð einnig, og barningur um hávetur yrir Oddskarð og Fagradal heyrði þá sögunni til fyrir alla íbúa miðsvæðis Austurlands. 

Aðgengið að flugvellinum kynni að færa Fjórðungssjúkrahúsinu ný tækifæri til að eflast og dafna, jafnvel með því að flytja inn sjúklinga erlendis frá.  Nauðsynlegt er einnig flugvellinum að hafa gott aðgengi að stóru aðgerðarsjúkrahúsi, því alltaf vofir yfir samgöngumannvirkjum að þar verði slys, sem í tilfelli flugvallarins gæti hæglega flokkast sem stórslys.

Hér er því um margþætta hagsmuni að ræða, sem verður að hefja yfir dægurþras íbúa svæðanna og kjörinna fulltrúa þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband