Náttúruvaktin Efstaleiti, - upprifjun.

Það er ótrúlegt hvað orðið “hlutleysi” á fréttastofu RÚV hefur á síðustu árum fengið nýja og sérkennilega merkingu. Þegar verið er að fjalla um skýrslur Landsvirkjunar, kannanir og/eða fréttir af jákvæðum toga, þá þurfti gjarnan að fá einhvern úr “hinu liðinu” til að “kommentera”. Þegar hins vegar var verið að hnjóða í Landsvirkjun, Kárahnjúka eða álverið fyrir austan, var hægt að fjalla um um það “hlutlaust” án þess að “óvinurinn” komi þar nærri.

Sjónvarpið var sama merkinu brennt. Þannig komu fyrir í Kastljósinu “tvær úr Tungunum”, þær Björk Guðmundsdóttir söngkona og Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona. Þær fengu að leika lausum hala án þess að þáttarstjórnandinn gagnrýndi þær á nokkurn hátt eða gerði nokkra tilraun til að slá á vitsmunaflæðið úr þessum mannvitsbrekkum, sem vissu allt um virkjanir, álver og nátturuvernd. Þær voru einnig með það alveg á hreinu, hvað þjóðinni fannst þetta verkefni. Því til sönnunar nefndu þær tónleika sem þá voru nýafstanir og allan þann fjölda sem mætti til að mótmæla. Mér er til efs, að sami fjöldinn hefði mætt ef Hjörleifur Guttormsson hefði verið með fróðlegt erindi og skuggamyndasýningu um sama málefni.

Sama var upp á teningunum þegar aðrar tvær, Þuríður Einarsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir í síðdegisþætti í RÚV, skautuðu yfir sviðið gagnrýnislaust og voru “fulltrúar þjóðarinnar” að eigin sögn, gegn því að sökkva “öllu hálendinu”.

Þegar könnun var gerð af Gallup um téðar framkvæmdir, var fyrsta verk fréttastofu RUV að fá “komment” frá Árna Finnsyni, vegna þess að þessi könnun var óþarflega jákvæð í garð virkjunar og álvers fyrir austan. Það var mat Árna, að spurningin hefði ekki verið rétt fram sett.

Steininn tók úr þegar enn einu sinni var tekið til við að fjalla um “eitthvað annað” og að ríkið ætti að leggja í það þessar tvö hundruð milljarða sem fóru í verkefnið fyrir austan skv. viðtali við Ágúst Guðmundsson, (prímus mótor í Bakkavor) í Kastljósinu kvöldinu áður. Hann fjallaði einnig um ferðaþjónustuna, sem eitthvað sem hægt væri að gera í staðinn. Þrennt er athyglivert.

Í fyrsta lagi.  Ríkið lagði til, að um eitt hundrað milljörðum skildi varið í virkjunarframkvæmdirnar við Kárahnjúka í gegnum fyrirtæki sitt (okkar) sem heitir Landsvirkjun.  Landsvirkjun ber ábyrgð á verkefninu, ríkið lagði ekki til tvö hundruð milljarða, eins og fréttastofa RÚV lapti upp úr Kastljósþættinum, þó bakábyrgðin upp á eitt hundrað milljónir sé eigenda. Þeir fjármunir voru ekki til, þeir voru að stærstum hluta teknir að láni og voru ekki til ráðstöfunar til annara verkefna. Eitt hundrað milljarðar koma erlendis frá til að byggja álver, - þeir komu frá Alcoa, ef það hefur farið fram hjá einhverjum á fréttastofu RÚV.

Í öðru lagi, fréttastofa RÚV las fréttina um Ágúst í um það bil sólahring, athugasemdalaust og þrátt fyrir mótmæli forstjóra Landsvirkjunar og áttu auk heldur að vita betur eftir sí endurtekna umfjöllun um málið.  Engri leiðréttingu var útvarpað frá fréttastofunni, einungis hætt skyndilega að tyggja þessa “frétt”.

Í þriðja lagi er ekki vitað til þess að ferðaþjónustan flái feitan gölt.  Nokkur slík fyrirtæki eru í  góðum málum og er það hið besta mál. Eitt þeirra er rekið við gaflinn á virkjun og nýtir sér “umhverfisslys” sér til framdráttar, en það er Bláa lónið.  Hollt væri fréttastofunni einnig að kanna hvort að Byggðastofnun sé ennþá stærsti “hótelkeðjueigandinn”, þar sem stofnunin hefur fram að þessu þurft að leysa til sín fjöldan allan af hótel- og gistirými.

Byggðastofnun situr auk heldur uppi með ýmsar fjáfestingar, hverjar hún hefur lánað í, fólki sem fullt af bjartsýni tóku áskorun um tækifæri í ferðaþjónustu. Byggðastofnun hefur stórtapað á slíkum verkefnum og hefur síðan þurft að leysa mörg hver til sín. Ótaldar eru þá allar þær vinnustundir þeirra er lánin tóku, og þeir gríðarlegu fjármunir sem fóru í súginn hjá því góða fólki.

Því miður gengur þessi fréttamennska og þáttargerð í þorra fólks, og ef bullað er nægjanlega oft um sama hlutinn, endar með því að lýðurinn trúir, sama hvað bullið er fjarri raunveruleikanum. Það var a.m.k. skoðun Joseph Goebbels.  Nú virðist sama fréttamennskan vera í uppsiglingu varðandi olíuhreinsistöð fyrir vestan.

Sé hins vegar metnaður hjá RÚV til að laga þetta, væri rétt að hafa námskeið með útvarfpsfólki og brýna fyrir því hætta að lita fréttir og aðra umjöllun sínum prívat sterku litum. Þeir sem ekki ráða við að skilja milli eigin trúarbragða og raunveruleikans, - fái pokann sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband