29.11.2023 | 20:37
Jarðgöng sem gagnast.
Á heimasíðu Samgönguráðuneytisins í júlí 2019 má finna eftirfarandi:
Verkefnishópur skipaður af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skilað skýrslu um Seyðisfjarðargöng. Niðurstaða hópsins er að með hliðsjón af ávinningi samfélags og atvinnulífs á Seyðisfirði og Austurlandi í heild sé vænlegast að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði og styrkja samfélagið á Austurlandi öllu með tvennum göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar annars vegar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar hins vegar á síðari stigum. Slík hringtenging færi samfélaginu á Austurlandi miklar samgöngubætur.
Það er ánægjulegt að loks, eftir áratuga baráttu, sjáist til lands með Seyðisfjarðargöng. Ljóst er að þetta hefur mörgum þótt stór biti að kyngja. Við sameiningu sveitarfélaga hefur krafa um samgöngur ávallt þótt eðlileg. Við sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Múlaþing var unnið með samgöngumálin þannig, að leiðir yrðu greiðar. Hvergi var nefnt að hjáleið um annað sveitarfélag væri valkostur eins og sumir hallast nú að. Engin haldbær rök styðja slíka tillögu né eru til um það nokkur gögn. Engar umferðargreiningar eru tiltækar né jarðfræði- eða ofanflóðarannsóknir, sem byggja undir slíka óskhyggju.
Ekki eingöngu þurfa íbúar í Múlaþingi að sitja undir framangreindum vangaveltum, heldur virðast stjórnvöld Íslands ítrekað finna hjá sér þörf fyrir að fjármagna hin ýmsu gæluverkefni og þá er þeim nærtækast að sælast í fjármagn lengst frá Reykjavík. Til dæmis eru illa skilgreind fimm ára útgjöld upp á sjötíu og sjö milljarða í loftslagsmál, á kostnað samgöngubóta á Austurlandi.
Verst er þó dugleysi meirihlutans í Múlaþingi, að sætta sig við ítrekuð svik ríkisstjórnarinnar um að hefja framkvæmdir við samgöngubætur á Austurlandi. Auk Seyðisfjarðaganga má nefna vanefnd loforð um Axarveg, endurbætur Egilsstaðaflugvallar og að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegi eitt. Allar heitingar um umbætur hafa jafnóðum og þær voru gefnar, svikin.
Ríkisstjórn Íslands samanstendur af Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki. Stýristaumarnir lafa í höndum leiðtoga Vinstri Grænna. Óvíst er hvort nokkurt orsakasamhengi sé með þessari samsetningu og því að meirihlutann í Múlaþingi er skipaður fulltrúum úr Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki og Vinstri Grænir eru sem hnýttir í taum meirihlutans. Stöku sinnum hafa Vinstri Grænir sýnt smá tilburði til sjálfstæðrar hugsunar, en virðast þá jafnan hafa fengið bendingu um að slíkt væri ekki í boði.
Skrumskæld umræða um jarðgöng hefur farið um víðan völl. Engin gáfuleg umræða hefur hins vegar sést um mikilvægi þess að fá göng undir Eskifjarðarheiði. Það væri mun viskulegri samgöngubót fyrir þorra íbúa mið-Austurlands en þær lausnir, sem sífellt er klifað á. Nánast sama vegalengdin er frá Egilsstöðum að Fjarðaráli hvort heldur farið yrði um þau göng eða um Fagradal. Göngin yrðu um átta kílómetra löng og oftar hægt að komast þá leið og minna tilstand að halda leiðinni opinni.
Tenging milli Egilsstaðaflugvallar og sjúkrahúss HSA í Neskaupstað yrði stutt og greiðfær auk þess væri um helmingur leiðarinnar um jarðgöng þar sem áhrifa veðurs, vinda og ófærðar gætir ekki. Fyrir Reyðfirðinga og þá sem á Suðurfjörðum búa, er þetta kjörin varaleið, þegar válynd veður herja á Fagradal. Hagstæðast yrði þetta fyrir Eskfirðinga að komast á tuttugu mínútum t.d. í flug og næst best fyrir Norðfirðinga að fara á fjörutíu mínútum, - í langþráða ferð til Héraðs.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.