Síðasta ferð F8 + GM frá Gardermoen til Reyðarfjaðrar

Síðla kvölds, sennilega um klukkan 20:30 þann 21.maí 1941 hóf Heinkel HE111 H5 sig á loft frá herflugvellinum á Gardermoen.  Ferðinni var heitið til Íslands, en tilgangur ferðarinnar er ekki kunnur.  Gögn sem svifta hulunni af þeirri ráðgátu hafa enn ekki litið dagsins ljós, hvað sem síðar kann að verða. 

Flugstjóri í þessari ferð var Hans Joackim Dürfeld (☆1910).  Hann hafði getið sér gott orð í Spánarstyrjöldinni og notið virðinga á æðstu stöðum Spánar og Þýskalands og hlotði heiðursorðu vegna þeirra verkefna.  Hann var ný kvæntur Leonoru Dürfeld.

Þennan sama dag lagði orustuskipið Bismark úr höfn frá Bergen áleiðis til Íslands, í sína einu för út á Atlandshafið.  Leiddar hafa verið að því líkur að flug vélarinnar, sem bar einkennin F8+GM, hafi tengst þessari siglingu Bismark.  Tími flutaksins var óvenjulegur svona síðla kvölds og því er talið hugsanlegt að áhöfnin hafi átt að kanna ferðir óvinaskipa þjóðverja á hafinu milli Íslands og Færeyja og sér í lagi hvort einhver floti óvinanna lægi fyrir skipinu í jómfrúferð þess, reiðubúinn að ráðast til atlögu við þetta flaggskip Hitlers. 

Eftir flugtakið á Gardermoen, eru mestar líkur á að stefnan hafi verði tekin á Solaflugvöll til að taka eldsneyti til Íslandsfararinnar, og hefur flugtak á Sola trúlega verið um klukkan 22:00 þann 21.maí 1941.

Solaflugvöllur (Stavanger) var öflug bækistöð Luftwaffe fyrir árása- og könnunarflug út á Atlandshaf og heppilegur brottfarastaður fyrir þunghlaðnar flugvélar á leið í langan leiðangur.  Flugvöllurinn er skammt frá ströndinni og ekki yfir háa fjallgarða að klífa á drekkhlöðnum loftförum.  Frá Solaflugvelli hefur stefnan verið tekin á Orkneyjar og það svæði kannað áður en strikið var tekið á Ísland.

Veðurspár fyrir svæðið voru af skornum skammti, en skv. veðurkortum, sem eru til frá þessum tíma, var lítil lægð vestur af landinu og langt á milli þrýstilína svo það hefur verið hæg suðlæg átt á svæðinu milli Noregs og Íslands.  Loftrakastig var hátt og því hætta á þoku.   Samkvæmt veðurgjöf frá Dalatanga þann 22.4 kl 07:00 var logn hiti 6°C, skyggni innan við 100m þoka og ekki sá til lofts.  Gera má ráð fyrir að þoka hafi legið með ströndinni og inn um alla firði austanlands.  Hugsanlega hefur efra borð þokuslæðunnar náð upp í miðjar fjallshlíðar, en þar fyrir ofan hefur verið léttskýjað.  Skýjabakkar hafa verið í fjöllum og hulið þau.

Frá15. maí til 25. Júlí ár hvert, er bjart allan sólahringinn við Ísland, þannig að auðvelt hefur verið fyrir áhöfnina að skima eftir óvinaskipum hefðu þoka og ský ekki byrgt mönnum sýn.

Með Hans Joackim í áhöfn voru Franz Breuer yfirliðforingi (☆1914), Josef Lutz undirliðsforingi (☆1917) og Friedrich Harnisch loftskeytamaður (☆1914).

Flugtíminn frá Solaflugvelli hefur verði á fjóða tíma.  Reikna má með að áhöfnin hefði getað flogið með austurströndinni í um klukkustund, áður en hún hefði orðið að hverfa heim aftur, vegna eldsneytisskorts. Þegar vélin nálgaðist ströndina, hefur verið flogið í sjónflugssklyrðum og áhöfnin hefur séð móta fyrir landi, hulið þoku. Flugstjórinn  hefur lækkað flugið í þeirri von að sjá niður til að athuga hvort óvinurinn leyndist einhvers staðar innanfjarða.  Flogið hefur verið fram og til baka meðfram ströndinni og ber vitni að hafa heyrt í flugvél allt að fjórum sinnum á þessum tíma.

Líklegast er að flugstjórinn hafi ákveðið að lækka flugið enn frekar svo hann gæti flogið rétt yfir þokunni í þeirri veiku von að sjá niður.  Þokan var hinsvegar þétt og hefur náð frá sjó með efra borðið í um fimm- til sexhundruð metra hæð.  Þrátt fyrir léttskýjað veður þar fyrir ofan hefur einstaka tindur verði þakinn skýjum.  Þarna hefur flugstjórinn misreiknað sig og flogið inn í skýjaþykkni sem hefur umvafið Snæfuglinn og Sauðatind.  Of seint hefur hann áttað sig á mistökum sínum með þeim afleiðingum að hann flýgur vélinni beint í stálið og ferst þar  með áhöfn sinni.

Við áreksturinn splundraðist vélin og önnur sprengjan af tveimur sprakk.  Aftari huti flaksins með vængjum og mótorum hrundi niður með klettaveggnum og dreifist í urðinni.  Hluti flugstjórnarklefans varð eftir á nibbu í klettabeltinu á þeim slóðum er vélin hitti bjargið.

Um stund bergmálaði sprengingin milli fjallanna og síðan varð allt hljótt.


(Grein sem birtist í Austurglugganum 18 maí 2011)
      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband