23.12.2010 | 08:21
Jólahugleiðing frúarinnar.....
....um sambúð okkar, settar á þrykk fyrir þessi jól. Hér má lesa hennar útgáfu á framkvæmdagleði undirritaðs:
Ég á alveg dæmalaust duglegan mann, það eru engar ýkjur. Það má kannski orða það svo að hann sé þúsundþjalasmiður. Og hann vindur sér yfirleitt í hlutina þ.e.a. s.þegar hann er búinn að hugsa það út hvernig best sé að nálgast verkið. Og þá gengur það líka, ja maður minn.
Oft á tíðum veldur þetta hugsað til enda stig mér angri, en það er sennilega vegna þess að ég er í tvíburamerkinu og þar af leiðandi hentar mér betur að hlutirnir séu framkvæmdir strax , og þá á ég við á stundinni..án mikillar umhugsunar. Þarna greinir okkur á.
Jólin og undirbúiningur þeirra hafa í gegnum tíðina verið nokkuð stessandi í okkar búskap, svo ekki sé meira sagt. Þarna á ég við að eins og sönnum Íslendingum sæmir þá höfum við hjónakornin oft og iðulega brasast eitthvað smotteri fyrir blessuð jólin.
Minn elskulegi eiginmaður hefur til dæmis átt það til eftir vandlega íhugun að skvera upp stiga innanhúss svona rétt áður en klukkurnar hringja inn hátíðina.
Einu sinni tók hann sig til og lakkaði öll gólf seint á þorláksmessukvöld. Samkvæmt leiðbeiningum átti gólfið að vera orðið snertiþurrt um hádegisbil á aðfangadag en þar sem verkið dróst eitthvað fram eftir nóttu þá varð fallega gólfið okkar ekki gangþurrt fyrr en vel var liðið á daginn. Það hefði verið gaman ef við ættum í fórum okkar myndbandsupptöku af því þegar við sveifluðum okkur og strákunum okkar þremur fimlega á milli herbergja. Þið getið samt ekki trúað hve glöð og stolt við vorum á aðfangadagskvöld þegar við gengum um á sparisokkunum á stíflökkuðu, gólfinu☺
Rauður er litur jólanna og þess vegna var það ósköp eðlilegt að okkur langaði til þess að flikka upp á gamla litla ískápinn okkar fyrir ein jólin. Þetta árið hafði mér tekist að ná hamrinum af mínum manni á fyrra fallinu þannig að staðan á þorláksmessukvöld var bara góð. Í þetta skipti var dúkur á ölllum gófum og ég búin að bóna hvern krók og kima í íbúðinni. Jólaskrautið var komið á sinn stað og litlu drengirnir okkar þrír sofnaðir í jólanáttfötunum sínum. Allt var tilbúið fyrir hina miklu hátíð.
Eins og fyrr sagði þá er rauður litur jólanna og þegar við stóðum nú þarna og glöddumst yfir tilveru okkar þá læddist allt í einu að okkur óstöðvandi þrá eftir að fullkomna verkið. Ekki kann ég að greina frá því hvort okkar það var sem allt í einu fann hve nauðsynlegt það var að klæða gamla ískápinn okkar í rauðan búning en fyrir einskæra tilviljun þá átti minn elskulegi eiginmaður spreybrúsa og það tvo fyrir einn sem voru sneisafullir að rauðu lakki. Eins og hendi væri veifað var sá gamli drifinn fram á gólfið og áður en langt um leið hafði hann verið færður í þennan yndislega lit jólanna. Við horfðum með stolti á þann gamla sem var eins og nýr. Nú gátum við gengið til hvílu þreytt en sæl með vel heppnaða framkvæmd
.eða það héldum við.
Þegar út úr eldhúsinu var komið brá okkur heldur betur í brún vegna þess að það var eins og lámóða lægi yfir allri stofunni sem skömmu áður hafði glansað af glæsileik. Hvert sem litið var lá rauður salli yfir öllu, litur jólanna að vísu en við höfðum nú ekki ætlað honum að hylja bæði hólf og gólf.
Ykkur að segja þá entist sá gamli rauði okkur lengi og minnti okkur á að það er ekkert voðalega snjallt að beita spreybrúsa á miðju endhússgólfi þegar jólin eru handan við hornið.
Svo mörg voru þau orð.
Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár.
Athugasemdir
Ef ekki þá óska ég þér og þínum gleðilegra jóla.
Magnús Sigurðsson, 23.12.2010 kl. 21:46
Hahahahha dásamleg saga. Gleðilega jól og farsæld á nýju ári.
(IP-tala skráð) 24.12.2010 kl. 16:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.