Jarðgöng á Austurlandi, - framhald.

Nú eru göngin milli Reyðar- og Fáskrúðsfjarðar komin í gagnið og einnig göngin undir Almannaskarð. Þau hafa bæði sannað ágæti sitt.  Það er því löngu  tímabært að fara að vinna að fullum þunga við undirbúning að jarðgöngum milli Héraðs ogl Vopnafjarðar og hefja þær framkvæmdir sem fyrst. 

Svæðið, sem nyti góðs af þessari framkvæmd, nær frá Þórshöfn og því er mjög brýnt að fara í þetta verkefni til að rjúfa vetrareinangrun íbúa þess bæjar ásamt íbúum Bakkafjarðar og Vopnafjarðar. Það kann að vera að einhver önnur göng hér eystra hafi örlítið betri arðsemi, en á það ber að líta, að ítrekað hefur verið ályktað m.a. hjá SSA, um að rjúfa vetrareinangrun norðan Smjörvatnsheiðar.

Umrætt svæði er í ríkara mæli að uppgötva kostina við að sækja aðföng og þjónustu á Mið-Austurland.  Fyrir íbúa norðan Smjörvatnsheiðarinnar opnaðist betur gáttin suður um,  við endurbæturnar á Hellisheiðinni. Það er landfræðilega styttra frá Þórshöfn til Egilsstaða en frá Þórshöfn til Akureyrar, bæði hvað varðar beina loftlínu og eftir vegakerfinu.

Samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar eru 163 km frá Þórshöfn til Egilsstaða á meðan það eru 231 km frá Þórshöfn til Akureyrar miðað við að fara Vaðlaheiði og Öxarfjarðaheiði. Þar munar 68 km aðra leiðina.  Verið er að byggja nýjan veg örlítið norðar á Melrakkanesinu, hann liggur lægra í landslaginu, en gerir styttinguna minni.  Valdi leiðina um Vaðlaheiðina vegna væntanlegra jarðgangna undir hana.  Einhverjar frakari styttingar eru mögulegar, en það gildir einnig um leiðina frá Þórshöfn til Egilsstaða. Loftlínan frá Þórshöfn til Akureyrar er um 139 km á meðan hún er um 112 km til Egilsstaða. Hér munar um 27 km aðra leiðina. Það er þar með ljóst, að þetta svæði hefur meiri samleið með Mið-Austurlandi, en Akureyri.

Nú er spurningin hvort núverandi samgönguráðherra hafi pólitískt þrek til að slíta sig frá framkvæmdaloforðum sínum í Eyjafirði og fara að líta á aðra staði í kjördæmi sínu.  

Þar býr líka fólk, sem er með kosningarétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband