16.1.2025 | 19:34
Kosningaréttur, - hvers réttur er það?
Í nýafstöðnum kosningum var eitt af stóru málunum, týndu utankjörstaðaatkvæðin.
Annað mál var talið brýnt í að loknum kosningum, að tímabært væri að endurskoða kosningalögin, sérstaklega hvað varðaði vægi atkvæða milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Þar þykir halla mjög á Reykjavíkurkjördæmin norður og suður.
Það hallar hins vegar mjög á landsbyggðina í mörgum málum. Virðisaukaskatturinn leggst t.d. mun þyngra á minni sveitarfélög langt frá Reykjavík. VSK leggst á síðasta stig vöru og þjónustu og verur því krónulega séð hærri upphæð innheimt í sameiginlegan sjóð á stað eins og Raufarhöfn, þegar búið er að leggja pökkunar- og flutningskostnað á vöruna og VSK-urinn bætist ofaná allt.
Þegar þarf að sækja læknis- og aðra þjónustu um langan veg til Reykjavíkur, er það kostnaðarsamt og lítill skilningur á annmörkum þess að hrúga öllu saman á einn stað, í nafni hagræðingar stærðarinnar Af mörgum er það talið eðlileg refsing fyrir þá, sem velja að búa langt frá allri þjónustu og verslun.
Það var talið mjög óeðlilegt að aðrir en Reykvíkangar tækju þátt í kosningunni um Reykjavíkurflugvöll á sínum tíma, þó hagsmunir landsbyggðarinnar væru margfaldir á við íbúa borgarinnar.
Nú er verið að kjósa um laxeldi í Seyðisfirði og eru yfir fimm þúsund manns búið að mótmæla slíku verkefni en heildartala íbúa Seyðisfjarðar er um sjö hundruð, börn meðtalin.
Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna. Sameiginleg verkefni þjóðarinnar eru þar s.s. heilbrigðisþjónusta, stjórnsýsla ríkisins, æðri skólar, flest þjónustufyrirtækin stór og smá. Þetta eru aðeins fá dæmi.
Samantektin í þessu hlýtur að kalla á umræðuna um hvort ekki sé eðlilegt að allir landsmenn séu kjörgengir við kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur, höfuðborgar allra landsmanna?
Hagsmunir landsbyggðarinnar eru ekki litlir, þegar tekið er tillit til þeirra fjármuna sem renna frá landsbyggðinni til Reykjavíkur.
Er ekki eðlilegt að allir landsmenn eigi sama rétt til að hafa áhrif á stjórn höfuðborgar Íslands?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning