006 Hin gáttin til Íslands er AUSTURLAND

Kína og tækifærin þar

Nú áforma kínverskar ferðaskrifstofur að fjölga ferðum til að skoða Norðurlöndin.  Þar virðist Helsingfors leika stórt hlutverk og eru Kínverjar að kanna tilboð í flug þaðan til Íslands.  Samstarf við Finnair væri sterkur leikur fyrir ferðaþjónustuna eystra og því er mikilvægt að setja sig í samband við þá sem fyrst, hreppi þeir hnossið.  Leiðakerfi og markaðssetning Icelandair miðast alfarið við að nota Keflavíkurflugvöll og eru aðrir flugvellir á Íslandi langt frá því að vera á teikniborði í áætlun þeirra.  Stjórnendur Icelandair eru þó ávallt tilbúnir að sinna dreifbýlinu gegn gjaldi og þá ekki endilega vægu.

Icelandair og landsbyggðin

Flugfélög eru ekki ginnkeypt fyrir að setja upp áætlun á staði eins og Egilsstaði og hæpið er að eyða kröftum í þau íslensku eins og dæmin sanna.

Löngum hefur verið vitað að Icelandair ætlar ekki að reka millilandaflug til staða úti á landi.  Það er gegn þeirra viðskiptaáætlun, sem byggir á því að nota Keflavík sem skiptimiðstöð fyrir farþega.  Í hnotskurn  má sjá hvað íslenskir flugrekendur hugsa með að lesa eftirfarandi grein í DV 19.2.2020:

Millilandaflug frá Akureyri og Egilsstöðum ekki á teikniborðinu hjá Icelandair

Við erum ekki með áætlunarflug frá fleiri stöðum en Keflavík til útlanda á teikniborðinu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í viðtali við N4 á Akureyri.

Millilandaflug frá Akureyri jókst um 39% í fyrra og um 70% árið 2018, meðan að 30% samdráttur varð á millilandaflugi í Keflavík í fyrra, samkvæmt Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, sem er framkvæmdastjóri Circle Air, talsmanns nýs flugfélags sem er í bígerð á Akureyri. Félagið hyggst fljúga til 2-3 áfangastaða í Evrópu, til að svala uppsafnaðri ferðalöngun Norðlendinga, sem Þorvaldur segir þreytta á að fara suður í flug.

Meðal þeirra fyrirtækja sem standa að baki hinu nýja flugfélagi er Samherji, Höldur Bílaleiga og Norlandair.

Bogi Nils segir hinsvegar að Icelandair telji það ekki hagkvæmt að nota flugvöllinn á Akureyri eða á Egilsstöðum:

Það er okkar mat að það sé hagkvæmasta og besta leiðin fyrir okkur Íslendinga til að koma ferðamönnum út á land sé gert í gegnum millilandaflug í Keflavík. Það er verið að fljúga á 50 áfangastaði þar um það bil, og tíðnin gríðarleg og ef við náum að tengja í rauninni flug út á land þaðan þá erum við að ná í rauninni að vinna að miklu stærri markaði en ef við værum með flug utan af landi á einn, tvo, þrjá staði einhversstaðar í Evrópu sem dæmi, segir Bogi Nils við N4.

Okkar Keflavík er Osló og Glasgow

Hér verðum við að staldra við og hugsa  okkar gang.  Hvaða val höfum við í stöðunni?

Okkar mótleikur er að færa gátt okkar úr landi, þ.e. frá Keflavíkurflugvelli til Osló annarsvegar og Glasgow hinsvegar.  Flogið yrði á minni vélum fjórum sinnum í viku úr landi, tvisvar á hvorn stað sitthvora dagana. 

Sterkur leikur væri fyrir markaðsskrifstofu hér að benda ferðaskrifstofum á þennan möguleika og þau freista þess að þau semji við flugfélag, sem á sjötíu til hundrað manna vél.  Heppileg vél og hraðfleyg  er Dash8 Q400 skrúfuvél, sambærilega og AIC (Flugfélag Íslands) hefur í rekstri og gæti flutt um sextíu og fimm farþega í ferð milli þessara staða.  Fjarlægðin er áþekk á báða staðina og leggurinn er um tvær klukkustundir og tuttugu mínútur.  Skipuleggja þarf þetta þannig að ríkuleg meðgjöf fengist með verkefninu í tvö til þrjú ár.

Frá Keflavík er flogið til sjötíu og sex staða. Frá Osló er flogið til yfir eitthundrað staða innan Noregs og utan.  Frá Glasgow er flogið til um eitthundrað  staða innan Bretlands og utan.  Vel að merkja, allir staðir innanlands í Noregi og Bretlandi eru erlendis frá okkur séð.  Með því að velja þessa tvo staði erum við að komast inn á leiðakerfi yfir tvöhundruð staða á móti sjötíu og sex.

Fjölmennasti markhópurinn fyrst í stað væru Austfirðingar.  Hafa skal í huga að Pólverjar eru fjölmennir á Austurlandi og frá Osló og Glasgow er samtals flogið til fjögurra borga í Póllandi.  Margir Íslendingar búa í Noregi og til viðbótar starfa þar margir án fastrar búsetu. Markaðssvæði Osló um landveg nær þar að auki langt inn í Svíþjóð.  Hluti þessa markhóps er búsettir annarsstaðar en á markaðssvæði Keflavíkurflugvallar.

Vænlegast er, ef það er í boði, að gera samkomulag við stóra, trygga erlenda ferðaskrifstofu um að sjá um sölu flugmiða.  Hún myndi opna útibú á Austurlandi eða taka upp samstarf við innlenda ferðaskrifstofu, sem er með starfsemi í fjórðungnum.  Öflug erlend ferðaskrifstofa býr yfir þéttu neti í markaðssetningu og í gegnum það eru viðskiptavinir að leita nýrra leiða til að ferðast.   Slíkar ferðaskrifstofur eru einnig með sambönd á sólarstrendur og hafa mun fjölbreyttara úrval en þær sem við þekkjum heima á Fróni, svo ekki ætti mönnum að verða skotaskuld úr því að finna einhverjar ferðir við sitt hæfi.

Hugsanlega er best að styrkja verkefnið fjárhagslega, með því að dreifa frítt flugmiðum á torgum og mannmörgum stöðum í Osló og Glasgow og vekja þannig  almenna athygli og ná til farþega. Ekki er vafi á að slíkt framtak mundi rata í staðbundna fréttamiðla og er það á við talsvert fé í markaðssetningu. Umfjöllun í fréttum er drjúg markaðssetning þar sem áhorfið er með mesta móti og á þeim vettvangi og yrðu margir varir við framtakið. Gott umtal ánægðra farþega er á við víðtæka og fjárfreka markaðssetningu á kostum Austurlands.  Það er hér talin mun heppilegri leið en að greiða beint til ferðaskrifstofu og/eða flugfélagi fyrir markaðssetningu. 

Dæmi LTU sýnir að bein fjárhagsaðstoð til fyrirtækja er ekki heppileg, þar sem fjármunir virtust ekki rata í það sem þeim var ætlað.  Litlar sem engar upplýsingar fengust í Düsseldorf þegar Íslendingar á ferð þar,  leituðu hjá söluaðilum eftir ferðatilboðum til Egilsstaða.

Að þremur árum liðnum þarf skoða árangurinn og meta hvort markaður sé fyrir stærri flugvélar og þá yrði tekin ákvörðun um hvernig standa skal að næstu skrefum í frekari markaðssetningu.

---------------------------

Þetta er síðasta færslan í þessum flokki og þeir sem vilja geta fengið samantektina í einu skjali hér að neðan með því að klikka á skrána.

Kveðja, BVW


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Einar Hansen

Kínverskir kommúnistar, eru í raun nazistar. Þeir eru glæpamenn, sem bera ábyrgð á hundruðum þúsunda kínverja ...

blóð-peningar, eru ekki þess virði að þyggja þá.

Örn Einar Hansen, 29.3.2020 kl. 11:14

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Bjarne.

Takk fyrir þína hlið á málinu.

En.....er þetta eina sem er áhuga-/athyglivert í samantekt minni?

Benedikt V. Warén, 29.3.2020 kl. 13:05

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir athyglisverða samantekt Pelli, þrátt fyrir nánasir og gula skratta.

Magnús Sigurðsson, 29.3.2020 kl. 13:28

4 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þakka þér Magnús.

Benedikt V. Warén, 29.3.2020 kl. 14:14

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Viltu fjölga smitleiðunum (flugleiðunum) fyrir kórónaveiruna?

Theódór Norðkvist, 31.3.2020 kl. 08:32

6 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Theódór.  Dásamleg færsla hjá þér.  Ertu alltaf á svona bjartsýnisflippi?

Benedikt V. Warén, 31.3.2020 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband