1.9.2010 | 14:41
Alltaf má fá nýtt skip og annað föruneyti.
Nú hefur Landsbakinn og Íslandspóstur tekið sér Morgunblaðið, Ríkisútvarpið og fleiri stofnanir sér til fyrirmyndar og í nafni hagræðingar og sparnaðar, lokað sinni starfstöð á Stöðvarfirði.
Landsbyggðamenn mega hafa það, að ávallt eru það okkar minnstu bræður sem fyrst finna fyrir sparnaði og hagræðingu. Það virðist kennt í virtustu skólum þjóðarinnar, að best sé að skera það sem lengst er í burtu frá höfuðstöðvunum. Það eru engin ný sannindi.
Spaugstofan skipti nýverið um skipsrúm. Er það eitthvað sem hægt er að skoða hér? Í Fjarðabyggð er starfræktur öflugur sparisjóður. Gæti hann yfirtekið starfsemi Landsbankans á Stöðvarfirði og jafnframt þjónustu póstsins? Eru hér tækifæri til sóknar? Ástæðulaust að leggja árar í bát baráttulaust.
Hefur það verið rætt? Eru einhverjir vankantar á því að opna útibú frá Sparisjóði Norðfjarðar á Stöðvarfirði og jafnvel viðar um Austurland? Getur nýr bæjarstjóri í Fjarðabyggð ekki leiðbeint mönnum í þessu?
Sjálfur hef ég oft hugsað að færa allt mitt fjármagn í Sparisjóðinn, en þegar málin eru síðan skoðuð í kjölinn, sé ég að flestir mínir reikningar í mínus. Veit ekki hvort hægt er að opna reikning í mínus, þó ég hafi eitt sinn átt þar sparisjóðsbók númer 22 í Sparisjóði Norðfjarðar þegar Jón Lundi réði þar ríkjum.
En það er nú allt önnur saga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.