31.3.2023 | 13:39
Svar við bréfi Pella
Í grein þeirri sem Benedikt V. Warén ritaði í síðasta tölublað Austurgluggans var margt málblómið að finna. Ég ætla ekki að ganga í það verk að tína þau öll upp, þó svo að vöndur sá yrði skrúðmikill, heldur láta nægja að staldra við eina málsgrein sem þar er að finna. Þar segir: Ekki er ljóst hver var meining þáverandi meirihluta sveitarfélagsins að færa munnann frá Steinholti, en þar er vitaskuld rætt um gangamunna Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin.
Benedikt sat á framboðslista Miðflokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og hefur raunar verið kallaður til setu í sveitarstjórn Múlaþings á kjörtímabilinu í forföllum oddvita listans. Það var einmitt í umræðu um skipulagsmál tengd Fjarðarheiðargöngum á fundi sveitarstjórnar 14. september. Þetta hefur verið annasamur dagur hjá frambjóðendum Miðflokksins þar sem enginn þeirra níu sem skipuðu annað til tíunda sæti listans gátu mætt til fundarins en gott að Benedikt, sá ellefti, gat svarað kallinu. Hann er því málinu ekki ókunnugur og nógu áhugasamur til þess að skrifa um það greinar í blöð.
En það er verra með minnið. Umgengni fulltrúa Miðflokksins um staðreyndir málsins hefur verið í lakara lagi að undanförnu og margt sem þeir ekki muna eða skilja, þó þeir láti það alls ekki stöðva sig í að nýta málfrelsi sitt um efnið. Þannig háttar til um áður tilvitnaða málsgrein Benedikts um staðsetningu gangamunna Fjarðarheiðarganga við Dalhús.
Til upprifjunar er því rétt að eftirfarandi komi fram, en hér er í öllum tilfellum vitnað beint í fundargerðir bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs:
Þann 1. apríl 2020 er samþykkt samhljóða að skipaður verði starfshópur með fulltrúum frá öllum framboðum í bæjarstjórn, sem hafi það hlutverk að móta afstöðu sveitarfélagsins varðandi legu Fjarðarheiðarganga og vegtenginga í tengslum við þau. Í starfshópinn voru þá skipaðir Karl Lauritzson frá D-lista, Stefán Bogi Sveinsson frá B-lista, Skúli Björnsson frá L-lista og Hannes Karl Hilmarsson frá M-lista.
Á næsta fundi bæjarstjórnar þann 15. apríl er samþykkt samhljóða
að skipa Björn Ármann Ólafsson í starfshóp sem móta á afstöðu sveitarfélagsins um legu Fjarðarheiðarganga og vegtenginga í tengslum við þau, í stað Hannesar Karls Hilmarssonar sem hefur óskað eftir að fá að víkja úr hópnum.
Á bæjarstjórnarfundi 6. maí 2020 skilar framangreindur starfshópur af sér niðurstöðu. Bókun bæjarstjórnar af þeim fundi er hér í heild sinni:
Fyrir liggja fundargerðir starfshóps um legu Fjarðarheiðarganga, sem bæjarstjórn Fljótsdalshérað skipaði á fundi sínum þann 1. apríl.
Til máls tóku undir þessum lið og í þessari röð: Gunnar Jónsson, sem vakti athygli á vanhæfi sínu og úrskurðaði forseti hann vanhæfan. Gunnhildur Ingvarsdóttir, sem bar fram fyrirspurn. Björg Björnsdóttir, Hannes Karl Hilmarsson, Anna Alexandersdóttir, Stefán Bogi Sveinsson, sem m.a. svaraði fyrirspurn, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Björn Ingimarsson, Hannes Karl Hilmarsson, Gunnhildur Ingvarsdótir, Stefán Bogi Sveinsson, Björg Björnsdóttir og Björn Ingimarsson.
Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu starfshópsins samþykkir bæjarstjórn að unnið verði áfram að undirbúningi ganganna miðað við að munni þeirra verði við Dalhús. Jafnframt felur bæjarstjórn umhverfis- og framkvæmdanefnd, í samstarfi við Vegagerðina, að hefja þegar nauðsynlegan undirbúning að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í þessa veru. Bæjarstjórn telur rétt að stefna að því að umhverfismat fyrir nauðsynlegar vegaframkvæmdir verði unnið samhliða gerð aðalskipulags og að í því ferli verði bornir saman þrír kostir í vegalagningu, sem í vinnu starfshópsins hafa verið nefndir Fagradalsbrautarleið, suðurleið og norðurleið. Gögn úr umhverfismatinu, sem og umferðarmati sem Vegagerðin mun einnig láta fara fram, verði nýtt til að taka endanlega afstöðu til legu vegarins í aðalskipulagsferlinu.
Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu, en einn var fjarverandi (GJ)
Þannig er nú það. Hér var enginn meirihluti að verki. Starfshópurinn sem skipaður var fulltrúum allra framboða var einróma í því að leggja til gangamunna við Dalhús. Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að gangamunninn yrði við Dalhús. Fulltrúar Miðflokksins tóku virkan þátt í þessari vinnu og samþykktu málið líkt og allir bæjarfulltrúar, utan raunar einn sem sjálfur vakti athygli á vanhæfi sínu og vék af fundi. O tempora o mores!
Stefán Bogi Sveinsson
Höfundur er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Rétt er að ég var í starfshópnum og ákvað að ganga ekki móti tillögu Vegagerðarinnar sem var eindregin að þeir vildu að göngin kæmu út við Dalhús, til að tefja ekki fyrir hönnun. Kváðust þeir myndu fara strax í hönnun ganganna þar sem ekki væri gerð athugsemd við tillögu þeirra um legu. En ég gerði athugasemdir við áætlanir þeirra um vegtenginu við göngin.
Vegagerðin viðurkenndi aðspurð að um tengiveg milli samgöngumannvirkja væri að ræða og hann ætti því að vera sem greiðastur milli þeirra. Þeim var einnig beint inn á að þeir yrðu að fara í umhvarfismat sem þeir kváðust ætla að gera. Aðspurðir um hvort álit íbúa væri ekki eitt af þeim atriðum sem þeim bæri að skoða í umhverfismati, játuðu þeir því.
En er til matsins kom var ekkert gert í því máli og umhverfismatið að öðru leyti gert af miklum vanefnum. Ekkert tillit var tekið til að um tengiveg milli samgöngumannvirkja væri að ræða."
Björn Ármann Ólafsson (IP-tala skráð) 31.3.2023 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.