23.5.2024 | 19:49
Undraveröld vindmyllugarða
Það er mikil vakning í kringum orkuskipti og mikil áhersla lögð á að nýta svokallaða græna orku. Stöðugt er að verið hamast við að heilaþvo íbúa Íslands um að hin fullkomna hreina orka komi frá vindorkuverum. Að sögn kemst engin önnur raforkuframleiðsla nálægt þeirri hvítþvegnu og hreinu orku sem vindorkan er. Þetta er sagt mat þjóðarinnar, en sú fullyrðing er oftast ofnotuð og innistæðulaus.
Það er sérstaklega athyglisvert hve áhugasamir um vindorku einblína þröngt á staðarval vindmyllugarða. Þar telja þeir að landsbyggðin sé frábær staðsetning fyrir slík verkefni alveg óháð fjarlægðinni frá framleiðslustað að orkusveltu samfélagi. Mörg ónýtt tækifæri eru til við orkuöflun í vatnsföllum víða um land og orkugefandi vatnsföll skila af sér vistvænni raforku, svo þeirri staðreynd sé haldið til haga. Auk heldur er viðurkennt að það er best að nýta alla orku sem næst framleiðslustað til þess að lágmarka tap í línum, sem er fylgifiskur þess að flytja raforkuna um langan veg.
Í Reykjavík er mikil þörf á orku. Þaðan er orkumálum þjóðarinnar stjórnað en þar hugkvæmist engum að nýta eitt besta svæði Íslands fyrir vindorkuframleiðslu. Það svæði hefur þann kost að þar gætu áhugasamir um vindmyllugarða barið slíkt verkefni augum í hvert sinn sem skyggni leyfði. Þetta svæði verður aldrei nýtt undir stofnvegi, skógrækt, byggingar né atvinnusvæði. Fuglalíf er fábrotið og mýs, refir og göngugarpar yrðu ekki fyrir teljandi truflun við að þvælast um svæðið. Fljótsdalsheiðin er metin heppileg fyrir vindmyllugarð og hæð yfir sjó er þar ekki talin fyrirstaða.
Því er lagt til hér að Esjan, í landnámi Ingólfs Arnarsonar, verði nýtt í risastórt vindmylluverkefni. Þar er vindasamt, innviðir eru öflugir á höfuðborgarsvæðinu og línulagnir frá framleiðanda til neytanda eru stuttar og það sama á við um aðkomuleiðir.
Þegar Esjan skartar sínum fegurstu vindmyllugörðum og svæðið orðið fullnýtt eru úti fyrir ströndum höfuðborgarinnar óbyggðar eyjar, sker og hafsvæði, sem ekki nýtast í annað þarfara en að útvíkka verkefnið. Þegar skyggni til Esjunnar er horfið verða slíkir vindmyllugarðar áfram sýnilegir borgarbúum og ómþýður hljómur þeirra mun fylgja þeim hvert kvöld inn í draumalandið. Hljómurinn er alveg ókeypis aukaafurð, a.m.k. þar til uppgötvast að hann er einnig söluvara.
Að lokum er lagt til, að fyrr en jákvæð niðurstaða af þessum verkefnum liggur fyrir verði ekki anað um land allt í stærri vindorkugarða en sem nemi 9,9 MW og aðrar betri lausnir ekki tiltækar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ekki spurning Pelli, -vindrella í hvern garð á höfuðborgasvæðinu og smá vírstubb inn í hús eða bílinn. Þá þarf ekki að fara með þær alla leið upp á Esju.
Magnús Sigurðsson, 24.5.2024 kl. 05:21
Hárrétt Magnús. Svo þarf ekki að hlusta á síbyljuna í útvarpinu þegar vindrellurnar óma sinn þýða són. Bónusinn er svo ekkert marktækt tap í raflögnum.
Benedikt V. Warén, 24.5.2024 kl. 17:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.