17.1.2025 | 12:39
Hver er ábyrgur - flækjustig stjórnsýslunnar eða háskólarnir?
Flækjustig stjórnsýslunnar er athyglivert er varðar skipulag sérstaklega. Fyrst er lagt upp með að eiga samtal við íbúa samfélagsins og búið til reglugerðafargan svo að ákvarðanir og verkferlar verði rekjanlegir. Við þetta er síðan saumaður sérstakur sarpur til að einfalda alla umgerðina.
Þegar upp er staðið er lítið sem ekkert samráð haft við íbúa samfélagsins, flækjustig reglugerðanna eru í senn lítt skiljanlegar og íþyngjandi og listin um ábyrgðamenni þannig útfærður að nánast enginn ber ábyrgð, vegna þess að þar vísar hver á annan ef eitthvað fer úrskeiðis.
Þá virðast málaferli vera eina leiðin þegar öll sund virðast lokuð. Hér er kerfið búið að sníða sér þannig stakk að allir fá eitthvað fyrir sinn snúð og almenningur látinn blæða. Þetta er kallað heilbrigð og opin stjórnsýsla til verndar almenningi.
Bera háskólarnir enga ábyrgð?
Hverjir eru að útskrifa sérfræðinga, sem eiga að hafa vit fyrir sauðsvörtum almúganum? Arkitektar, verkfræðingar og byggingastjórar, svo dæmi sé tekið. Sérstaka athygli vekur hve algengt er að hús standist ekki byggingareglugerðir og húsin eiga það til að leka, bæði þök og gluggar.
Ekki er síður merkileg sú árátta að byggja háhýsi í þéttbýli og taka lítið sem ekkert tillit til skuggavarps, sem nágrannar slíkra bygginga þurfa þola.
Lítill skilningur virðist vera á hæð sólar í hæstu stöðu á Íslandi, þétting byggðar er sérstök í landi þar sem landgæði eru næg. Þetta eykur á vanlíðan íbúa að geta ekki nýtt útsýnis og sólarljóss á fullnægjandi hátt.
Svo eru þeim til halds og trausts margskonar nefndir sveitarfélaga og sjálfsskipað sérfræðingastóð, sem virðist hafa fengið hlutverk samfélagsins til að hafa skoðun á öllu og það þó þeirra sé að engu getið í skipuritum eða landslögum.
Það er greinilega mikið að í samskiptum almennings, æðri skóla og stjórnsýslunnar, sem verður að bæta.
Ekki ljóst hver kostnaður verður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning