4.4.2008 | 10:34
Kominn frá Canarí.
Þá er maður kominn heim eftir velheppnaða ferð til Canarí, - í kuldann og trekkinn. Veðrið var að okkar mati yndislegt, þó "infæddir" íslendingar á svæðinu fyndist það ekkert sérstakt. Hitinn var þó alla dagana um +20°C (+ - 5°C). Hentaði vel fyrir okkur.
Við hjónin vorum á Hótel Neptuno, sem státar af fjórum stjörnum og liggur miðsvæðis og stutt í allar áttir. Við eyddum dögunum að liggja í leti og slappa af, ef ekki í garði hótelsins þá á ströndinni. Fínt hótel, góður matur og frábært starfsfólk. Það sama má segja um starfsfókið hjá ferðaskrifstofunni Sumarferðir, - allir gerðu sitt besta.
Einn daginn slógust við í hóp manna og kvenna, sem fór til Tenerife. Við skoðuðum þá eyju í sjónhendingu og komum heim þreytt og ánægð eftir velheppnaða ferð. Á ferjunni á milli eyjanna var smá bræla og þrátt fyrir sjóveiki samferðamanna okkar bar ekkert á þeirri sýki hjá okkur landkröbbunum.
Einn daginn leigðum við flugvél, Gummi frændi og ég. Frúin sólaði sig á meðan við sundlaugina. Vélin var Piper Archer, Domingo var capitan og ég var copilot. Flogið var umhverfis eyjuna í 1500 fetum á 57 mínútum, mögnuð upplifun. Þessi eyja er talsvert minni en sveitarfélagið Fljótsdalshérað, á Canarí búa um 800.000 manns á meðan við fljótsdælingar erum rétt rúmlega 3.000 manns.
Næst síðasta daginn leigðum við hjónin okkur bíl og stefndum á fjöllin. Það var meiriháttar ferð. Að skoða safn um frumbyggjana var fræðandi, skoða staðsetningu húsa nútímamannsins upp um hlíðar og fjöll, var áhugavert. Að keyra um þrönga vegi utan í klettunum, skoða hellana, sem fólk lifði í fyrr á öldum og fá sér snarl á veitingastað, sem höggvinn var inn í bergið, var stórfenglegt. Magnað að upplifa, að nútímamaðurinn býr enn í hellum á svæðinu og sjá andstæðurnar, hellar sem íverustaður og flottir bílar fyrir utan.
Ferðin út var með Icelandair og fór ágætlega um okkur "umhverfisvæna" fólkið. Heimferðin var með Futura og þar var greinilega ekki gert ráð fyrir "oversize" fólki. Við fengu að vísu lökustu sætin, á aftasta bekk, ekki hægt að stilla hallan á sætisbökunum og hnén voru í bakinu á næsta manni. Á leiðinni heim frá Reykjavík, leið okkur eins og á "Saga Class" þvílíkt var fótrýmið í gamla Fokker.
Við heimkomuna til Keflavíkur, gistum við eina nótt á Hótel Keflavík. Það var fjögurra stjörnu hótel eins og það sem við gistum í á Canarí. Það er greinilegt að standardinn hjá okkur er mun hærri á herbergjunum og ætti munurinn að vera tvær stjörnur, Hótel Keflavík í hag.
Það er alltaf gott að komast heim í sitt eigið umhverfi, þó ég hafi átt gott og langþráð frí með spúsu minni á Canarí.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.